Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 mars 2003

Svart verður hvítt - góð grein Ástu
Í dag fjallar Ásta Möller alþingismaður, á heimasíðu sinni um vinnubrögð fréttastofu Stöðvar 2 í umfjöllun um skattamál. Orðrétt segir hún: "Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur skattalækkana, ekki skattahækkana. Til að vera enn nákvæmari: Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hækkað skatta á yfirstandandi kjörtímabili, eins og Samfylkingin með stuðningi fréttastofu Stöðvar 2 hefur haldið fram. Þessu hafa þeir haldið fram án þess að geta bent á einn einasta skatt sem hefur verið hækkaður! Sjálfstæðisflokkurinn hefur þvert á móti lækkað skatta á kjörtímabilinu. Andstæðingar flokksins hafa í málefnafátækt sinni haft endaskipti á hlutunum. Í þeirra meðförum hefur svart orðið hvítt. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur eignaskattur verið lækkaður um helming og sérstakur eignaskattur, svokallaður Þjóðarbókhlöðuskattur verið aflagður. Jafnframt hafa fríeignamörk verið hækkuð. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir á að afnema eignaskatta alfarið á næsta kjörtímabili fái hann til þess tækifæri. Þessi breyting skiptir heimilin miklu máli, ekki síst þeim sem skulda lítið. Þar vil ég sérstaklega nefna eldra fólk, sem yfirleitt er í skuldlitlu eða skuldlausu húsnæði. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur sú breyting orðið á að persónuafsláttur er nú orðinn að fullu yfirfæranlegur milli hjóna. Þannig nýtist að fullu skattkort þess makans sem er heimavinnandi og tekjulaus. Þá hafa barnabætur hækkað um rúma 2 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Þessar breytingar hafa komið barnafjölskyldum sérstaklega vel og aukið ráðstöfunarfé þeirra. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur hátekjuskatturinn verið lækkaður úr 7% í 5% og viðmiðunarmörk verið hækkuð . Hátekjuskatturinn hefur verið rangnefni, þar sem raunin er sú að meðaltekjufólk hefur lent innan marka hans. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur skattfrádráttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar verið aukinn um helming. Þetta hefur hvatt til langtímasparnaðar og skv. nýjum athugunum átti viðbótarlífeyrissparnaður landsmanna sem nam um 12 milljörðum króna á síðasta ári verulegan þátt í því að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla, sem um leið dró úr þenslu í efnahagslífinu. Þessi ráðstöfun hefur því komið öllum til góða bæði í bráð og lengd."

Álveri og virkjun fagnað á Reyðarfirði
Ef ekkert óvænt gerist í vikunni varðandi Kárahnjúkavirkjun og fyrirhugað álver Alcoa í Reyðarfirði verður mikið um hátíðarhöld í Fjarðabyggð á laugardaginn. Þá er gert ráð fyrir að fulltrúar þeirra aðila sem koma að stórframkvæmdunum eystra; Alcoa, Landsvirkjun, ríkið og Fjarðabyggð skrifi endanlega undir alla samninga við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Reyðarfirði. Fjarðabyggð mun bjóða upp á kaffiveitingar og skemmtiatriði og eru allir velkomnir. Athöfnin mun hefjast klukkan 14 og er gert ráð fyrir að helstu stjórnendur þeirra aðila sem að málinu koma verði við undirritunina; Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Alain Belda, stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar, og Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Klukkan 21 sama dags, munu bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð standa fyrir veglegum flugeldasýningum í öllum byggðarlögunum þremur; á Eskifirði, Norðfirði og Reyðarfirði, og um kvöldið hafa veitingastaðir í Fjarðabyggð skipulagt hátíðarhöld langt fram eftir nóttu. Ekki er óeðlilegt að bæjarbúar fagni þessum sigri í málinu, enda mikið í húfi fyrir bæjarfélagið og reyndar Austfirðinga og Norðlendinga að málinu ljúki farsællega með undirritun samninga um álver og virkjun.