Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 ágúst 2006

Skemmtileg mynd úr kosningabaráttunni

Fjölskylduskemmtun Sjálfstæðisflokksins í maí 2006

Félagi minn sendi mér um daginn mynd sem var tekin á fjölskylduskemmtun Sjálfstæðisflokksins þann 26. maí sl. - daginn fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þann dag voru miklar annir hjá okkur sem vorum í kosningabaráttunni. Fjölskylduhátíðin var haldin í miðbænum venju samkvæmt þann dag, en á miðbæjarsvæðinu voru nær öll framboðin með skemmtun og skemmtilega viðburði, sem er hefð við lok baráttunnar. Jónsi spilaði og söng fyrir okkur ásamt fleiru tónlistarfólki í blíðunni þennan fallega sólardag og við grilluðum svo fyrir gesti og gangandi.

Á þessari mynd er ég greinilega í miklum önnum ásamt Oktavíu Jóhannesdóttur og Kristjáni Þór Júlíussyni, en það er sennilega ekki alveg tölu komið á það hversu margar pylsur ég setti á þennan dag. Þetta var notalegur og góður dagur. Nú er rúmur mánuður síðan að ég hætti sem formaður flokksfélags hér í bænum og það hefur verið alveg verulega notalegt að hafa það rólegt og þurfa ekki að spá að neinu leyti í pólitísku verkefnin hér í bænum nema þá bara á þessum bloggvef mínum og vera laus við skyldurnar sem fylgja formennskunni.

Það verður að ráðast nú á næstu vikum hvort að ég hafi áhuga á að vera í stjórn hinna flokksfélaganna tveggja hér í bænum sem ég er félagsmaður í en það styttist nú mjög bráðlega í aðalfundi þeirra. Það er vissulega spennandi kosningavetur framundan og ég mun svo sannarlega dekka hann vel á þessum bloggvef og heimasíðunni minni, pistlavettvangnum, sem er nú komin úr stuttu sumarfríi en þar munu birtast sunnudagspistlar í allan vetur, venju samkvæmt.

Ég er pólitískur áhugamaður og hef áhuga á að vera ekki bara þögull áhugamaður heima í stofu, eins og flestir ættu að vita sem eitthvað þekkja til mín.