Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 október 2003

Burt með kynjapólitík
Athygli vekur að halda eigi stjórnmálanámskeið fyrir konur undir yfirskriftinni „Láttu að þér kveða!“ á vegum Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, Sambands ungra sjálfstæðismanna, Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík. Taldi ég þessa kynjapólitík að baki en sé svo að nú skal leitað til fortíðar í þessu. Get ég ekki annað en lýst yfir vonbrigðum mínum með þetta og tel reyndar ástæðu til að segja afdráttarlaust að í pólitík eigi allir að standa jafnir og komast áfram á eigin verðleikum en ekki kynjastaðals. Í því ljósi get ég ekki verið sáttur við það að öðru kyninu sé hyglað frekar en hinu með þessum hætti.

Jóhannes Páll páfi II á páfastóli í aldarfjórðung
Jóhannes Páll páfi II fagnaði í dag aldarfjórðungssetu sinni í embætti en enginn annar páfi á 20. öld hefur setið jafn lengi og hann og einungis þrír aðrir páfar hafa ríkt lengur en hann. Páfi hefur haldið fast við stefnu sína þrátt fyrir sífellt hrakandi heilsu. Tugir þúsunda pílagríma flykktust á Péturstorgið í Róm til að vera viðstaddir messu sem hófst kl. fjögur að íslenskum tíma eða á sama tíma og hvítur reykur reis upp úr reykháfi Páfagarðs fyrir 25 árum til merkis um að kardínálar hefðu komið sér saman um nýjan páfa. Pólverjinn Karol Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali.

Umdeildur páfi - setið allt til enda á stóli
Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli er Jóhannes Páll II umdeildur páfi. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann sé andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann leggist gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Þrátt fyrir slæmt heilsufar hyggst Páfi sitja á stóli til dauðadags og vísar á bug að hann víki vegna heilsubrests. Það sé hans sannfæring að aðeins Guð geti bundið enda á það verkefni sitt að þjóna í embætti sínu kaþólsku fólki.