Útlit fyrir sviptingar hjá SF í Reykjavík
Samfylkingin í Reykjavík hefur ákveðið að boða til prófkjörs til að velja frambjóðendur sína á listum flokksins í borginni fyrir komandi þingkosningar, þann 12. maí nk, og mun prófkjörið fara fram þann 11. nóvember nk. Samfylkingin á átta þingsæti í Reykjavík, fjögur í hvoru kjördæmanna, og fyrirséð að tekist verður á af krafti um efstu sæti beggja lista flokksins. Þingmenn flokksins í borginni eru, fyrir RN: Össur Skarphéðinsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og fyrir RS: Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Mörður Árnason og Ágúst Ólafur Ágústsson. Flest bendir til þess að þau ætli öll að gefa kost á sér í prófkjörinu. Búast má við að einhver þeirra séu í fallhættu, einkum vegna þess að sótt er að þeim og vegna þess að gangi kannanir eftir fái flokkurinn færri sæti en átta. Það er alveg ljóst að til tíðinda mun draga hvað varðar hinn leiðtogastólinn, en gefa má sér það nokkurn veginn að Ingibjörg Sólrún verði ein í kjöri um fyrsta sætið. Í kosningunum 2003 leiddu Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir lista flokksins. Þá var Össur afgerandi leiðtogi í fyrsta sætinu, enda formaður flokksins, og enginn sem fór gegn honum. Bryndís Hlöðversdóttir tókst á við Jóhönnu um hinn leiðtogastólinn. Búast má við að innkoma Ingibjargar Sólrúnar í leiðtogastól í borginni nú leiði til leiðtogakjörs milli Jóhönnu og Össurar. Svo má velta því fyrir sér hvort að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, stefni ekki að leiðtogaframboði og vilji reyna að leiða lista í höfuðborginni, sem hlýtur í raun að vera ósköp eðlilegur metnaður af hálfu varaformanns í stjórnmálaflokki. Um fátt hefur verið rætt meira seinustu vikurnar hvernig sambandið innan forystu Samfylkingarinnar sé. Frægar eru sögurnar af stirðu samstarfi formannsins og þingflokksformannsins Margrétar Frímannsdóttur. Enn verri virðist samkomulagið milli Ingibjargar og Ágústs. Þær sögur eru lífseigar að hún vilji losna við varaformanninn og hefur heyrst að hún vilji aðra og þekkta frambjóðendur, sem ekki hafa verið í pólitík áður, til framboðs í prófkjöri Samfylkingarinnar í borginni til að reyna að slá hann út. Hafa nöfn Andra Snæs Magnasonar, rithöfundar, og Sigríðar Arnardóttur, morgunsjónvarpskonu, verið lífseig í því skyni. Reyndar hefur margoft verið sagt, sem rétt er, að Ingibjörg Sólrún hafi ekki stutt Ágúst Ólaf til varaformennsku heldur andstæðing hans í kjörinu, Lúðvík Bergvinsson, alþingismann í Suðurkjördæmi. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi og fyrrum borgarstjóri, tilkynnti í gær að hún myndi gefa kost á sér í prófkjörinu og stefnir á fjórða sætið. Hún lýsti því þá einnig afdráttarlaust yfir að ef að hún næði kjöri á Alþingi myndi hún biðjast lausnar úr borgarstjórn. Steinunn Valdís var borgarstjóri síðustu 18 mánuði seinasta kjörtímabils og þótti standa sig vel miðað við erfiðar aðstæður við endalok R-listans. Þrátt fyrir það var henni ekki treyst fyrir því að leiða Samfylkinguna í kosningunum í vor og því skiljanlegt að hún vilji breyta til og fara yfir í landsmálin. Það er einnig nokkuð öruggt að margir flokksmenn sjá eftir að hafa ekki falið henni leiðtogastöðuna í prófkjöri flokksins í febrúar, enda er óhætt að segja að útkoman hafi valdið flokksmönnum verulegum vonbrigðum, enda hlaut flokkurinn aðeins fjóra menn kjörna. Mikið er skeggrætt um stöðu þingmannanna sem sjást hér að ofan. Öllum er ljóst að einhver þeirra mun missa þingsæti sitt væntanlega, enda varla pláss fyrir nýliða meðfram þingmönnunum fjórum, sem virðast standa veikast af þessum átta þingmönnum. Sú staðreynd að flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu alla tíð hjálpar nýliðum að sækja fram í öruggt þingsæti, enda finnst mörgum að tími sé kominn til að stokka upp. Væntanlega er staða Ástu Ragnheiðar veikust af þessum og svo má telja líklegt að sama gildi um Helga Hjörvar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur lýst því yfir að hún sækist eftir fyrsta sæti flokksins í prófkjörinu. Ingibjörg Sólrún var í fimmta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður í síðustu kosningum, hún tók ekki þátt í prófkjöri flokksins í október 2002 en var stillt upp á listann með sögulegum hætti. Lauk þeirri atburðarás með því að Ingibjörg Sólrún varð að segja af sér borgarstjóraembætti í Reykjavík, vegna andstöðu Framsóknarflokks og VG í borgarstjórn, samstarfsflokka Samfylkingarinnar innan R-listans, við framboð hennar. Ingibjörg Sólrún náði ekki kjöri í kosningunum. Hún varð varaformaður Samfylkingarinnar árið 2003 og svo kjörin sem formaður árið 2005. Ingibjörg Sólrún tók sæti á Alþingi er Bryndís Hlöðversdóttir sagði af sér þingmennsku sumarið 2005.
