Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 janúar 2003

Þrír áratugir frá eldgosi í Heimaey
Í dag, eru liðnir þrír áratugir frá því að eldgos hófst á Heimaey, hörmulegar náttúruhamfarir við einn helsta útgerðarbæ landsins. Við gosið opnaðist 1.600 metra löng gossprunga á austanverðri Heimaey. Allur bátafloti Eyjamanna var í höfn og voru nær allir íbúar, um 5300 manns, fluttir til lands. Gosinu lauk 26. júní. Um 400 hús af 1200 fóru undir hraun og ösku og önnur 400 skemmdust. Eyjamenn minnast dagsins í dag með blysför niður að höfn síðdegis. Atburðirnir settu mikinn svip á líf þeirra sem bjuggu í Vestmannaeyjum og er oft talað um tímabilin fyrir og eftir gos í Eyjum. Íbúar í Vestmannaeyjum voru 5.300 talsins þegar gosið hófst. 1.700 manns sneru ekki aftur. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með fróðlegri og vandaðri þáttaröð Stöðvar 2 um eldgosið sem sýnd hefur verið seinustu vikurnar í tilefni þessara tímamóta. Sérstaklega kemur á óvart hvernig fólk ræðir lífsreynslu sína eins og þessi atburður hefði gerst í gær. Samstaða þjóðarinnar á raunastund kom vel í ljós í janúarmánuði 1973 og eftir stendur að Íslenska þjóðin er ein stór fjölskylda sem stendur saman í raun. Gosið styrkti samstöðu þjóðarinnar og sannaði að það er mikil seigla í Íslendingum, þeir láta náttúruna ekki bjóða sér byrginn.

Göng undir Vaðlaheiði
Bæjarráð Akureyrar og Dalvíkurbyggðar samþykktu í dag að bæirnir myndu taka þátt i stofnun undirbúningsfélags vegna fyrirhugaðra Vaðlaheiðarganga. Fyrir fundi ráðanna lá erindi dagsett 16. janúar 2003 frá Eyþingi þar sem kynnt er skýrsla nefndar um Vaðlaheiðargöng og óskað eftir að bæjarráðin myndu taka afstöðu til stofnunar undirbúningsfélags með aðild allra sveitarfélaga á svæðinu og nokkurra lykilfyrirtækja. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi síðasta vor að bærinn skyldi beita sér fyrir stofnun undirbúningsfélags sem kanna skyldi til hlítar alla möguleika á að ráðast í gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Á grundvelli samþykktar bæjarstjórnar samþykkti bæjarráð aðild Akureyrarbæjar að stofnun undirbúningsfélags sem stjórn Eyþings hyggst gangast fyrir og fól bæjarstjóra að fara með umboð bæjarins á stofnfundi þess. Umboð bæjarstjóra felur í sér heimild til að skrá Akureyrarbæ fyrir hlutafé í félaginu. Ég fagna þessum tíðindum og fagna því að málið sé komið á þetta stig og vona að í nánustu framtíð verði hægt að keyra í gegnum Vaðlaheiðina um göng sem munu stórlega bæta samgöngurnar og stytta leiðina austur á land.