Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 ágúst 2006

Castro verður áttræður í kyrrþey

Fidel Castro

Í dag er Fidel Castro áttræður. Einhverntímann hefði verið slegið upp veislu af minna tilefni en því á Kúbu. En svo ber við að á áttræðisafmæli leiðtogans fræga er ekkert að gerast. Í byrjun þessa mánaðar gerðist það í fyrsta skipti á valdaferli Castros og stjórnar hans í þessi 47 ár valdaferilsins að hann hefur orðið að afsala sér völdum, tímabundið reyndar, vegna veikinda sinna. Castro varð að gangast undir skurðaðgerð og hefur ekki birst opinberlega í sjónvarpi eftir þau veikindi. Engin er því hátíðin í einræðisríkinu á þessum degi. Enn merkilegra en að Castro sjáist ekki er áberandi fjarvera bróður hans, Raul Castro, sem er starfandi forseti í veikindum bróður síns.

Það að vera ráðandi í stjórnmálum snýst að mörgu leyti um það að koma vel fram. Betur en margir aðrir veit Fidel Castro þetta. Hann hefur stjórnað með sýnilegu valdi á Kúbu í tæpa hálfa öld, þar sem stormandi boðskapur hans hefur skipt sköpum fyrir hann að hafa haldið völdum og getað ríkt þar þetta lengi. Að því kemur á ævi hans sem og allra annarra að halla tekur undan fæti. Það vekur því auðvitað verulega mikla athygli á áttræðisafmæli þessa einræðisherra á Kúbu, þar sem engar kosningar eða sýnilegt fjölflokkakerfi er leyft, að engar sjónvarpsmyndir berast af honum eða neitt, aðeins örfáar ljósmyndir.

Framkoma í stjórnmálum á okkar fjölmiðlatímum snýst oftast nær um það hvernig fólk kemur fram. Komi það ekki fram eða er fjarverandi hlýtur kastljósið að beinast að fjarverunni. Í landi eins og Kúbu snýst allt um að sýna fram á vald sitt. Það hefur Castro gert og gerði margoft meðan að hann var veikur fyrir nokkrum árum er hann féll illa á opinberri samkomu og lærbrotnaði. Það vekur því athygli að það sem sjáist til Castro á afmælinu séu myndir af honum alvarlegum á svip í adidas jogging-galla (talandi um sannkallaða kaldhæðni) og greinilega fölan á brá. Varla gera þær neitt nema auka á allar spurningarnar um veikindin.

Í raun minnir þetta mig á það þegar að reynt var að halda því leyndu fyrir alheiminum um mjög langan tíma að Boris Yeltsin væri alvarlega hjartveikur og eða að Leonid Brezhnev var lokaður af til að loka á allar sögusagnir um heilsufar hans og að hann væri í raun orðinn ófær um daglega stjórn í landi sínu. Það er mjög erfitt að vera yfirgnæfandi í lokuðu samfélagi eins og Kúbu, með einræði og engum alvöru kosningum, þar sem leiðtoginn er heilsuveill og sá sem með völdin á að fara á meðan sést ekki heldur.

Það er því varla undrunarefni að það gerist fyrr en síðar að reynt sé að loka á orðróminn. En það vekur athygli á þessum merku tímamótum á ævi leiðtoga Kúbu að ekki séu sýndar sjónvarpsmyndir af honum og hlýtur að vekja verulega margar spurningar, jafnt fyrir þá sem hafa vanist einræði og einum leiðtoga, án kosninga, til áratuga og þeirra sem fylgjast með einræðinu fjarri eymd kommúnismans, sem enn ómar í ríki einræðisherrans.