Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 janúar 2004

John KerryHeitast í umræðunni
Fyrstu forkosningar demókrata vegna forsetakosninganna í nóvember, voru haldnar í Iowa í gær. Skoðanakannanir í Iowa seinustu daga höfðu sýnt að það sem áður hafði verið talið kapphlaup á milli Howard Dean og Dick Gephardt, varð skyndilega að sigurför John Kerry og John Edwards, sem bættu mjög við sig fylgi á lokasprettinum. Niðurstaðan varð að bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John Kerry sigraði forkosningarnar með afgerandi hætti. Eftir þessi úrslit er ekki ólíklegt að Howard Dean sem talinn var sigurstranglegastur frambjóðenda flokksins á landsvísu missi forystusætið í slagnum. Er greinilegt að spá mín sem ég setti fram í grein um miðjan desember í kjölfar handtöku Saddams Husseins, að afstaða Dean til Íraksstríðsins myndi hafa áhrif á stöðu hans í forkosningunum, hefur gengið eftir. Nú skyndilega er Dean kominn í varnarstöðu í forsetaslagnum meðan Kerry sækir að honum. Úrslitin í Iowa voru mikið reiðarslag fyrir Richard Gephardt fulltrúadeildarþingmann frá Missouri. Mun hann tilkynna formlega í dag brotthvarf sitt úr forsetaslagnum. Framundan er spennandi kosningaslagur í New Hampshire þar sem frambjóðendurnir hitta fyrir Joe Lieberman og Wesley Clark, sem tóku ekki þátt í Iowa. Kosningaslagur demókrata sem eitt sinn var talinn fyrirfram ráðinn, er allt í einu orðinn hnífjafn.

SUSStjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt ályktun þar sem harmað er hversu mjög opinberum starfsmönnum hefur fjölgað í samanburði við starfsfólk í einkageiranum á undanförnum árum. Þessi fjölgun hefur átt sér stað þrátt fyrir skattalækkanir og einkavæðingu ríkisfyrirtækja undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Ungir sjálfstæðismenn leggja áherslu á að skattalækkanir og einkavæðing, sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum, og eflt hefur íslenskt atvinnulíf, hefur verið framkvæmdar í andstöðu við vinstri flokkana í landinu. Það er því ljóst að Sjálfstæðisflokknum er einum flokka treystandi til að minnka hlut ríkisins á vinnumarkaði. Til að snúa vörn í sókn telur SUS nauðsynlegt að gripið verði til eftirfarandi ráðstafana: haldið verði áfram að lækka skatta til að efla enn frekar íslenskt atvinnulíf, haldið verði áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, breytt verði um rekstrarform í heilbrigðis- og menntamálum þannig að einkaaðilum verði í auknum mæli gert kleift að veita þá þjónustu sem hið opinbera veitir nú og að lokum hagrætt í ríkisrekstri, sérstaklega á sviðum sem þanist hafa út á undanförnum árum, t.d. í utanríkisþjónustu.

Iceland ExpressUndanfarna daga hefur verið fjallað um að Alþingi kaupi ekki flugmiða á sem ódýrustu kjörum. Upplýst hefur verið að einungis sé keypt af Icelandair, en ekki Iceland Express, þó það bjóði klárlega ódýrustu fargjöldin. Fram hefur komið að rekstrarstjóri þingsins, segi að löggjafinn hafi samning við Ferðaskrifstofu Íslands og að þeir útvegi þinginu þarmeð flugferðir. Samkvæmt þessum samningi skal kaupa fargjöld af því félagi sem lægst býður. Undarlegt er að opinberir embættismenn beri ekki meiri virðingu fyrir peningum skattborgaranna en raun ber vitni. Auðvitað á Alþingi að kaupa flugfarmiða af þeim sem býður bestu kjörin.

