Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 ágúst 2006

Siv gefur kost á sér til formennsku

Siv Friðleifsdóttir

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra og ritari Framsóknarflokksins, tilkynnti í dag, á 44. afmælisdegi sínum, formlega um framboð sitt til formennsku í Framsóknarflokknum. Allt frá því að Jónína Bjartmarz og Guðni Ágústsson tilkynntu um framboð sín til varaformennsku í Framsóknarflokknum hefur verið beðið eftir því að Siv tilkynnti um hvað hún hyggðist gera. Það hefur blasað við í nokkrar vikur að Siv væri alvarlega að íhuga formannsframboð og síðustu daga hefur stefnt í að hún væri búin í raun að gera upp hug sinn og biði aðeins eftir rétta tímanum til að kynna ákvörðunina. Í gær birtist grein eftir Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúa, í Fréttablaðinu þar sem hann lýsti yfir stuðningi við hana og skoraði á hana til framboðs og hið sama hafa stjórnir ýmissa flokksfélaga tilkynnt um nú síðasta sólarhringinn.

Siv Friðleifsdóttir, sem er eins og fyrr segir 44 ára í dag, hefur verið lengi framarlega í forystusveit Framsóknarflokksins. Hún var kjörin formaður Sambands ungra framsóknarmanna árið 1990, fyrst kvenna. Sama ár leiddi hún Neslistann, sameiginlegt framboð minnihlutaaflanna á Seltjarnarnesi, ásamt Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur, síðar forsetafrú. Siv náði aldrei að höggva í hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi en henni tókst hinsvegar að vekja athygli á sér í forystu flokksins. Þegar að Steingrímur Hermannsson hætti í stjórnmálum árið 1994 til að verða seðlabankastjóri losnaði leiðtogastóll flokksins í Reykjaneskjördæmi. Siv og Hjálmar Árnason gáfu kost á sér í leiðtogaslaginn. Eftir harða baráttu þeirra náði Siv að sigra hann og leiddi svo flokkinn í þingkosningunum 1995. Hún og Hjálmar hlutu bæði kjör í kosningunum 1995.

Siv Friðleifsdóttir varð umhverfisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vorið 1999 en hún hafði sýnt áhuga á ráðherrastól fjórum árum áður, en ekki fengið. Siv var áberandi sem umhverfisráðherra og tókst að verða einn af mest áberandi ráðherrum flokksins. Frá árinu 2001 hefur hún haldið úti vef sínum, www.siv.is, og skrifað þar með mjög áberandi hætti um einkalíf sitt og stjórnmálastörf sín. Kjósendur hennar og stjórnmálaáhugamenn hafa þar fylgst með verkum hennar. Ennfremur hefur hún tekið myndir og birt á vefnum og vakið athygli fyrir lífleg efnistök. Hún missti ráðherrastól sinn í uppstokkun í ríkisstjórninni haustið 2004 er Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Deilt var mjög um þá ákvörðun og sú skoðun verið áberandi að það hafi haft úrslitaáhrif um að flokkurinn hafi lent í miklum ólgusjó.

Siv varð heilbrigðisráðherra í uppstokkun innan ríkisstjórnarinnar í mars 2006 þegar að Árni Magnússon hætti í stjórnmálum, en hann hafði allt frá alþingiskosningunum 2003 verið talinn líklegur eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli. Siv Friðleifsdóttir hefur verið ritari Framsóknarflokksins allt frá árinu 2001 þegar að forveri hennar í embættinu, Ingibjörg Pálmadóttir, hætti í stjórnmálum. Það er ekki hægt að segja annað en að Siv hafi lagt mikið af mörkum í flokksstarfi Framsóknarflokksins. Hún hefur enda sem ritari flokksins verið formaður flokksstjórnar Framsóknarflokksins og leitt allt innra starf hans. Forysta hennar í flokksstarfinu hefur verið nær óumdeilt og hún hlýtur að leggja þau verk sín öll, sem og verk í ríkisstjórn af hálfu flokksins, í dóm flokksmanna nú. Er ekki undarlegt að hún fari í þessa kosningu.

Siv FriðleifsdóttirJón Sigurðsson

Með þessu er semsagt ljóst að Siv Friðleifsdóttir og Jón Sigurðsson munu takast á um formennsku í Framsóknarflokknum. Er mikið talað um það, og varla undarlegt, að bandalög hafi myndast til forystustarfa í flokknum. Siv og Guðni séu saman í kosningabandalagi og hinsvegar þau Jón og Jónína. Að sjálfsögðu segist Siv ekki vera í bandalagi við aðra um forystustörfin innan flokksins en það hlýtur að vera nokkuð augljóst að þær fylkingar sem tekist hafa á í flokknum nú um nokkurra ára skeið takist nú á um forystu Framsóknarflokksins á flokksþinginu sem hefst eftir rúma viku. Sá slagur mun verða spennandi og það hefur stefnt í hann mjög lengi, en það verður nú hlutskipti Sivjar að fara í framboð gegn óskakandidat fráfarandi flokksformanns til forystu.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig kosningar fara á flokksþinginu sem verður eflaust mjög mikið átakaþing um forystusess. Framsóknarflokkurinn er eins og allir sjá að ganga í gegnum miklar breytingar. Öflugur forystumaður hans í um þrjá áratugi er að hverfa af hinu pólitíska sviði og þáttaskil blasa því við hjá Framsóknarflokknum. Hvort sem að Jón eða Siv leiða flokkinn á þeim kosningavetri sem brátt hefst má fullyrða að flokkurinn þarf að fara í verulega uppstokkun til að ná að endurheimta sína stöðu að þingkosningum loknum eftir níu mánuði.

Það skiptir þó auðvitað máli að mati flestra flokksmanna hvor aðilinn muni vinna og leiða flokkinn. Það má væntanlega búast við spennandi og jöfnum kosningum, væntanlega þeim mest spennandi í sögu Framsóknarflokksins allt frá árinu 1944 er Hermann Jónasson felldi Jónas Jónsson frá Hriflu, sitjandi formann, af formannsstóli.