Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 desember 2002

Halldór sparkar í Ingibjörgu Sólrúnu
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var ekki að tvínóna í Kastljósviðtali í kvöld. Það er alveg ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýtur ekki lengur trausts hans eða borgarfulltrúa flokksins til að sitja sem borgarstjóri R-listans áfram. Með þessu er ljóst að meirihluti borgarfulltrúa styður ekki borgarstjóra lengur og ljóst að til harkalegs uppgjörs mun koma. Ingibjörg Sólrún mun þurfa að velja á milli þingframboðs og stóls borgarstjóra, þetta liggur nú einfaldlega ljóst fyrir og ekkert sem breytir því á nokkurn hátt. Hvað við tekur nú er augljóst. Annaðhvort verður sameinast um nýjan leiðtoga R-listans eða samstarfið springur í frumeindir. Líklegast er að seinni kosturinn verði ofan á og framundan nýr borgarstjórnarmeirihluti og þingframbjóðandum sem situr á stóli borgarstjóra verði sparkað. Það var reyndar gert í kvöld af utanríkisráðherra. Uppgjörið er framundan.

R-listinn riðar til falls
Ég fjalla um mál málanna í pólitíkinni hér heima í dag í ítarlegum pistli á heimasíðu Stefnis. Eins og öllum ætti að vera kunnugt hefur skapast mikil pólitísk ólga seinustu dagana í Reykjavík. Borgarstjórnarmeirihluti R-listans skelfur og nötrar vegna ákvörðunar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að þiggja 5. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Framsóknarflokkur og VG hafa sett borgarstjóranum afarkosti og vilja að hún velji á milli borgarstjórastólsins og þingframboðsins. Forsaga þessa máls er öllum kunn, en nauðsynlegt er að fara yfir þessi mál, nú þegar málið er komið á hreint, hvað varðar ákvörðun borgarstjóra um að svíkjast undan merkjum og fara fram þrátt fyrir fyrri loforð. Það er ljóst að borgarbúar gengu að kjörborðinu sannfærðir um að borgarstjórinn sæti áfram á sínum stól ef meirihluti ynnist, þessu lofaði hún síðast í umræðuþætti kvöldið fyrir kosningar á afgerandi hátt, svo ekki varð um villst. Framsóknarflokkur, VG og Samfylking endurmynduðu fyrr á þessu ári hræðslubandalag sitt til að tryggja sömu völd og áhrif og verið hefur frá 1994, hlutur af þeim samningi að borgarstjóri yrði sameiningartákn listans og væri ekki fulltrúi flokks í áttunda sætinu, baráttusætinu. Hvað gerist næst er alls óvíst. Þó er ljóst að R-listi þessara þriggja flokka er í alvarlegri pólitískri kreppu og allt getur gerst nú þegar jólahátíðin er að ganga í garð. Athyglisvert verður að fylgjast með þessum farsa yfir jólahátíðina, fyrir okkur sem áhuga höfum á pólitík.