Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 mars 2003

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig - Samfylking dalar verulega
Í dag birtist ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar. Skv. henni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 39,5% atkvæða og 25 þingmenn kjörna, ef gengið yrði til kosninga nú, en Samfylking 34% fylgi og 22 þingmenn. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 11,7%, sem er tveimur prósentustigum minna en fylgi flokksins reyndist vera í síðustu könnun sem Félagsvísindastofnun gerði í febrúar og er óljóst hvort flokkurinn fengi kjördæmakjörinn mann í Reykjavík. Miðað við könnunina fengi Framsóknarflokkurinn sjö þingmenn. VG fengi 9,4% fylgi og sex þingmenn. Stóru tíðindin eru þau að þetta er fyrsta skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem sýnir Frjálslynda flokkinn með 5% fylgi og myndi hann því hljóta þrjá þingmenn þar sem hann ætti þarmeð rétt á uppbótarþingsæti. Félagsvísindastofnun vekur athygli á að útreikningum á skiptingu þingsæta beri að taka með fyrirvara. Í febrúarkönnuninni mældist Sjálfstæðisflokkur með 35,8% fylgi og hefur fylgið því aukist um 3,7 prósentustig. Fylgi Samfylkingar dalar aftur á móti um rúm 6 prósentustig, fer úr 40,1% í 34%. VG og Frjálslyndir bæta við sig frá síðustu könnun, VG mælist nú með 9,4% en í febrúar var flokkurinn með rúm 7%, Frjálslyndir eru nú með 5% fylgi en höfðu 3% í febrúar. Staða Sjálfstæðisflokksins er sterkust í Suðvesturkjördæmi þar sem 45,3% segjast ætla að kjósa flokkinn, fylgið er 40,5% í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og tæp 35% á landsbyggðinni. Könnunin var unnin dagana 9.-14. mars. Stuðst var við 1.200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá sem náði til allra landsmanna á aldrinum 18 til 80 ára. Nettósvörun var 68%.