Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 mars 2003

48 klukkustundir til stefnu - Bush setur Saddam úrslitakosti
Í nótt, kl. 01:00 að íslenskum tíma, flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarp til bandarísku þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar alla. Þar gaf hann Saddam Hussein Íraksforseta og sonum hans Qusay og Uday 48 klukkustunda (tveggja sólarhringa) frest til að koma sér úr landi. Ella sagði Bush forseti að ráðist yrði inn í Írak til að koma einræðisstjórn hans frá völdum. „Meðan bandalag okkar ryður þeim frá völdum munum við færa ykkur nauðsynleg matvæli og lyf. Við munum brjóta niður verkfæri ógnarstjórnarinnar og hjálpa ykkur til að endurreisa Írak, nýtt, velmegandi og frjálst. Harðstjórinn verður brátt horfinn - dagur frelsunar ykkar er skammt undan," sagði forsetinn í ávarpinu, sem stóð í tæpt kortér. Bush sagði að glíman við Saddam væri ekki togstreyta við friðsamlegan mann. Njósnagögn sýndu fram á að hann léti halda áfram framleiðslu og birgðasöfnun hættulegustu vopna sem völ væri á. Alþjóðaöryggi yrði ekki borgið fyrr en Saddam hefði verið afvopnaður. Því verki yrði ekki lokið á einni nóttu en aðgerðarleysi væri mun hættulegra en að láta til skarar skríða. Þá lægi fyrir að hann aðstoðaði, þjálfaði og skyti skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn, þar á meðal liðsmenn al-Queda. Því hefði hann ýtt undir hryðjuverkaógnina sem friðelskandi þjóðum stafaði ógn af. Þá hættu þyrfti að uppræta. Tími pólitískra tilrauna til að finna friðsamlega lausn á deilunum við Saddam væri nú liðinn. Bush beindi orðum sínum til írösku þjóðarinnar og sagði að kæmi til herfarar yrði hún gegn herstjórn Saddams en ekki gegn írösku þjóðinni. Hann lagði áherslu á að Bandaríkin og aðrar þjóðir hefðu árangurslaust reynt frá lokum Persaflóastríðins eftir pólitískum leiðum að tryggja að Írakar réðu ekki yfir gereyðingarvopnum. Þessar tilraunir hefðu hvað eftir annað misheppnast. Ræðu Bandaríkjaforseta var einnig varpað út á arabísku í útvarpsstöðvum en hann hvatti m.a. heraflann til að sinna ekki kalli Saddams og grípa ekki til vopna í þágu deyjandi valdaklíku. Það væri ekki þess virði að fórna lífi sínu í þágu hennar. Sömuleiðis hvatti hann hermenn til að vinna ekki skemmdarverk á olíuvinnslusvæðum né beita eiturefna- og sýklavopnum. Hann sagði að stríðsglæpamenn yrðu sóttir til saka og þá dygði þeim ekki að bera því við að hafa einungis verið að framfylgja skipunum. Bush gaf ekki til kynna hvenær látið yrði til skarar skríða gegn Írökum, sagði Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra myndu velja þá tímasetningu. Forseti Íraks hefur nú hafnað þessu boði forseta Bandaríkjanna og því ljóst að líkur á stríði aukast. Klukkan tifar - það styttist í að heimurinn losni við einræðisherrann fyrir botni Persaflóans.

Vef-Þjóðviljinn hittir naglann á höfuðið - eins og svo oft áður
Eins og svo áður er gaman að fylgjast með pistlunum á Vef-Þjóðviljanum. Í dag hitta þeir beint í mark: "Svo skemmtilega vildi til í gærkvöldi að fréttamenn Ríkissjónvarpsins voru einmitt staddir á framboðsfundi Ingibjargar Pandóru Gísladóttur í Kópavogi í gærkvöldi, þegar umræddur frambjóðandi í 5. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður tilkynnti að hún skoraði hér með á formann Sjálfstæðisflokksins í kappræður um skattamál. Ríkissjónvarpið sagði vitaskuld þegar frá þessari miklu áskorun, strax í fréttatíma klukkan tíu um kvöldið, enda talsverður atburður á ferð. Og því er ekki að neita, það færi að vissu leyti vel á því að efnt yrði til skattaumræðna þessara tveggja ólíku stjórnmálamanna. Þar myndu nefnilega mætast andstæðir pólar skattamálanna. Reyndar er sennilegt að Ingibjörg Gróa telji forsætisráðherra helsta andstæðing sinn í skattamálum, því milli þeirra hefur staðið harðvítugt einvígi undanfarin ár. Þegar forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafa beitt sér fyrir skattalækkun þá hafa Ingibjörg Pandóra Gísladóttir og R-listinn hlaupið til og aukið álögur á borgarbúa sem því nemur. Forsætisráðherra og ríkisstjórnin stóðu fyrir lækkun tekjuskatts á almenna borgara. Um leið hækkaðu Ingibjörg Gróa og R-listinn útsvarið, og það þannig að borgararnir fengu aldrei skattalækkanirnar sem ríkisstjórnin hafði ætlað þeim og verkalýðshreyfingin miðað samninga sína við. Ríkisstjórnin lækkaði skatta á atvinnufyrirtækin í landinu verulega. Ingibjörg Pandóra og R-listinn lögðu þá á þau ný og kostnaðarsöm gjöld. Þegar fyrirtækin hafa meira aflögu til uppbyggingar, fjárfestingar og launagreiðslna vegna lækkandi skatta til ríkisins, þá koma Ingibjörg Pandóra, Helgi Hjörvar og þau og leggja sorphirðugjöld, heilbrigðisgjöld og sennilega töðugjöld næst. Meira að segja þeir borgarar sem leyfa sér þann lúxus að hafa svo kallað salerni í húsum sínum - en með því má hiklaust mæla - þeir eru skattlagðir sérstaklega eftir að Ingibjörg Pandóra tók við völdum í Reykjavík. Og á sama tíma og allt þetta hefur gerst hefur ríkið greitt niður skuldir sínar en Reykjavíkurborg aukið sínar gríðarlega. En svo öllu sé samt til skila haldið þá er skylt að taka fram að borgaryfirvöld hafa ákveðið að snúa til baka af eyðslubrautinni og hafa í því skyni lækkað framlag sitt til Mæðrastyrksnefndar um 250 þúsund krónur. Sem að vísu er 750 þúsund króna hækkun eins og Þórálfur Árnason hefur réttilega bent á".

Kapphlaupið mikla spennandi
Seinustu vikurnar hefur verið gaman að setjast fyrir framan kassann að loknum önnum þriðjudagsins og horfa á Kapphlaupið mikla. Þar keppast tveggja manna lið um að vinna fúlgur fjár í ferðalagi um heiminn. Það lið vinnur sem fyrst kemst til Seattle, þar sem keppninni lýkur. Í upphafi voru liðin 12 að tölu en eftir þátt kvöldsins eru 3 eftir. Það verður spennandi að sjá hverjir vinni Kapphlaupið mikla. Ian og Teri, Flo og Zach eða þeir Ken og Gerard. Fylgist spenntur með.