Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 mars 2003

Pólitísk aðför að Davíð Oddssyni
Óhætt er að segja að dagurinn í dag hafi verið sögulegur í íslenskri pólitík. Tímamótaviðtal Óðins Jónssonar við Davíð Oddsson forsætisráðherra, á Morgunvaktinni kl. 7:30 í morgun, þar sem hann svaraði "fréttum" Fréttablaðsins hefur hiklaust verið frétt dagsins. Þar kom fram að forsvarsmenn Baugs hefðu gefið í skyn fyrir ári að múta ætti forsætisráðherranum til að hann yrði þægur í taumi. Nú ber svo við að forstjóri Baugs segist ætla að stefna Davíð fyrir meiðyrði og að gefa í skyn að hann hafi ætlað að múta honum. Réttast væri að forstjórinn byrjaði á að ræða við eða kæra stjórnarformann sinn, Hrein Loftsson. Davíð segir að Hreinn hafi sagt að Jón Ásgeir væri tilbúinn til að greiða honum 300 milljónir fyrir að hætta að tala illa um Baug. Hreinn Loftsson segir að þetta hafi allt saman verið sagt í hálfkæringi. Jón Ásgeir segir að hann hafi aldrei sagt þetta. Það er því ljóst að Hreinn segir það sem Jón Ásgeir neitar. Annar segist aldrei neitt hafa sagt neitt í hálfkæringi en hinn segist hafa sagt í hálfkæringi að það ætti að greiða Davíð 300 milljónir króna.

Nú ber svo við að Jón Gerald Sullenberger segir að honum hafi verið mútað af mönnum tengdum forstjóra Baugs. Það kemur ekki á óvart að pólitískir andstæðingar Davíðs Oddssonar fylgi í kjölfarið á "fréttum" Fréttablaðsins og ráðist að honum. Þeir gerðu það strax á laugardag áður en hann hafði nokkuð tjáð sig um það. Það var ekki spurt að nánari málsatvikum eða beðið þess að málið yrði skýrara. Nú þegar ljóst er að Hreinn Loftsson hefur logið um að hafa ekki vitað af Sullenberger og Nordica eins og hann heldur fram um helgina, má flestum vera ljóst hvernig málið er. Það er ljóst að annaðhvort hefur stjórnarformaður Baugs ekki sinnt starfi sínu eða ekki lesið ársskýrslu fyrirtækisins árið 2000 þar sem nafn Sullenbergers kemur fram. Davíð var yfirvegaður þegar hann ræddi þessi mál í kvöld. Þar birtist mér þó annar Davíð en ég hef áður séð. Hann er sár vegna þeirra vinnubragða sem fram koma hjá manni sem hann treysti til formennsku í viðamikilli nefnd og að vera aðstoðarmaður hans. Davíð Oddsson hefur verið þekktur fyrir heiðarleika og að vera traustur leiðtogi í rúman áratug. Er líklegt að hann færi að vara Baug við lögregluaðgerðum í janúar 2002 sem fram fóru meira en hálfu ári síðar? Það tel ég ekki líklegt og finnst þetta mál allt með ólíkindum. Ég treysti Davíð betur en öðrum stjórnmálamanni, af hverju ætti hann að fara með rangt mál? Það er augljóst að þetta er pólitísk aðför að honum.

Trúverðugleiki Pressunnar
Sú var tíðin að netmiðillinn Pressan á strik.is var góður vettvangur pólitískrar umræðu og fjallað óhlutdrægt um málin og vönduð fréttamennska á ferð. Þegar vefurinn var opnaður árið 2000 og var ritstýrt af Hrafni Jökulssyni og framan af ritstjóratíð núverandi ritstjóra vefsins, var hægt að taka mark á skrifum á vefinn. Er Hrafn hætti á Pressunni, árið 2001 tók Ásgeir Friðgeirsson við ritstjórn á vefnum og í upphafi voru skrif hans vönduð og eðlilega haldið á málum. Til dæmis fjallaði hann heiðarlega um sveitarstjórnarkosningar í fyrra og eftirmála þeirra að flestu leyti. Síðsumars ákvað hann að fara í framboð til þings fyrir Samfylkinguna. Jafnframt því hélt hann áfram að ritstýra Pressunni og skrifa þar fréttir. Taldi ég að hann myndi halda áfram að vera óhlutdrægur í umfjöllun sinni um pólitík, þrátt fyrir að hann færi í prófkjör flokksins í Suðvesturkjördæmi. Svo fór þó ekki og hefur vefurinn hægt og bítandi verið að breytast úr óhlutdrægum fréttavef í harðsnúinn áróðursvef fyrir Samfylkinguna gegn Sjálfstæðisflokknum og forystumönnum hans. Er svo komið að ekki er hægt að taka mark á Pressunni sem fréttavef heldur áróðursmaskínu þingframbjóðanda, nokkurskonar bloggsíðu hans í baráttunni.

Hlutdrægni Pressunnar er algjör og fer ekki á milli mála. Er slæmt að Ásgeir geti ekki haldið persónulegu framboði sínu fyrir utan þennan fréttavef um pólitík sem hann var. Pressan er nú aðeins harðsvíruð maskína einnar skoðunar gegn öðrum, ekki er fjallað óhlutdrægt um málið. Eins og flestir vita skrifaði ég 7 greinar um stjórnmál á þennan vef í fyrrasumar og byrjun hausts. Fyrstu fimm fjölluðu um stjórnmálaflokkana sem sæti eiga á þingi og framboðsmál þeirra fyrir þessar kosningar. Seinni tvær um kjördæmaskipan og stjórnarmyndanir. Ég skrifaði þar í þeirri trú að vefurinn væri vettvangur ólíkra skoðana og umfjöllunar um stjórnmál frá öllum hliðum. Þegar ég varð þess áskynja að vefurinn væri að breytast í áróðursvef gegn mínum skoðunum sá ég mér ekki fært að skrifa þar. Það er ekki minn stíll að vera þátttakandi í opnum frétta- og fjölmiðlavef sem traðkar á öllum skoðunum nema þeim sem ritstjórinn aðhyllist. Ég get þá alveg eins skrifað á mínar eigin síður ef ég vil tjá mig og þær sem tengjast flokknum, ég þarf ekki að skrifa á síður Samfylkingarinnar. Pressan eins og hún var þegar hún var stofnuð er ekki lengur til. Það þykir mér mjög miður. Ég get samvisku minnar vegna ekki tekið þátt í skrifum á þessa síðu.