Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 mars 2003

Málstofa Varðar - Ungt fólk og atvinnulífið
Á morgun, kl. 14:00 mun Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri halda aðra málstofu sína af þrem sem fyrirhugaðar eru nú í aðdraganda alþingiskosninganna, 10. maí nk. Er yfirskrift hennar Ungt fólk og atvinnulífið. Í upphafi málstofunnar mun Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, fjalla um atvinnumál og nýsköpun í atvinnumálum. Að því loknu mun Sigríður Margrét Ólafsdóttir deildarstjóri hjá Mannafli á Akureyri, fjalla um stöðu atvinnumála í firðinum. Að lokum mun Bergur Guðmundsson framkvæmdastjóri Dalmar á Dalvík og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, við komandi kosningar fjalla um stöðu atvinnumála og t.d. sína reynslu af því. Að loknum ræðum frummælenda verða umræður um málin. Þetta er mjög athyglisvert umfjöllunarefni og augljóst að ræðurnar og umræðurnar verða fræðandi. Hvet ég alla Akureyringa til að líta á málstofurnar og taka þátt í þessu með okkur sem sitjum í stjórn Varðar.