Þorbjörg Helga VigfúsdóttirSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag birtist góður pistill Tobbu um skipulagsmál í Reykjavík, eða öllu heldur skipulagsklúður meirihluta R-listans. Orðrétt segir Tobba í pistlinum: "Mörg hver alþjóðleg vörumerki sem einmitt mynda umhverfi fyrir mannlíf og ferðamenn. R-listinn rekur fyrir skattpeninga Reykvíkinga sérstakt fyrirtæki, Aflvaka, sem hefur það verkefni að styrkja miðbæinn og verslun í Reykjavík. En ekkert virkar, R-listinn hefur gefist upp. Nýjasta dæmið um áhugaleysi borgaryfirvalda á verslun í Reykjavík er að ekki skuli hafa fundist lóð við hæfi fyrir IKEA sem opnar nýja búð á þessu ári í Garðabæ. Reykvíkingar eiga það sameiginlegt að bera hag höfuðborgarinnar fyrir brjósti. Framtíð þessarar borgar er heldur ekki neitt einkamál stjórnmálamanna sem fara með tímabundin völd heldur skiptir framtíð Reykjavíkur bæði einstaklinga og fyrirtæki mjög miklu. Það er því komið að því að Reykvíkingar krefjist þess að hlustað sé á óskir þeirra frekar en að hlusta á lýðræðislega kjörna fulltrúar sína segja þeim hvað þeir geta eða geta ekki fengið." Ennfremur bendi ég á ályktun Heimdallar um tónlistarsjóð, DV grein Snorra og umfjöllun um jafnréttisnefnd borgarinnar.

SevenStjórnmál - kvikmyndir
Í gærkvöldi fór ég á bæjarmálafund í Kaupangi. Þar var farið yfir það sem er að gerast í bænum, kynning á bæjarmálum vegna bæjarstjórnarfundar í dag. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar fóru yfir helstu mál eftir áramótin. Að loknum ítarlegum umræðum um þau hélt Halldór Blöndal forseti Alþingis, ræðu. Fór Halldór yfir stöðu stjórnmála og málefni kjördæmisins, en hann og Arnbjörg Sveinsdóttir hafa seinustu vikur verið í fundaferð um kjördæmið. Að þessu loknu sat hann fyrir svörum og varð skemmtileg stjórnmálaumræða. Eftir fundinn var mikið rætt um málin meðal fundargesta yfir kaffisopa. Eftir fundinn hélt ég heim og horfði á úrvalsmyndina Seven með Brad Pitt og Morgan Freeman. Alltaf mögnuð mynd, hef haft mikinn áhuga á myndum Davids Finchers og tel hann með betri nútímaleikstjórum í dag.

e-mailSamskipti við lesendur
Seinustu vikur hef ég tekið eftir að miklu fleiri líti á bloggið en áður, og margir nýjir aðilar farnir að koma í heimsókn hingað. Fagna ég því að fólk líti á bloggið og kynni sér skoðanir mínar og skrif um stjórnmál og mörg önnur áhugamál mín. Ég vil benda þeim sem þetta lesa að hafa samband við mig með einkapósti ef það vill ræða nánar skrifin hvort sem er á heimasíðunni eða bloggvef mínum. Ekkert mál er að senda mér prívatpóst með því að smella á tengla sem er að finna á báðum þeim vefum sem ég skrifa á reglulega. Fagna ég öllum skoðanaskiptum þar eða í gegnum MSN spjallkerfið. Jafnframt vil ég þakka þeim sem þegar hafa samband og ræða málin beint við mig og fara yfir skrif hér.

Vefur dagsins
Kvikmynd Sofiu Coppola, Lost in Translation verður frumsýnd hérlendis eftir nokkrar vikur. Í aðalhlutverki í henni eru Scarlett Johansson og Bill Murray, og þykja bæði sýna stjörnuleik. Hvet alla til að líta á heimasíðu myndarinnar.

Snjallyrði dagsins
Glæpur kapítalismans er ójöfn dreifing gæða, en glæpur sósíalismans er jöfn dreifing ömurleika.
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)