Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 mars 2003

Lög um álver við Reyðarfjörð samþykkt á þingi
Lög sem heimila Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra, að ganga frá samningum um byggingu og rekstur álvers í Reyðarfirði voru samþykkt á Alþingi í dag með 41 atkvæðum gegn níu en einn þingmaður greiddi ekki atkvæði. Þingflokkur Vinstri grænna, sex þingmenn, tveir þingmenn Samfylkingarinnar og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Tillaga VG, um að fresta gildistöku laganna þangað til þjóðaratkvæðagreiðsla hefði farið fram um málið, var felld með 35 atkvæðum gegn sex en 10 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Alain Belda, fagnaði mjög samþykkt þingsins á lögunum. Í tilkynningu frá Alcoa í dag sagði að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á Alþingi hafi það í för með sér að brátt muni rísa eitt nútímalegasta og samkeppnishæfasta álver heims við Reyðarfjörð. Fjarðaál er hluti af einni umfangsmestu fjárfestingu sem ráðist hefur verið í á Íslandi en byggingarkostnaður álversins er áætlaður 1.1 milljarður Bandaríkjadala eða um 84 milljarðar króna. Verkefnið felur í sér að Landsvirkjun reisi Kárahnjúkavirkjun norðan Vatnajökuls, að Hafnarsjóður Fjarðabyggðar reisi hafnaraðstöðu og loks að Alcoa byggi álverið. Hafist verður handa við að byggja álverið árið 2005 og áætlað er að verksmiðjan hefji framleiðslu árið 2007. Byggingarkostnaður Fjarðaáls er áætlaður 1,1 milljarður dala, eða um 90 milljarðar íslenskra króna og dreifist hann á næstu fjögur ár. Er gert ráð fyrir því að álverið muni skapa um 450 störf í álverinu sjálfu og um 300 störf í tengdum iðnaði og þjónustu. Virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur stýrt málinu farsællega til lykta og nú horfir fyrir endann á málinu. Virkjað verður við Kárahnjúka og álverið mun rísa til hagsbóta fyrir landsmenn. Mikilvægt framfaraspor var stigið með afgreiðslu málsins á þingi. Þetta er stór dagur í íslenskri atvinnusögu.