Jóhanna Sigurðardóttir er nú orðin starfsaldursforseti Alþingis, eftir að Halldór Ásgrímsson lét af þingmennsku. Jóhanna hefur setið á Alþingi frá árinu 1978, í vinstribylgjunni sögufrægu og á að baki litríkan stjórnmálaferil. Hún var félagsmálaráðherra 1987-1994, en þá lét hún sverfa til stáls í formannskjöri eftir að hafa háð valdastríð við Jón Baldvin Hannibalsson í Alþýðuflokknum í fjölda ára. Hún varð þar undir, yfirgaf flokkinn, sagði af sér sem ráðherra og stofnaði nýjan flokk, Þjóðvaka, í kjölfarið, sem varð skammlífur. Hún sneri á ný í Alþýðuflokkinn í aðdraganda stofnunar Samfylkingarinnar og varð sigurvegari prófkjörs flokksins í Reykjavík 1999, mörgum að óvörum. Össur hefur setið á þingi í 15 ár og var umhverfisráðherra 1993-1995. Það er því ekki óeðlilegt að þau sýni áhuga á leiðtogaframboði.
Á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 brostu Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur sínu breiðasta og reyndu að sýna samstöðu með því að koma fram saman við lok fundarins. Ef marka má það sem heyrist nú er kalt á milli æðstu forystumanna Samfylkingarinnar og barist þar af krafti. Framundan eru þingkosningar og orðrómurinn um að formaðurinn vilji losna við varaformann sinn fer sífellt vaxandi. Virðist heiftin þar á milli vera litlu minni en á milli Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar innan Framsóknarflokksins. Ágúst Ólafur er ungur maður, jafngamall mér reyndar, og hefur náð miklum frama innan Samfylkingarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að honum tekst að verjast áhlaupi formanns flokksins og stuðningsmanna hennar sem bráðlega munu reyna allt með sýnilegum hætti að henda honum út úr pólitík.
Mikið er rætt um hvort að Stefán Jón Hafstein, leiðtogi Samfylkingarinnar innan R-listans 2002-2006, hafi hug á landsmálaframboði. Það þykir mjög líklegt, enda varð hann aðeins þriðji í prófkjörinu í febrúar og hefur lítinn hug á því að vera stýrimaður á fleytu Dags B. Eggertssonar og hlýtur að horfa til þess að skipta um vettvang miðað við stöðu mála í borgarpólitíkinni og gefi því sæti sitt nái hann öruggu þingsæti í prófkjöri. Það er ljóst að mest er talað um innkomu Stefáns Jóns og Steinunnar Valdísar í landsmálin en einnig er talað um hvort að Kristrún Heimisdóttir, Einar Karl Haraldsson, Jakob Frímann Magnússon og Eiríkur Bergmann Einarsson fari fram, en öll eru þau varaþingmenn SF í Reykjavík. Auk þeirra má telja líklegt að fleiri hafi áhuga á framboði, enda verður þetta spennandi slagur.
Hvernig sem fer má búast við spennandi prófkjöri og þar verði mikið uppgjör. Þar getur því auðvitað dregið til mikilla tíðinda. Merkilegast af öllu er auðvitað að um stuðningsmannaprófkjör verður að ræða, nærri því galopið. Það getur því komið til mikilla sviptinga í forystusveit Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar.
<< Heim