Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 júní 2003

Opnunartími matvörubúða - eitt skal yfir alla ganga
Var að horfa á Kastljósið áðan þar sem fjallað var um matvörubúðir og hvort þær ættu að vera opnar á helgidögum. Þarna voru Guðjón Karl Reynisson framkvæmdastjóri 10-11, Ögmundur Jónasson formaður BSRB og sr. Halldór Reynisson. Ástæða þess að þetta er rætt var að á hvítasunnudag opnuðu forsvarsmenn 10-11 búðina, en henni var brátt lokað af lögreglu. Er það mitt mat að leyfa eigi að hafa búðir opnar þessa daga, ef fólk vill vinna við afgreiðslustörf og fólk vill kaupa í matinn á þessum dögum, skal leyfa það. Persónulega gæti ég alveg lifað þó að búðir væru lokaðar, en skil vel að sumir vilji hafa þetta með þessum hætti. Þessi forræðishyggja að hafa sumar búðir opnar þessa daga en aðrar ekki er algerlega á eftir sinni samtíð. Enda sjá allir að bensínstöðvar mega selja matvörur á hátíðisdögum en stórmarkaðirnir ekki. Annaðhvort er að leyfa þetta alveg eða hafa allt lokað. Svo einfalt er það. Skondið var að sjá forræðishyggjumanninn Ögmund áðan, reyna að bera á móti þessu, og vilja halda áfram á sömu braut í stjórnmennskunni. Eitt sinn kommi, alltaf kommi greinilega. Allavega búðirnar eiga að vera opnar ef fólk vill vinna og kúnnarnir kaupa, svo einfalt er það í mínum huga. Burt með forræðishyggjuna!

Skemmtilegt Kastljós
Annars má ég til með að koma með stutt komment á Kastljósið. Alltaf jafn gaman af þessum þætti. Ber af dægurmálaþáttunum. Svo hefur verið frískað upp á þáttinn með nýju fólki. Þarna eru komin Sveinn Guðmarsson og Svanhildur Hólm Valsdóttir auk þeirra Kristjáns Kristjánssonar og Sigmars Guðmundssonar. Allavega líflegt og skemmtilegt og góð efnistök. Sérstaklega líst mér vel á að Svanhildur frænka mín leysi af hana Evu Maríu. Gott að fá hana á skjáinn!