Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 maí 2003

Breytingar í ríkisstjórninni - uppstokkun
Í gærkvöld varð ljóst að talsverðar breytingar verða á ríkisstjórninni á kjörtímabilinu. Björn Bjarnason verður dómsmálaráðherra og Árni Magnússon félagsmálaráðherra í dag þegar ný stjórn tekur við á Bessastöðum eftir hádegið. Á gamlársdag verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og 15. september 2004 verður Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra. Líst vel á að fá þessar konur inn. Tómas Ingi Olrich hefur setið á þingi í 12 ár og verið menntamálaráðherra í tæp tvö ár þegar hann lætur af embætti á gamlársdag. Að honum er mikil eftirsjá en ekkert óeðlilegt að hann stefni í aðrar áttir. Hann fær starf sem hentar vel hans menntun og bakgrunni. Halldór Blöndal hefur setið á þingi í 24 ár og verður áfram forseti Alþingis. Situr á þeim stól til hausts 2005 er Sólveig Pétursdóttir tekur við. Það blasir því við að kjarnakonan Arnbjörg Sveinsdóttir taki sæti á þingi á kjörtímabilinu. Björn Bjarnason mun í framhaldi af þessu hætta sem leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Það fer ekki saman að vera dómsmálaráðherra og leiðtogi í borgarstjórnarflokknum. Verður spennandi að sjá hver tekur við leiðtogahlutverkinu. Fer ég ekki leynt með að ég tel Gísla Martein Baldursson vera framtíðarleiðtoga okkar í borgarstjórn. Framundan er spennandi kjörtímabil í íslenskri pólitík og athyglisverðar breytingar á ráðherraskipan.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem kynntur var í gær, er tekið mið af efnahagslegum stöðugleika, öflugu atvinnulífi og styrkri stjórn landsmála, sem við Íslendingar höfum orðið vitni að á undanförnum árum og leitt hefur af sér lengstu samfelldu kaupmáttaraukningu og hagsældar Íslandssögunnar. Markmið þeirrar ríkisstjórnar sem nú tekur við ætti að gleðja frjálslynda menn. Gerbreyting verður í skattamálum. Meðal annars er ráðgert að lækka tekjuskattsprósentu á einstaklinga um allt að 4%, fella niður eignarskatt, samræma og lækka erfðafjárskattog lækka virðisaukaskatt. Þá er fyrirhugað að auka möguleika almennings á skattfrjálsum viðbótalífeyrissparnaði. Ráðgert er að fylgja eftir heimild Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands. Sala fyrirtækisins mun fara fram þegar markaðsaðstæður leyfa. Gert er ráð fyrir að í heilbrigðisþjónustunni verði hugað að því að nýta kosti ólíkra rekstrarforma og þjónustusamninga um einstaka þætti þar sem það á við til að tryggja ódýrustu og bestu þjónustu sem völ er á, en jafnframt að tryggja áfram jafnt aðgengi allra til að nota heilbrigðisþjónustu. Loks er fyrirhugað að byggja áfram á núverandi aflamarkskerfi með hóflegu veiðigjaldi við stjórn fiskveiða.