Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 mars 2003

Undarlegur málflutningur fyrrv. borgarstjóra
Í kvöld var fyrrverandi borgarstjóri, gestur Snorra Más Skúlasonar og Árna Snævarr í Íslandi í dag. Þar var hún að tjá sig um mál vikunnar í fréttunum hérlendis. Þar sagði hún að það væri fráleitt að halda því fram að upphaf þess máls hefði verið ræða hennar í Borgarnesi fyrir mánuði. Ennfremur sagði hún ekki hafa nein tengsl við Baug, Jón Ólafsson og Norðurljós og reyndi að telja fólki trú um að þessir aðilar hefðu engin ítök inn í R-listann og þann flokk sem hún er talsmaður fyrir. Nú þegar tveir mánuðir eru til kosninga má ljóst vera að það stefnir í einhverja beittustu kosningabaráttu hérlendis í mörg ár eða áratugi. Það er mín skoðun að fyrrverandi borgarstjóri hafi hafið kosningabaráttu sína með því að gefa t.d. í skyn, að forsætisráðherra sigaði lögreglu og skattayfirvöldum að ósekju á nokkur fyrirtæki og misbeitti valdi sínu, þrátt fyrir að hún þræti fyrir það núna. Ljóst er að málefnaleg staða flokks hennar er mjög veik nú þegar kosningabaráttan er að fara af stað af fullum krafti. Skotmark hennar og flokksins er persóna Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Öllum brögðum á nú greinilega að beita til að grafa undan trúverðugleika hans og öllum meðölum beitt í því skyni. Einkum virðist einum fjölmiðli, Fréttablaðinu, vera sérstaklega beitt gegn honum. Það breiðir út áróður upphefur einkum fyrrverandi og núverandi borgarstjóra og aðra þá, sem þeim er sérstaklega annt um að nái undirtökunum í íslenskum stjórnmálum. Undarlegt er svo að heyra í leiðtogaefni Samfylkingarinnar í kjölfarið á þessari aðför að forsætisráðherra þar sem hún segir að færa verði umræðuna upp á hærra plan og fara að tala um pólitík í kosningabaráttunni. Vegna þess að Samfylkingin treystir sér ekki á nokkurn hátt til að tala um pólitík og málefni baráttunnar hóf leiðtogaefni flokksins umræður um góðu og vondu fyrirtækin í ræðu sinni í Borgarnesi. Þar dró hún fyrirtæki í dilka svo eftir var tekið. Þó að hún segist nú ekki geta staðið við orð sín vegna atburða sem gerst hafa undanfarinn mánuð markaði hún þessa slóð, þessi atburðarás hófst með Borgarnesræðunni.

Beint áætlunarflug frá Akureyri til Köben
Ákveðið hefur verið að fyrsta beina áætlunarflug Grænlandsflugs frá Akureyri til Kaupmannahafnar verði 28. apríl nk. Áætlað er að flogið verði tvisvar í viku milli þessara áfangastaða, á mánudögum og fimmtudögum allt árið um kring. Hægt verður að bóka ferðir í gegnum Amadeus-bókunarkerfið og farmiðar verða fáanlegir hjá öllum IATA-ferðaskrifstofum. Ekki verður hægt að ganga frá bókunum strax þar sem íslensk flugmálayfirvöld hafa ekki afgreitt umsókn félagsins, að því er segir á heimasíðu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar á Netinu. Flogið verður frá Akureyri kl. 12 á hádegi og komið til Kaupmannahafnar um fimmleytið. Frá Kaupmannahöfn er farið kl. 9.45 að morgni og komið til Akureyrar kl. 10.45. Áætlað er að fljúga með 168 sæta Boeing 757-200 þotu Grønlandsfly í þessu flugi. Kynningarátak verður í gangi í maí og er fargjaldið þá 22.500 krónur með sköttum og bókunargjaldi, en ákveðið hefur verið að Ferðaskrifstofa Akureyrar verði aðalsöluaðili Grænlandsflugs á Akureyri. Að loknu kynningarátakinu mun sætið kosta á bilinu 30-40 þúsund krónur. Verið er að skipuleggja ýmsar ferðir í tengslum við áætlunarflugið, m.a. helgarferð, fjórar nætur á þriggja stjörnu hóteli í miðbæ Kaupmannahafnar á 49.900. Eins er verið að undirbúa ferð á Hróarskelduhátíðina í sumar og tónleikaferð með Sir Paul McCartney í byrjun maí. Takmark Grænlandsflugs í upphafi er að ná 12 þúsund farþegum í ár, þ.e. á 8 mánaða tímabili frá apríllokum til áramóta. Vonandi er að þetta flug heppnist vel og fólk verði duglegt að notfæra sér þetta, það er mikilvægt að þetta beina flug til Köben verði framtíðarpunktur í samgöngum Norðlendinga til útlanda.