Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 júní 2003

Katharine Hepburn látin
Bandaríska óskarsverðlaunaleikkonan Katharine Hepburn er látin, 96 ára að aldri. Hún lést í kvöld kl. 18:50 að íslenskum tíma á heimili sínu í Old Saybrook í Connecticut. Heilsu Hepburn hafði hrakað á undanförnum árum. Á rúmlega sextíu ára ferli sínum hlaut hún fjórum sinnum Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndum og var tilnefnd til verðlaunanna 12 sinnum. Hefur enginn hlotið fleiri óskarsverðlaun fyrir leik, í sögu þeirra, öll hlaut hún þau sem leikkona í aðalhlutverki, einstakur árangur. Hún hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í myndunum: Morning Glory 1933; Guess Who's Coming to Dinner 1967, The Lion in Winter 1968 og On Golden Pond 1981.

Hepburn fæddist inn í auðuga fjölskyldu á Nýja-Englandi sem var frjálsleg í hugsunarhætti. Sjálf var hún blátt áfram og hegðaði sér á óvenjulegan hátt. Hún klæddist þeim fötum sem henni þóttu þægileg og fór eigin leiðir, sannkölluð nútímakona, ímynd hennar í kvikmyndum síns tíma. Hún giftist aðeins einu sinni og hjónabandið stóð stutt. Sagt var að hún ætti í ástarsambandi við Howard Hughes og aðra þekkta menn en stóra ástin í lífi hennar var óskarsverðlaunaleikarinn Spencer Tracy. Þau léku saman í níu myndum og voru nánir vinir allt þar til hann lést árið 1967, skömmu eftir gerð seinustu myndar hans, þar sem þau voru saman í aðalhlutverkum. Fjallað er um ævi og leikferil Katharine Hepburn í grein á kvikmyndir.com.

Málefni RÚV - vandræði Tony Blair - þróun Netsins
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um málefni Ríkisútvarpsins og kem fram þeirri skoðun minni að tekið verði á rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar og hún stokkuð upp til samræmis við nútímann, um vandræði Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, sem kominn er í ógæfudal ef marka má skoðanakannanir um fylgi flokka og persónufylgi hans, og um þróun Netsins á seinustu árum - óumdeilt er að Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks.