Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 nóvember 2002

2 dagar í prófkjörið
Eftir tvo daga hefst prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kosið verður bæði á föstudag og laugardag. Kosningabaráttan hefur verið snörp og einkennst af hófstilltum auglýsingum og heiðarleika. Í þessu prófkjöri keppa 17 hæfileikaríkir sjálfstæðismenn um hylli flokksmanna, þar af 9 þingmenn. Eins og ég hef áður sagt er hér um einvalalið góðs fólks að ræða sem leggur allt sitt af mörkum til að flokkurinn haldi stöðu sinni í komandi kosningum og bæti vonandi við sig. Sóknarfærin eru mikil í borgarkjördæmunum og ekki ólíklegt að 10-11 sjálfstæðismenn nái kjöri á góðum degi í kjördæmunum tveim samanlagt. Flokkurinn hefur nú 9 þingmenn af 18 í borginni og í krafti þess að þingmönnum borgarinnar fjölgar um þrjá, er ekki óeðlilegt að áætla að flokkurinn myndi bæta við sig vegna þess. Að því er stefnt og mikilvægt að vel takist til með framboðslistana. Hef enga trú á öðru en valið verði heilladrjúgt fyrir flokkinn.

Styttist í framboðslista flokksins - stefnan sett á fjóra þingmenn
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, mun liggja fyrir á kjördæmisþingi flokksins á Akureyri laugardaginn 30. nóvember nk, eða eftir 10 daga. Undanfarnar vikur hefur kjörnefnd unnið að því að raða saman listanum og er nú að vænta þess að þeirri vinnu ljúki með því að listinn verði lagður fram. Í komandi kosningum hefur flokkurinn mörg sóknarfæri í þessu kjördæmi og stefnan er sett á að fjórir nái kjöri, sami fjöldi og flokkurinn hefur samanlagt í gömlu kjördæmunum, ef Sigríður Ingvarsdóttir er talin með, en hún hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér í Norðausturkjördæmi við komandi kosningar. Ef mið er tekið af væntanlegum framboðslistum hinna flokkanna í kjördæminu er ljóst að flokkurinn stefnir á að ná fjórða manninum og verður allt kapp lagt á að tryggja það í komandi kosningabaráttu.

Ungt fólk til áhrifa í pólitík
Ég hef verið þeirrar skoðunar í aðdraganda komandi þingkosninga að ungt fólk færi í framboð og tæki virkan þátt í stjórnmálum. Ég tel tíma til kominn að ný kynslóð hasli sér völl í íslenskri pólitík. Ég skrifaði pistil á heimasíðu Stefnis, þar sem ég minni á tími ungs fólks sé kominn og gullið tækifæri að hleypa því í forystusveit íslenskra stjórnmála.