Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 júní 2003

Góðir tónleikar
Fór í gærkvöldi í Ketilhúsið hér á Akureyri á tónleika þar sem Guðrún Gunnarsdóttir söngkona, söng vinsælustu lög Ellýjar Vilhjálms, dægurlagadrottningar Íslands. Gestasöngvari með Guðrúnu var Friðrik Ómar Hjörleifsson útvarpsmaðurinn góðkunni á Akureyri. Ásamt Guðrúnu og Friðriki Ómari kom fram hljómsveit en hana skipuðu: Eyþór Gunnarsson hljómsveitarstjórn og píanó. Sigurður Flosason saxafónn, klarinett, þverflauta og slagverk. Erik Qvick trommur og Birgir Bragason kontrabassi. Tónleikarnir hafa gengið fyrir fullu húsi í nokkra mánuði í Salnum í Kópavogi og því mjög gott að fá tónleikana norður. Sannkölluð upplifun að hlusta á Guðrúnu og þessa góðu dagskrá. Gaman af þessu!

Góð grein um Robert F. Kennedy
Má til með að mæla með stórgóðri grein félaga míns, Guðfinns Sigurvinssonar, sem birtist um daginn á vefritinu Deiglunni. Þar fjallar hann á mjög áhugaverðan hátt um ævi og feril Roberts F. Kennedy dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og öldungadeildarþingmanns New York-ríkis. Mögnuð lesning, einkar fræðandi skrif.