Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 febrúar 2003

Borgarstjóraskipti í Reykjavík - brothætt bandalag
Í morgun urðu borgarstjóraskipti í Reykjavíkurborg. Þórólfur Árnason borgarstjóri, tók við lyklavöldum að Ráðhúsinu af forvera sínum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarfulltrúa. Ingibjörg tók á móti Þórólfi á skrifstofu borgarstjóra og bauð hann velkominn til starfa. Ingibjörg segir af sér embætti og víkur burt sár í bragði yfir því að vera beygð. Hún stekkur nú í óvissuna og hverfur af braut, situr áfram í borgarstjórn en er ekki lengur forystumaður borgarinnar. Framundan er brothætt stjórn þriggja flokka sem virðast ekki vera sammála um margt, enda margoft legið í loftinu að uppúr syði. Það má búast við spennandi tímum ef þetta verður það sem bíður borgarbúa næstu 40 mánuðina, þann tíma sem R-listinn hengur saman valdanna vegna. En nú tekur valdalaus embættismaður við af drottningunni. Á bakvið tjöldin stjórnar Alfreð, óvinsælasti stjórnmálamaður borgarkerfisins sem verður pólitískur forystumaður meirihlutans. Gaman verður að sjá hvort þetta hangi til 2006, ég leyfi mér að efast um það. Allir sjá að nýi borgarstjórinn er valdalaus með öllu, hlutskipti forstjórans fyrrverandi verður ekki öfundsvert. Hann á að leiða þrjá ósamhenta flokka í borgarstjórn og tala máli þeirra sem framkvæmdastjóri rétt eins og Egill Skúli forðum. Völdin verða ekki á hans herðum, heldur leiðtoganna þriggja nú þegar borgarstjóranum sigursæla hefur verið sparkað í burtu. Hann verður enginn leiðtogi í þessu samstarfi, völdin verða hjá formanni borgarráðs. Vonandi er að framkvæmdastjóra borgarinnar farnist betur við fjárhagsstjórnunina en forvera hans sem þverskallaðist við staðreyndum um fjárhag borgarinnar eins og frægt varð. Vonandi þarf ekki að rífast um grundvallartölur og almennar staðreyndir við bissnessmanninn.

Sæludögum lokið - hvað er í boxinu?
Nú þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri, hefur yfirgefið pólitískt verndað umhverfi sitt í Ráðhúsinu, stendur R-listi þriggja flokka eftir forystulaus7. Ja, að vísu er Alfreð Þorsteinsson orðinn formaður borgarráðs og með því pólitískur leiðtogi R-listans, valdamesti forystumaður hans eftir þær valdasviptingar sem urðu innan borgarstjórnarmeirihlutans í beinni útsendingu fjölmiðla þegar menn hlupu um borgina til að bjarga því sem bjarga varð af rústum meirihlutans. Ekki er hægt að sjá fyrir á nokkurn hátt fyrir hvaða málefni borgarfulltrúinn ætlar að berjast fyrir eða fyrir hvað hún stendur í pólitík. Sjálf sagði hún 30. desember sl. að nú yrði Pandóruboxið opnað og skoðanir hennar myndu verða öllum kunnar. Það er hálf hlægilegt að forystumaður stærsta sveitarfélags landsins til rúmlega átta ára ætli fyrst núna að segja fyrir hvað hún stendur í pólitík, maður hefði haldið að það lægi fyrir. Svo er þó ekki. Frægar sögur eru til af Pandóru og boxinu hennar og skondið að borgarfulltrúinn hafi borið sig saman við þá kellu á þessum tímamótum að hún neyðist til að segja af sér embætti vegna trúnaðarbrests við samherja í borgarstjórn. Já, það verður gaman að sjá þegar boxið verður opnað, ég vona að Pandóra sýni okkur fyrir hvað hún stendur á næstunni, það verður athyglisvert að sjá hvað er í boxinu þegar á hólminn er komið. Ég fjalla um endalok sæludaga borgarfulltrúans og pandórubox hennar í pistli í dag á heimasíðu Stefnis.