Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 ágúst 2006

Óheppileg ákvörðun

Árni Johnsen

Yfir morgunmatnum mínum í morgun las ég þá frétt í Fréttablaðinu að Árna Johnsen, fyrrum alþingismanni, hefði verið veitt uppreisn æru og því veitt í raun kjörgengi fyrir næstu alþingiskosningar. Ég hef hingað til staðið í þeirri trú að það þurfi að líða a.m.k. fimm ár frá því að viðkomandi fær það þungan dóm að hann hefur áhrif á kjörgengi þar til að ræða megi möguleikann á því að hann fái kjörgengi. Rúm þrjú ár eru liðin frá því að Árni var dæmdur í tveggja ára fangelsi, fyrra árið óskilorðsbundið. Hann sat af sér sinn tíma og tók út sína refsingu. Hægt er að veita undanþágu og það er það sem gerst hafði, enda fimm árin auðvitað ekki liðin. Finnst mér eiginlega með ólíkindum að Árni Johnsen skuli ekki ganga í gegnum nákvæmlega sömu viðmið og allir aðrir í hans stöðu. Einfalt mál, hreint út sagt.

Ég er ekki sammála því að veita skuli Árna Johnsen uppreisn æru, það er bara svo afskaplega einfalt. Það er að mér finnst með ólíkindum hvernig þessa ákvörðun ber að og að það séu handhafar forsetavalds sem undirriti þessa undanþágu. Ég hef jafnan talist nokkuð trúr og tryggur Sjálfstæðisflokknum og lagt honum lið. Ég mun hinsvegar aldrei tala máli svona ákvörðunar og ég undrast hana mjög, í ljósi þess að alþingiskosningar eru framundan. Heiftin meðal landsmanna í garð Árna Johnsen vegna afbrota hans eru enn til staðar, einkum í ljósi þess að hann hefur enga iðrun sýnt. Það er mjög undarlegt að Árni skuli ekki fara nákvæmlega sömu leið og gangast undir það sama og annað fólk í sömu stöðu. Mér finnst það afleitt að fólk geti fengið einhverja undanþágu frá því sem almennt telst. Í ljósi aðstæðna er þetta mjög óheppilegt.

Þetta er því að mínu mati afskaplega slæm ákvörðun sem ég get allavega ekki talað fyrir eða stutt. Hafði ég í skrifum á fjölda staða á netinu farið vel yfir skoðanir mínar hvað varðaði kjörgengi Árna Johnsen. Allir þeir sem kynna sér þau skrif sjá að ég vildi ekki að Árna yrði veitt uppreisn æru eða að honum yrði tryggt kjörgengi í næstu alþingiskosningum. Í ljósi þessa get ég ekki annað en talið þessa ákvörðun til mikilla vansa og tel hana slæma. Fátt meira um það hægt að segja.