Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 mars 2003

Góð umfjöllun um Akureyri
Undanfarna daga hefur verið góð umfjöllun um Akureyri í fjölmiðlum. Sl. sunnudagskvöld var ítarlega fjallað um málefni Háskólans á Akureyri í Kastljósþætti í umsjón Karls Eskils Pálssonar fréttamanns RÚV. Lög um Háskólann á Akureyri voru sett af Alþingi 27. apríl 1988. Á þeim tíma voru tvær brautir starfandi við Háskólann; hjúkrunarfræðibraut og iðnrekstrarfræðibraut. Þá hafði verið ákveðið að taka upp kennslu í sjávarútvegsfræðum og matvælafræðum. Þegar skólinn opnaði árið 1987, eða fyrir 16 árum, 50 nemendur við skólann en þeir eru nú vel yfir 1000. Frá og með næsta hausti munu 6 deildir verða að störfum og starfsmenn skólans eru um 130. Á síðustu árum hefur Fjórðungssjúkrahúsið haft mikilvægu hlutverki að gegna sem háskólasjúkrahús og nemendum jafnframt verið sinnt í hjúkrunarnámi með fjarkennslu á Ísafirði. Þetta hefur styrkt sjúkrahúsið umtalsvert. Ennfremur hefur sjúkrahúsið verið lykillinn að því að skólinn hefur ráðið við þetta gríðarlega mikilvæga hlutverk. Að mínu mati er uppbygging Háskólans á Akureyri einhver mikilvægasta og þarfasta byggðaaðgerð, sem gripið hefur verið til hérlendis á síðari árum. Alla tíð hefur ríkt mikil samstaða á gervöllu Norðurlandi um mikilvægi háskólanáms á Akureyri, því er þó ekki hægt að neita að andstaða hefur verið nokkur við háskólann í Reykjavík og er reyndar enn til staðar hjá ákveðnum aðilum, en skólinn hefur dafnað engu að síður. Menntamálaráðherrar sem komið hafa úr Sjálfstæðisflokknum hafa jafnan unnið vel að framgangi Háskólans og ber sérstaklega að nefna Björn Bjarnason, Ólaf G. Einarsson, Ragnhildi Helgadóttur, Birgi Ísleif Gunnarsson og síðast en ekki síst Akureyringinn Tómas Inga Olrich sem hefur verið frá upphafi mikill stuðningsmaður skólans. Framundan nú er bygging rannsóknarhúss við skólann, en vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við þá byggingu í sumar og taka hana í notkun seinni part næsta árs. Í þættinum sem fyrr er getið voru mörg athyglisverð viðtöl, t.d. við Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóra, Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja og Þorstein Gunnarsson rektor HA. Í dag birtist svo í Mogganum umfjöllun um bæinn sem er mjög athyglisvert að lesa, hvet alla til að kíkja á þá umfjöllun. Semsagt; það er alltaf nóg um að vera hér á Akureyri.

Málstofa Varðar - Nám á Norðurlandi
Á laugardaginn, kl. 14:00 mun Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri halda fyrstu málstofu sína af þrem sem fyrirhugaðar eru nú í aðdraganda alþingiskosninganna, 10. maí nk. Er yfirskrift hennar Nám á Norðurlandi - staða og stefna, verknám og sérhæfing. Í upphafi málstofunnar mun Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, fara yfir stöðu og þróun menntunar á Norðurlandi á komandi árum. Að því loknu mun Baldvin Ringsted kennslustjóri tæknisviðs VMA, fara yfir sérhæfingu náms og velta fyrir sér möguleikum Akureyrar í menntamálum. Hann fjallar einnig um verknám á Norðurlandi, stöðu og stefnu og hindranir í verknámi. Að lokum mun Hallgrímur Gíslason fjalla um ÚA skólann og fara yfir af hverju var hann stofnaður, hvernig hann hefur gengið, hverskonar starfsemi þar er, nám á sviði fiskvinnslu gagnvart öðru námi, hvort þetta sé fyrirkomulag sem henti fleiri fyrirtækjum og hvernig námið gagnist nemendum og hvaða hag hafa þeir af náminu. Að loknum ræðum frummælenda verða umræður um málin. Þetta er mjög athyglisvert umfjöllunarefni og augljóst að ræðurnar og umræðurnar verða fræðandi. Hvet ég alla Akureyringa til að líta á málstofurnar og taka þátt í þessu með okkur sem sitjum í stjórn Varðar.