Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 júlí 2003

Mál varnarliðsmannsins - lífróður Blair - ríkið og fjölmiðlar
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um málefni bandaríska varnarliðsmannsins - en mikið hefur verið rætt um þau í fréttum seinustu vikur og deilt um lögsögu í málinu og hvort réttað skyldi yfir honum fyrir íslenskum dómstólum eða bandarískum herdómstól, um pólitíska erfiðleika Tony Blair forsætisráðherra Bretlands - sem sífellt virðast vera að magnast og greinilegt að sjálfsmorð dr. David Kelly hefur orðið til að veikja til muna stöðu hans innan Verkamannaflokksins og sem leiðtoga bresku þjóðarinnar, og að lokum um ríkið og fjölmiðla - fjalla ég áfram um framtíð RÚV og velti fyrir mér þeirri spurningu hvort ríkið eigi yfir höfuð að reka fjölmiðla í upphafi 21. aldarinnar, tæpum 20 árum eftir að einokun ríkisins á ljósvakamarkaði leið undir lok.

Lögin hans Valda - minningardiskur um Valda frænda
10. júlí sl. hefði móðurbróðir minn, Þorvaldur Friðriksson á Eskifirði orðið áttræður. Þorvaldur eða Valdi eins og hann var reyndar ávallt kallaður var alla tíð mjög virkur í félagsmálum staðarins og einkum þeim þáttum sem tengdust tónlistinni. 13 ára gamall fór hann að leika á harmonikku og gerði það til æviloka, en hann lést í október 1996. Hann spilaði mjög oft á dansleikjum víða um Austurland, allt frá Álftafirði til Norðfjarðar. Hann var alltaf tilbúinn að leggja lið og draga fram nikkuna þegar á þurfti að halda, hvort sem var á böllum eða við önnur tækifæri. Valdi var einnig góður söngmaður, hann samdi fjölmörg lög, bæði dans- og sönglög og var í tilefni 80 ára afmælis hans gefinn út geisladiskur með lögum hans. Mikilvægt þótti að gefa út diskinn, bæði til að skemmta fólki með góðum lögum Valda og eins til að varðveita þau með þessum hætti. Ellert Borgar Þorvaldsson skólastjóri í Reykjavík og sonur Valda, syngur öll lögin á disknum. Diskurinn er þó fyrst og fremst gefinn út til að minnast heiðursmannsins Valda á Eskifirði.