Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 ágúst 2003

Staða borgarstjóra - varnarmálin - þarft framtak
Í sunnudagspistli vikunnar fjalla ég ítarlega um stöðu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, vegna olíumálsins. Í vikunni skýrði hann frá sinni hlið málsins eftir að hafa svarað spurningum í borgarráði og tjáð sig um málið í fjölmiðlum, einnig kom fram að R-listinn heldur hlífðarskildi yfir honum allavega á þessu stigi málsins enda situr hann á stóli sínum í umboði borgarfulltrúa meirihlutans. Ennfremur fjalla ég um varnarmálin og þarft framtak stjórnar Heimdallar sem sendi í vikunni bréf til þingmanna Sjálfstæðisflokksins og minnti á afstöðu ungra sjálfstæðismanna þess efnis að ekki skuli birta álagningarskrár.

Góð grein Hjölla á frelsi.is
Fyrir skömmu ritaði Hjörleifur Pálsson formaður Hugins í Garðabæ, góða grein á frelsi.is. Þar skrifar hann um einkaframtakið, en hann er trúr sínum hugsjónum og tjáir skoðanir sínar vel í þessum skrifum. Meginuppistaðan í útgjöldum íslenska ríkisins, sem og flestra annarra ríkja, fer til heilbrigðis- og menntamála, og innan þessara málaflokka er þensla ríkisins líka mest. Þrátt fyrir að einkarekstur hafi náð að skjóta rótum innan þessara málaflokka á ákveðnum sviðum þá sér ríkið enn um meginhluta rekstursins. Þarna eru því mörg sóknarfæri og ljóst að til mikils er að vinna að nýta kosti einkareksturs betur. Hvet alla til að lesa þessa góðu grein Hjölla.