Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 nóvember 2002

Spennandi prófkjör - vettvangur pólitískra sviptinga
Í dag verða fimm æsispennandi prófkjör hjá tveim stjórnmálaflokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er með prófkjör í Norðvesturkjördæmi og Samfylkingin í Reykjavík, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Ennfremur ráðast í dag úrslitin hjá Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi, en kosningu lauk á miðvikudaginn en talið verður í dag. Ég hef fylgst með þessum prófkjörum úr fjarlægð og haft gaman af að fylgjast með slagnum, auglýsingunum og skrifum frambjóðenda og stuðningsmanna þeirra í blöð og vefrit. Enginn vafi er á því að prófkjörin munu verða spennandi og gætu orðið vettvangur pólitískra sviptinga. Ég mun því fylgjast spenntur með úrslitunum í kvöld hjá Samfylkingunni og á morgun þegar úrslitin verða ljós hjá flokksfélögum mínum í Norðvestrinu.

Góðar ræður Björns - vettvangsgrein vikunnar
Á fundi borgarstjórnar sl. fimmtudag flutti Björn Bjarnason leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins tvær kraftmiklar ræður. Þar fjallar hann um réttarstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og ábyrgð vegna Kárahnjúkavirkjunar. Í þessum ræðum skýtur Björn föstum skotum að hinum ólýðræðislega meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Þarft verk að ráðast að þessum valdhöfum og Björn stendur sig vel í hlutverki leiðtoga flokksins í borginni. Í dag birtist í Mogganum vikuleg vettvangsgrein hans. Þar fjallar Björn um sjálfstæðismál Færeyja og Grænlands, athyglisverð grein sem allir áhugamenn um stjórnmál ættu að hafa gaman af. Hef persónulega áhuga á að fræðast meira um þessi mál, en ég verð fúslega að viðurkenna að ég þekki lítið til þeirra. Þetta kemur allt með árunum vonandi.

Gott framtak Heimdallar
Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, afhenti fjármálaráðherra hugmyndabanka með sparnaðartillögum, sem ungir sjálfstæðismenn hafa unnið vegna frumvarps til fjárlaga, í gær, við styttu Ingólfs Arnarssonar við Arnarhól. Þar eru settar fram hugmyndir um hvernig megi draga úr útgjöldum ríkissjóðs um tæpan fjórðung þannig að hægt verði að afnema eignarskatt, erfðafjárskatt, stimpilgjöld, tolla og vörugjöld og lækka skatta á einstaklinga án þess að draga úr útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála. Heimdallur, hefur um árabil hvatt þingmenn til þess að gæta hófs í útgjaldagleði við afgreiðslu frumvarps til fjárlaga. Hefur það jafnan verið gert með táknrænum hætti. Fyrir nokkrum árum fengu þingmenn send strokleður þar sem þeir voru hvattir til að stroka út fjárlagahallann. Vegna ábyrgrar efnahagsstjórnar ríkisstjórnarinnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins gerist þess nú ekki lengur þörf. Í stað viðvarandi fjárlagahalla er nú afgangur. Stjórn Heimdallar hvetur þingmenn eindregið til að varðveita fjárlagaafganginn þannig að greiða megi erlendar skuldir og gera þannig framtíð Íslands bjartari fyrir komandi kynslóðir. Gaman að þessu hjá félögum mínum í borginni. Vonandi gengur þeim vel í starfinu í vetur. Þar er gott fólk í stjórn og formaðurinn er traustur og pottþéttur í alla staði.