Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 október 2003

Arnold Schwarzenegger kjörinn ríkisstjóri
Kvikmyndaleikarinn Arnold Schwarzenegger var í vikunni kjörinn næsti ríkisstjóri Kaliforníu. Gray Davis sem fyrir tæpu ári var endurkjörinn ríkisstjóri, tapaði kosningu um hvort hans umboð myndi halda út kjörtímabilið. Allt frá því hann var endurkjörinn hafa aukist efasemdarraddir um hæfni hans til að gegna embættinu. Fram hefur komið í fjölmiðlum að opinber sjóðþurrð blasi við í þessu auðugasta og fjölmennasta ríki Bandaríkjanna. Efnahagskerfi Kaliforníu er það fimmta stærsta í heiminum, en fjárlagahallinn nemur yfir 35 milljörðum dollara. Kosningin fór þannig fram að kjósendur merktu við hvort hann ætti að sitja áfram á ríkisstjórastóli og jafnframt að velja á milli 135 frambjóðenda um embættið. Sigur Schwarzenegger er mikið áfall fyrir demókrata, enda vann Al Gore sigur í fylkinu árið 2000, þetta hefur verið eitt aðalfylki demókrata og repúblikani ekki unnið þar sigur í forsetakosningum frá 1988 er Bush eldri vann Michael Dukakis. Það verður athyglisvert að fylgjast með forsetaslagnum í fylkinu á næsta ári, enda ríkisstjórinn þá repúblikani.

Edduverðlaun afhend - Nói albinói með 6 verðlaun
Edduverðlaunin 2003 voru afhent í gærkvöld. Kynnar kvöldsins voru Sverrir Þór Sverrisson og Eva María Jónsdóttir. Sigurvegari kvöldsins var kvikmyndin Nói albinói sem hlaut 6 eddur. Leikkonuverðlaunin hlutu Edda Heiðrún Backman (fyrir að leika fyrrverandi borgarstjóra í Skaupi) og skáldkonan Didda (fyrir leik sinn í Stormviðri). Leikaraverðlaunin hlutu Tómas Lemarquis og Þröstur Leó Gunnarsson (fyrir leik í Nóa albinóa). Ómar Ragnarsson fékk Edduna sem fréttamaður ársins og Jón Ársæll fyrir besta sjónvarpsþáttinn, Sjálfstætt fólk. Gísli Marteinn Baldursson var valinn sjónvarpsmaður ársins og Dagur Kári Pétursson hlaut verðlaun fyrir leikstjórn og handrit Nóa albinóa. Heiðursverðlaun akademíunnar hlaut Knútur Hallsson fyrrv. ráðuneytisstjóri.