Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 október 2003

Ársafmæli bloggvefs Stebba
Í dag er ár liðið síðan ég hóf bloggskrif á netinu. Það var seinnipart októbermánuðar 2002 sem ég ákvað að opna eigin bloggsíðu og tjá þar skoðanir mínar á málefnum samtímans. Fyrr sama ár hafði ég opnað eigin heimasíðu. Fyrir mér var bloggheimurinn frá upphafi einkar spennandi vettvangur til að tjá skoðanir mínar og hef ég uppfært bloggvefinn reglulega allan þennan tíma. Seinustu mánuði hef ég eytt að mínu mati of miklum tíma í spjalli við kverúlanta á einum kima netsins. Þetta horfir nú allt á betri veg fyrir þá fjölmörgu sem líta hér inn og ég mun nú á þessum tímamótum hefja á ný dagleg bloggskrif og verða virkari í þeim en t.d. seinustu mánuði. Pælingarnar halda áfram af krafti.

Öryrkjadómurinn – ómálefnalegheit á spjallvefum
Í sunnudagspistli vikunnar á heimasíðunni, fjalla ég um dóm Hæstaréttar í máli öryrkja gegn ríkinu í vikunni, niðurstöður dómsins og afleiðingar hans. Jafnframt sé ég ástæðu til að beina orðum mínum að umfjöllun stjórnarandstöðunnar um málið á þingi seinnipart vikunnar og sérstaklega gífuryrðum varaþingmanns Samfylkingarinnar sem fór í pontu og lét ummæli falla sem vart teljast eðlileg af manneskju í hennar stöðu sem verðandi sjálfkjörins varaformanns næststærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar. Að lokum fjalla ég um umræður á spjallvefum á Netinu og um þátttöku mína á þeim seinustu þrjú árin, en ég hef þar ávallt tjáð skoðanir mínar og staðið vörð um mínar hugsjónir í pólitík.

Sendiráð Svavars innréttað
Athyglisvert var að horfa á kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins. Þar var viðtal við Svavar Gestsson sendiherra í Svíþjóð og fyrrv. ráðherra og formann Alþýðubandalagsins. Umræðuefnið í viðtali fréttamanns við sendiherrann var það að sendiráðsskrifstofan í Stokkhólmi hefur verið tekin í gegn og gagngerar endurbætur átt sér stað. Þarna tjáði fyrrum kommaþingmaðurinn hverjir hefðu lagt til húsgögnin og hvaðan innréttingarnar hefðu komið. Allt auðvitað í fyrsta klassa og gasalega flott. Það vakti eflaust athygli fleiri en mín að kommaformaðurinn sem eitt sinn trallaði nallann væri kominn í glanslífið með þessum hætti, viðtalið minnti helst á slappa eftiröpun á Völu Matt og Innliti - útliti. Svavar sagði að öllum líði vel í sendiráðinu nýinnréttaða - enda hví ekki? Free expenses og allt greitt. Þetta er hið ljúfa líf. Óskandi er að fréttastofan muni fylgja fréttinni eftir með ítarlegri fréttaskýringu um kostnað skattgreiðenda við þessar framkvæmdir, sem og við önnur sendiráð víða um heim.