Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 maí 2003

Staðreyndir um skattamál
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með umræðu um skattamál í kosningabaráttu seinustu mánaða og viknar. Þar hefur t.d. Samfylkingin hamrað á því að núverandi ríkisstjórnarflokkar séu flokkar skattahækkana og hafa með undarlegum hætti reynt að auglýsa sig sem flokka skattalækkana. Það sem eftir stendur er þó sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hækkað skatta á þessu kjörtímabili, eins og Samfylkingin með stuðningi fréttamanna Stöðvar 2 hafa reynt að halda fram. Þeir sem reyna að koma því að í umræðunni að skattar hafi verið hækkaðir geta þó ekki bent á neinn skatt sem hefur hækkað, enda ljóst að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafi skattar þvert á móti lækkað. Pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna eftir fremsta megni að slá ryki í augu fólks með ósannindum. Staðreyndir málsins eru þær að eignaskattur hefur verið lækkaður um helming og sérstakur eignaskattur verið lagður af. Fríeignamörk hafa verið hækkuð nokkuð. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að afnema eignaskatta algjörlega á næsta kjörtímabili ef hann verður við stýrið á þjóðarskútunni áfram. Á kjörtímabilinu hefur hátekjuskattur verið lækkaður úr 7% niður í 5% og viðmiðunarmörkin verið hækkuð nokkuð. Reyndar er hátekjuskattur rangnefni hið mesta á þessum skatt, enda lendir miðtekjufólk innan marka hans. Frá alþingiskosningunum 1999 hefur skattfrádráttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar aukist um helming, sem leiðir til langtímasparnaðar og á verulegan þátt í því að draga úr bæði verðbólgu og viðskiptahalla, sem um leið hefur dregið úr þenslu í efnahagslífinu. Húsaleigubætur hafa verið gerðar skattfrjálsar. Tekjuskattur verið lækkaður um 4%. En athyglisvert er að tekjuskatturinn var 32,8% þegar vinstri stjórn fór frá vorið 1991, en er nú tólf árum síðar 25,75%. Matarskatturinn var lækkaður úr 24,5% í 14% fyrir tæpum áratug og afnám tolla á grænmeti hafa skilað sér vel til neytenda. Þessar ráðstafanir hafa komið öllum verulega til góða.

Það er margsannað að skattbyrði er hérlendis með því lægsta sem gerist meðal aðildarríkja OECD. Komið hefur fram að skattbyrði fjölskyldu með tvö börn, þar sem annar makinn er heimavinnandi, er –3,2%, sem þýðir svo aftur á móti að fjölskyldan fær meira greitt til baka frá samfélaginu, en hún greiðir til þess með sköttum. Til samanburðar er skattbyrði sambærilegrar fjölskyldu í Danmörku 30,5%. Það er því ekki hægt að skilja málflutning stjórnarandstöðunnar um að skattar hafi hækkað hérlendis í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og Davíðs Oddssonar. Það sem er þó athyglisverðast af öllu því sem átt hefur sér stað frá 1991 er sú staðreynd að kaupmáttur launa hefur hækkað um þriðjung frá árinu 1994 og verðbólga með því lægsta sem almennt gerist meðal vestrænna þjóða. Það er því öllum ljóst sem líta á málin og staðreyndirnar að almenningur hérlendis hefur notið ríkulega afraksturs af traustri efnahagsstjórnun hérlendis. Framundan eru meiri skattalækkanir ef réttir aðilar sitja að völdum næstu árin. En hverjir eru réttir aðilar mætti sjálfsagt spyrja sig. Að sjálfsögðu er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið kjölfestan í stjórn landsins seinasta áratuginn. Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur alla tíð verið flokkur skattalækkana. Ekki eru vinstri flokkarnir þekktir fyrir að lækka skatta, svo mikið er alveg víst. Það hefur verið stíll vinstri stjórna að þær endast ekki út heilt kjörtímabil, engin þeirra hefur setið fjögur ár samfleytt. Samnefnari þeirra hefur verið þrenn lykilatriði; há verðbólga, háir skattar og stórauknar skuldir ríkisins. Frá 1988-1991, á valdatíma síðustu vinstri stjórnar rýrnaði kaupmáttur launa landsmanna um rúm 10%. Fyrrverandi borgarstjóri er orðinn talsmaður Samfylkingarinnar og reynir nú með nýrri ímyndarhönnun að flýja misheppnaða valdasetu sína í Ráðhúsinu. Það sem einkenndi valdaferil hennar sem stóð í rúm átta ár voru skattahækkanir og veruleg aukning skulda. Þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi um lækkun skulda borgarbúa er reyndin sú að skuldirnar hækkuðu um 1100% í valdatíð hennar. Reykvíkingar skulda mest allra í samanburði við nágrannasveitarfélögin. R-listinn hækkaði fasteignaskatta og útsvarsprósentu borgarinnar verulega. Öllu var þessu stjórnað af fyrrverandi borgarstjóra sem nú reynir að koma fram á sviðið sem fulltrúi nýrra tíma og leiðtogaefni þeirra gömlu flokka sem áður fyrr voru táknmynd glundroða í efnahagslífinu. Hún ætlar að reyna að flýja fortíð sína og komast til valda í landsmálunum með nýja glansmynd að leiðarljósi svo allir gleymi fyrri verkum hennar sem forystumanneskju í borgarstjórn. Það þýðir þó ekki, enda hefur hún sannað sitt innra eðli með setu sinni í valdastóli í borginni.

Á morgun hafa landsmenn skýrt val. Þar stendur baráttan á milli svikinna loforða, hærri skulda og verðbólgu að hætti vinstri manna og eða hagsældar og betri lífskjara á þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem treystir best fólkinu í landinu fyrir að taka eigin ákvarðanir; hann er táknmynd frelsis og þess að fólk móti eigin framtíð og hafi sitt svigrúm. Hann er flokkur skattalækkana. Staðreyndirnar segja allt sem segja þarf. Sjálfstæðisflokkurinn er rétti kosturinn, nú sem ávallt áður. Kjósum blátt áfram á laugardaginn - Áfram Ísland.