Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 október 2002

Vettvangspistill Björns - ómerkilegheit Alfreðs
Í Morgunblaðinu í dag birtist eins og alla aðra laugardaga, Vettvangspistill Björns Bjarnasonar, alþingismanns og leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Í dag fjallar Björn um málefni Landsbankans í kjölfar þess að ríkið seldi hlut sinn í bankanum, málefni Orkuveitu Reykjavíkur og tengsl þess við Línu.Net og hörmungarsögu þess fyrirtækis sem ekki sér fyrir endann á. Þessar vettvangsgreinar Björns eru skemmtilegar til lestrar og fræðandi og bera þess glögglega merki að hann kynnir sér málin ofan í kjölinn og tjáir sig af þekkingu á málunum. Málefnalegri stjórnmálamann og heiðarlegri er vart hægt að finna en Björn að mínu mati á Íslandi. Algjör andstæða hans er Alfreð Þorsteinsson, hinn ómálefnalegi forystumaður R-listans á vettvangi Orkuveitunnar. Alfreð er með ómerkilegri mönnum á íslenskum stjórnmálavettvangi. Hann hefur í gegnum tíðina komist upp með það að rífa kjaft á prenti með þeim hætti, að fólk treystir sér ekki til að svara honum. Í dag svarar Björn í Morgunblaðinu, fullyrðingum Alfreðs frá því fyrr í vikunni sem er að líða. Alfreð er óútreiknanlegur maður og beitir öllum brögðum til að klóra í bakkann og hikar ekki við að beita ósannindum. Reykvíkingar sýndu í verki á kjördag að þeir treysta ekki þessum manni en hann er engu að síður þungamiðjan í R-listanum og einn valdamesti maðurinn í borgarkerfinu. Er dapurlegt að Reykvíkingar skyldu hafa fest Alfreð í sessi með atkvæði sínu 25. maí sl.

Ómótstæðileg mafíumynd með frábærum leikurum
Fór í gærkvöldi í bíó og sá spennumyndina Road to Perdition, magnaða mafíumynd þar sem Tom Hanks og Paul Newman fara alveg á kostum. Sérstaklega er gamla brýnið Newman að standa sig vel og þykir mér mjög líklegt að hann verði tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn, gott ef ekki bæði hann og Hanks. Þessi mynd er bæði æsispennandi og frábærlega leikin af sannkölluðum leiksnillingum. Skrifaði umfjöllun um myndina á kvikmyndir.is í kjölfar þess að hafa séð myndina. Skömmu eftir að heim var komið var svo farið að horfa á imbann og bar vel í veiði. Í ríkiskassanum var eðalræman Little Big Man þar sem Dustin Hoffman fer algjörlega á kostum. Góð mynd og vel leikin. Á sunnudaginn verður ein af mínum uppáhaldsmyndum sýnd hjá RÚV. Casablanca er sannkölluð klassamynd frá 1942 og skartar eilífðartöffaranum Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla. Þar sem ég er einn slíkur er garenterað að ég sitji fyrir framan Sjónvarpið á sunnudagskvöldið og njóti þess að hlusta á As Time Goes By í enn eitt skiptið. Besta kvikmynd 20. aldarinnar að mínu mati.