Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 ágúst 2003

Staða Ingibjargar - ákall eftir öðru formannsefni
Allt frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð að velja á milli borgarstjórastóls og þingframboðs í desember 2002, hafa verið á lofti raddir þess efnis að hún yrði formaður Samfylkingarinnar á landsþingi flokksins í október 2003. Eftir að taka fimmta sætið á framboðslista flokksins í RN, varð hún jafnframt forsætisráðherraefni flokksins. Hún var andlit flokksins í allri kosningabaráttunni og stefnan var sett á þrennt: koma ISG á þing, gera Samfylkinguna að stærsta flokk landsins og fella ríkisstjórnina. Ekkert af þessu gekk eftir. ISG var valdalaus eftir kosningar og náði ekki kjöri á þing. Formaður flokksins tók skýrt fram eftir kosningar að hann færi fram til formennsku á ný á landsþinginu. Í sumar höfðu magnast raddir þess efnis að ISG ætti að fara í formannsframboð, þrátt fyrir yfirlýsingar hennar um stuðning við Össur fyrir og eftir kosningar. Um helgina var birt skoðanakönnun (gerð fyrripart sumars) þess efnis að rúmlega 87% flokksmanna vildu hana sem formann, en tæp 13% Össur. Hann sagðist þó ekki hætta við formannsframboð og Ingibjörg Sólrún tilkynnti í gær að hún myndi gefa út yfirlýsingu um stöðu sína í dag.

Biðleikur í Samfylkingunni - yfirlýsing um framboð eftir tvö ár
Óvissu um fyrirætlanir Ingibjargar Sólrúnar lauk í kvöld. Hún tilkynnti á sjöunda tímanum um ákvörðun sína. Í stað þess að koma með eina afgerandi ákvörðun, tilkynnti hún um tvær. Annarsvegar um framboð sitt til varaformennsku í flokknum á landsþingi í október, og hinsvegar að hún stefndi að framboði til formanns árið 2005. Framundan er biðleikur í flokknum. Ljóst er að Össur Skarphéðinsson hyggur á að sitja áfram sem formaður og býður sig fram í það, en Ingibjörg muni bíða til ársins 2005, eftir því að sækjast eftir formennsku. Staða Össurar sem formanns næstu tvö ár, ef hann verður endurkjörinn, er þó ekki beysin. Hann er eftir þetta aðeins í þeirri stöðu að leiða flokkinn í gegnum biðtíma eftir öðrum leiðtoga. Ingibjörg heldur til útlanda og ætlar í nám þar, enda mun ekki taka sæti á þingi á næstunni, eins og kunnugt er hafa þingmenn flokksins í RN neitað að standa upp fyrir henni. Í kvöld birtist ISG í spjallþáttum í sjónvarpi og átti í erfiðleikum með að svara spurningum um stöðu sína, enda fá dæmi þess að fólk tilkynni um framboð til embætta með tveggja ára fyrirvara. Vandræðagangurinn í kringum þetta valdabrölt er mjög sérstakt.