Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 september 2006

Hjúskapartal til vinstri

Steingrímur J.

Um helgina hélt Vinstrihreyfingin - grænt framboð flokksráðsfund sinn. Flokkurinn er ekki gamall eins og flestir stjórnmálaáhugamenn vita. Hann var stofnaður skömmu fyrir þingkosningarnar 1999 og hefur allt frá stofnun verið leiddur af Steingrími J. Sigfússyni. VG og Samfylkingin urðu til í kjölfar endaloka gömlu vinstriflokkanna, en það mistókst eins og flestir vita að steypa þeim saman í algjöra samfylkingu vinstrimanna eins og margir stefndu að lengi vel. Í kosningunum 1999 hlaut VG sex þingmenn kjörna en hann missti einn þingmann í kosningunum 2003. Það var flokknum mikið áfall, eins og gefur að skilja. Síðan þá hefur Steingrímur J. mildast mjög í afstöðu sinni til Samfylkingarinnar og er nú að því er virðist til í hvað sem er til að mynda stjórn með Samfylkingunni. Metur það sjálfsagt sinn eina raunhæfa kost að því að komast til valda.

Skilaboð formanns VG á fundinum voru þau að vinstriflokkarnir ættu að fylkja sér saman í kosningabandalag til höfuðs stjórnarflokkunum sem leitt hafa landsstjórnina í þrjú kjörtímabil. Allt þetta lyktar einna helst af því að Steingrímur J. vilji komast í ríkisstjórn og ná einhverjum völdum. Skiljanlega er Steingrímur J. orðinn hundleiður á stjórnarandstöðu. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1983, rúm 23 ár. Í tvo áratugi af þessum tíma hefur hann verið í stjórnarandstöðu. Hann var aðeins í stjórnarliðinu árin 1988-1991 en þá var hann eins og flestir vita landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Á landsfundinum biðlaði Steingrímur J. mjög kröftuglega til Samfylkingarinnar, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur eins og fyrr segir. Það gerði hann reyndar líka á landsfundi flokksins í október í fyrra.

Það virðist vera sama vinstra ákallið núna. En þó er staðan nokkuð breytt nú frá því sem var í október 2005, og reyndar í síðustu alþingiskosningum. Fylgi flokkanna mælist í könnunum Gallups nær hið sama. Þeir standa á pari í fylgismælingu. Þetta hefði þótt órafjarri eftir kosningarnar vorið 2003, þegar að Samfylkingin hlaut 20 þingsæti en VG hlaut 5, fimmtán sætum minna. Í könnun Gallups sem birt var á föstudag munaði aðeins tæpum þrem prósentustigum á flokkunum. Það sást enda í Kastljósi á föstudagskvöldi að Össur Skarphéðinsson var ekki brattur þar. Hann var ekki sáttur með fylgi Samfylkingarinnar og stöðu flokkanna, enda hefði kosningabandalag flokkanna nú það í för með sér að þeir yrðu væntanlega jafningjar í samstarfinu, en Samfylkingin ekki ofjarl VG, eins og svo lengi var.

ISG

Það hlýtur að jafnast á við martröð fyrir þá að vakna upp við svona fylgistap undir forystu Ingibjargar Sólrúnar og að vera nú á pari við kommana í VG. Það var ekki draumsýn þeirra sem studdu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til forystu í Samfylkingunni fyrir rúmu ári. Það er reyndar spurningin hvort enn muni halda áfram að minnka munurinn eða hvort VG hreinlega muni toppa Samfylkinguna. Mér sýnist að Steingrímur J. sé fyrst og fremst að reyna að skora keilur og senda boltann yfir á Samfylkinguna. Enda sást það vel á viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar eftir þetta fræga boð á föstudag að hún er ekki áfjáð í samstarf. Minnti hún á að VG hefði ekki viljað fylkja liði í Samfylkinguna um árið og hefði ennfremur bundið enda á hið langlífa R-listasamstarf í borginni sem ríkti þar í 12 ár.

