Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 mars 2003

Frábær pistill Björns
Í nýjasta pistlinum á heimasíðu sinni, fjallar Björn Bjarnason alþingismaður, um það þegar nýr borgarstjóri féll á prófinu og sagði ósatt í vikunni í borgarráði og um margfræga Borgarnesræðu fyrrverandi borgarstjóra, sem hún reynir nú að hlaupa frá, enda sást vel í viðtölum í gær að hún er í bullandi vörn í málinu og getur ekki staðið við þau gífuryrði sem þar komu fram. Um ræðu borgarfulltrúans segir Björn: "Er greinilegt, að ímyndarsmiðum Ingibjargar Sólrúnar hefur þótt halla á skjólstæðing sinn í umræðum vikunnar, úr því að þeir ákveða slíka útrás. Er óvenjulegt, að Kastljós á föstudagskvöldi sé helgað einum manni vegna máls af þessum toga og meira að segja Gunnar Smári, ritstjóri Fréttablaðsins, varð að vikja úr sínu vikulega álitsgjafasæti á Stöð 2 þetta föstudagskvöld, þótt hann hafi áreiðanlega átt ýmissa harma að hefna eftir átök vikunnar. Ingibjörg Sólrún á föstudagskvöldi hefur ímyndarsmiðunum þótt afbragð vegna vikulegra helgarkannana Fréttablaðsins á viðhorfi almennings til stjórnmálaflokkanna. Í báðum þáttunum var Ingibjörg Sólrún í vörn. Tilgangur ræðu hennar er alveg skýr, að beina neikvæðu ljósi á Davíð Oddsson meðal annars með því að saka hann um óeðlileg afskipti af viðskiptalífinu og gera á hlut Baugs, Jóns Ólafssonar og Kaupþings, um leið lætur Ingibjörg Sólrún í veðri vaka, að þeir, sem njóta, að hennar mati velvildar Davíðs, eins og Íslensk erfðagreining, eigi ekki síður undir högg að sækja."

Haldreipi borgarfulltrúans á svellinu
Björn heldur áfram: "Hvert var helsta haldreipi Ingibjargar Sólrúnar í þessum umræðuþáttum? Jú, að hún væri ekki að lýsa eigin skoðunum heldur Agnesar Bragadóttur blaðamanns, sem birst hefðu í löngum Morgunblaðsgreinum, - úttekt Agnesar á viðskiptalífinu við nýjar aðstæður. Áður hafði hún sagt, að í Borgarnesi hafi hún verið að endurspegla skoðanir Björgólfs Thors Björgólfssonar, en eftir að hann hafnaði þessum skýringum Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðssamtali við Agnesi, sem birtist 16. febrúar, grípur Ingibjörg Sólrún til þess nú, að skýla sér á bakvið Agnesi. Það að nota Agnesi sem haldreipi á svellinu, sem Ingibjörg Sólrún fór út á með ræðunni í Borgarnesi, er í besta falli langsótt. Greinar Agnesar lýstu baráttu í heimi viðskiptanna, eftir að stjórnmálamenn hættu þar virkri þátttöku í krafti opinberra eignarheimilda. Hefur Ingibjörg Sólrún verið talsmaður einkavæðingar? Er hennar ferill í stjórnmálum til marks um, að hún hafi viljað auka svigrúm einstaklingsins á kostnað hins opinbera? Ég tek undir með þeim, sem telja tímabært, að Ingibjörg Sólrún sé spurð um stjórnmálaskoðanir. Borgarnesræðan er flótti frá umræðum um stjórnmál, álitamálin, sem nauðsynlegt er, að stjórnmálamenn svari – það er ekkert svar, að segjast vilja breyta átakastjórnmálum í samráðsstjórnmál. Slíkir frasar breyta engu til eða frá. Hver skyldi til dæmis vera afstaða Ingibjargar Sólrúnar til varnarsamstarfsins við Bandaríkin? Er hún enn sami herstöðvaandstæðingurinn og áður?"