Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 nóvember 2002

Forystan traust í sessi
Úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru um margt athyglisverð. Þau eru mikill sigur fyrir ungliðahreyfingu flokksins, enda blasir nú við að þrír Heimdellingar setjist á þing. Ennfremur má finna í úrslitunum mikla traustsyfirlýsingu við forystu flokksins. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fá afgerandi kosningu í leiðtogasætin í borgarkjördæmunum. Það sem vekur mesta athygli er bæði útkoma ungliðanna og kvenframbjóðendanna í þessu prófkjöri. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sterkur í sessi meðal flokksmanna sinna. Hann fær afgerandi stuðning í efsta sætið, og nýtur trausts flokksmanna sinna til að leiða flokkinn í komandi kosningum. Geir H. Haarde er ennfremur sterkur leiðtogi með afgerandi stuðning. Björn Bjarnason náði settu marki - þriðja sætinu, þriðja sinn í prófkjöri. Er alveg ljóst að hann vinnur þarna glæstan sigur. Að honum var sótt og hann heldur velli. Er mikilvægt að borgarbúar hafi nú traustan málsvara sinn, bæði á þingi og í borgarstjórn. Ljóst er af úrslitunum að flokksmenn treysta Birni til góðra verka. Ég studdi vin minn, Björn, af krafti í þessum slag og er því mjög glaður yfir sigri hans yfir þeim sem að honum sóttu.

Ungu mennirnir eru sigurvegararnir
Sigurvegarar prófkjörsins eru ungu mennirnir sem gáfu kost á sér og lögðu í þennan slag, þrátt fyrir að allir þingmennirnir 9 hafi ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson eru allir á leiðinni á þing. Það er mikið ánægjuefni að svo vel hafi gengið hjá þeim. Það hefur aldrei gerst fyrr að þrír ungliðar hafi náð í örugg þingsæti í prófkjöri, flokkurinn hefur oft verið íhaldssamur og litlu verið breytt, en skilaboðin eru skýr nú. Við sem erum í ungliðahreyfingunni gleðjumst mjög yfir þessum úrslitum. Þau eru augljós vitnisburður þess að fólk vildi endurnýjun og treysti ungu mönnunum fyrir því að fara í eldlínu stjórnmálanna.

Ég lagði mitt af mörkum
Ég skrifaði greinar í aðdraganda þessa prófkjörs og hvatti þá alla til að fara í framboð og studdi þá með krafti. Það er því ánægjulegt að sjá þessi úrslit. Þarna eru tveir fyrrum formenn SUS og fyrrum formaður Heimdallar á leiðinni á þing, menn sem njóta trausts flokksmanna á öllum aldri og hafa sannað að þeir eru trúir sinni sannfæringu og málefnalegir í hvívetna. Framtíðarmenn innan flokksins. Með þessum úrslitum verður sú endurnýjun sem nauðsynleg var. Áhyggjuefni er vissulega hversu illa konunum gekk. Þær hafa allar staðið sig gríðarlega vel á þingi og hafa unnið gott verk. Það er hinsvegar augljóslega skilaboð flokksmanna í Reykjavík að stokka upp þingmannahópinn og hleypa inn ferskum vindum, málsvörum ungra sjálfstæðismanna - fulltrúum nýrra tíma í íslenskri pólitík.

Næsta markmið - sigur í kosningunum
Framundan eru hinsvegar mikilvægar kosningar, og nauðsynlegt að allir flokksmenn haldi vöku sinni og kosningabaráttan verði markviss. Í komandi kosningabaráttu mun Sjálfstæðisflokkurinn stefna að því að halda þeirri stöðu sem hann hefur í landsmálunum. Ljóst er að til að ná því lykilmarkmiði að flokkurinn sé í fararbroddi í öllum kjördæmunum hafi hann alla burði. Þó þarf að vinna af krafti til að ná settu marki. Sigur vinnst ekki nema með því að leggja sig allan fram og berjast áfram. Sjálfstæðismenn munu þurfa að hafa fyrir því að halda sinni stöðu og nauðsynlegt að allir hægrimenn og framfarasinnar taki virkan þátt í þeirri baráttu og styðji Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans til góðra verka á komandi árum.