Ingibjörg Sólrún er greinilega ekkert sérstaklega ginnkeypt í samstarf, enda myndi það væntanlega ekki þýða yfirburði Samfylkingarinnar og yrðu þeir væntanlega á pari þar, rétt eins og í öllum skoðanakönnunum þessar vikurnar. Það er svo einfalt. VG er mun brattari nú en í fyrra. Þá var það örvænting sem skein á bakvið tal um vinstristjórn og samstarf til vinstri. Nú er hann að kasta boltanum upp til að taka frumkvæðið í baráttunni. Hann er að stilla sér sem talsmanni samstarfs en vilji Samfylkingin ekki vinna með þeim á jafnræðisgrundvelli sé þessi möguleiki ekki endilega fyrsti kostur VG að vori eftir kosningarnar. Þetta er snilldarleikur hjá Steingrími J. og mjög athyglisverður að öllu leyti. Hann er með þessu að kasta athyglinni yfir á Samfylkinguna og mun kenna henni um að hafa klúðrað vinstrasamstarfi hafni þau þessu boði hans.

Eins og hann hefur réttilega bent á útilokaði Samfylkingin fyrir kosningarnar 2003 að tala til vinstri fyrir kosningarnar og þá var ekkert bandalag og ekkert rætt beint um samstarf. Steingrímur J. er því bara að búa í haginn fyrir sig og sína stöðu að kosningum loknum. Hann sér að lítill vilji er fyrir beinu bandalagi til vinstri og vill reyna að fá það skýrt frá Samfylkingunni sem vill halda öllu opnu. Reyndar þarf engan að undra þó að Steingrímur J. sé vígreifur þessar vikurnar. VG eflist sífellt og virðist hagnast mjög á stefnuleysi Samfylkingarinnar. Steingrímur virðist vera vinsælasti leiðtoginn á vinstrivæng stjórnmálanna skv. mati landsmanna og hefur markað sér sess sem slíkur í huga mjög margra stjórnmálaáhugamanna. Samfylkingunni hefur fatast flugið og nægir að líta á skoðanakannanir Gallups til að sjá hrapið hjá flokknum.

vinstri - hægri

Spurning er hvernig vinstrisinnað bónorðið fari að lokum í Ingibjörgu Sólrúnu. Eins og fyrr segir fannst mér að hún væri ekki mjög ginnkeypt í þennan ráðahag og vildi skiljanlega hugsa sig aðeins betur um. Spurning er hvort að þau séu ekki samferða á vegferðinni til fortíðar þau Steingrímur og Ingibjörg. Mér hefur löngum fundist það. Ingibjörg Sólrún telur hinsvegar fátt gott berast sér frá vinstrislagsíðu stjórnmálalitrófsins. Sennilega skynjar hún að þar liggja ekki sóknarfærin. Afdönkuð vinstristefna að hætti VG er ekki það sem hún vill í raun, þó að það gæti tryggt henni völdin. En það gætu orðið dýrkeyptir samningar fyrir hana. Það er því varla undarlegt að Ingibjörg Sólrún horfi á allar aðstæður og hagnaðinn af bónorðinu mælt í áhrifum, völdum og pólitískum eignum áður en hún samþykkir að fara í eina sæng með Steingrími J.

Það myndi styrkja Sjálfstæðisflokkinn verulega ef að vinstrimenn myndu fylkja liði, enda tel ég að landsmenn vilji ekki vinstristjórn og vinstristefnu til valda. Fari svo að vinstriöflin stemmi sig saman tökum við því brosandi, vitandi það að kjósendur vita hvað þeir hafa nú í góðri stöðu þjóðfélagsins heilt yfir. En væntanlega mun óeining vinstrimanna halda áfram, það er mun líklegra að óeining þeirra verði þeim svo erfið að þeir geti ekki stemmt sig af og horft saman til verkefnanna á kosningavetri. Hvorugur vill festa sig hinum og þeir vilja halda öllu opnu. Óeining vinstrimanna er rómuð og það er gaman að fylgjast með henni, nú sem ávallt áður.