Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 desember 2002

Áramótakveðja
Árið 2002 er að renna sitt skeið. Að baki er eftirminnilegt ár í stjórnmálunum og gott ár hjá mér persónulega. Ég mun minnast þessa árs með mikilli hlýju þegar fram líða stundir. Ég opnaði í febrúar heimasíðu sem hefur hlotið góðar viðtökur og margir heimsækja hana og líta á skrif mín, bæði þar og eins hér á bloggsíðunni sem ég opnaði í október. Ég þakka öllum þeim sem hafa litið á síðurnar, hafa sent mér póst og rætt málin fyrir tryggð við heimasíður mínar og þakka góðar kveðjur ykkar. Hef fengið mörg bréf og góðar ábendingar og kynnst fjölmörgum sem áhuga hafa á skrifum mínum og vilja ræða pólitík við mig. Þakka bæði ykkur og eins að sjálfsögðu öllum vinum mínum og kunningjum fyrir góða vináttu á árinu sem ég met mjög mikils. Vil einnig sérstaklega þakka fjölskyldu minni og nánustu ættingjum fyrir stuðninginn á árinu og ómetanlega tryggð við mig, ég væri ekkert án hlýhugs ykkar. Það er mér mikilvægt að eiga góða að. Framundan er kosningaár þar sem línurnar eru skýrar, valið snýst um áframhaldandi farsæla forystu Sjálfstæðisflokksins og hinsvegar óljósa framtíð og valdabrölt á vinstri vængnum. Ég treysti Íslendingum fyrir því að velja rétt - trygga forystu míns flokks og mun leggja allt mitt af mörkum í þeim slag sem framundan er. Í þeim kosningaslag verður ekkert gefið eftir og barist af miklum krafti. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á nýju ári, 2003. Ég þakka kærlega góða samfylgd á árinu sem senn líður. Vonandi eigum við samleið á nýju ári!

Maður ársins 2002
Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi í mínum huga að Stefán Karl Stefánsson leikari, sé sá sem þann heiður eigi að hljóta. Á árinu stofnaði hann Regnbogabörn og hóf mjög óeigingjarna baráttu gegn því mikla böli sem einelti er. Hann hefur ferðast um landið og fræðir ungmennin í þessum málum. Hann er sá sem vagninn leiðir og er boðberi þessara strauma sem nú eru að myndast gegn einelti af öllu tagi. Hann á mikinn heiður skilið fyrir sitt framlag, það er því ánægjulegt að Stöð 2 og Bylgjan hafi valið hann sem mann ársins. Almenningur valdi mann ársins á Rás 2, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fráfarandi borgarstjóra og sameiningartákn hins sundurskorna R-listans. Ég skil vel að ISG hafi verið ofarlega í hugum fólks eftir að hafa misst borgarstjórastólinn úr höndunum eftir ævintýralegt klúður, hún var mikið í fréttum og er öllum kunn. Vissulega er hún ein af manneskjum ársins eftir hráskinnaleikinn í kringum brotthvarf hennar úr stóli borgarstjóra. Eftir að hafa misst allt niður um sig verður hún maður ársins fyrir það, óskiljanlegt. Hefði haldið að afrek Stefáns Karls hefðu verið ofar í hugum fólks.