Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 janúar 2004

Hannes Hólmsteinn GissurarsonHeitast í umræðunni
Í gær boðaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson til blaðamannafundar, þar sem hann svaraði ásökunum í hans garð um ritstuld í bókinni Halldór, fyrsta bindi ævisögu rithöfundarins Halldórs Kiljans Laxness. Sendi hann frá sér ítarlega greinargerð vegna málsins. Þar segir hann allt tal um ritstuld í bók sinni, algjörlega fráleitt. Hann segir að skýrt komi fram í eftirmála bókarinnar, að hann nýti sér efni úr minningarbókum Halldórs Laxness og ritum Peters Hallbergs, þótt hann breyti textum eftir þörfum eigin verks. Orðrétt sagði hann á blaðamannafundinum: "Ég gerði ekkert óheiðarlegt og framdi engan ritstuld. Ég stend við að þetta sé vönduð og góð bók" Hann sagði ennfremur að mikið væri af villum og rangfærslum í þeirri gagnrýni, sem hann hefði fengið á bókina. Orðrétt sagði hann ennfremur: "Það blasir við öllum lesendum bókar minnar, hvernig ég nýtti mér minningabækur Halldórs Kiljans Laxness og önnur skrif. Þegar ég taldi almennar lýsingar hans á aðstæðum, atvikum og einstaklingum á ævibrautinni eiga erindi til lesenda, færði ég frásögn hans í óbeina ræðu og úr fyrstu persónu (ég) í þriðju persónu (hann) og breytti henni jafnframt eftir þörfum textans. Stundum hagræddi ég frásögninni ekki mikið, stundum meira, allt eftir því hvað átti við. Þegar Halldór var hins vegar að segja frá eigin skoðunum eða sálarlífi, hafði ég orð hans sjálfs óbreytt með stafsetningu hans og auðkenndi þau. Ég tel þessa aðferð betri en þá að fylla blaðsíðurnar með löngum, beinum tilvitnunum. Það á að laga texta að þörfum verksins í stað þess að láta sér nægja að klippa og líma saman efnishlutana og setja utan um þá gæsalappir. Meginverkefnið var að reyna að nálgast Halldór, fylgja honum eftir á lífsleiðinni".

Halldór e/ Hannes Hólmstein GissurarsonHannes hefur nú svarað ítarlega þeim ásökunum sem fram komu vegna bókarinnar. Það hefur verið með hreinum ólíkindum að fylgjast með þeirri heift og ómerkilegheit sem einkennt hefur þessar árásir að honum. Með greinargerðinni og yfirlýsingum í málinu hefur Hannes tjáð sína hlið málsins. Það ætti öllum að vera nú ljóst að þetta mál hefur allt einkennt að aðför að mannorði Hannesar Hólmsteins og fræðimannsheiðri hans. Sú aðför hefur misheppnast. Greinilegt er að þeir sem hæst hafa látið og fordæmt bókina, hafa algjörlega litið framhjá eftirmála hennar. Þar kemur vel fram að litið er í ýmsar áttir við vinnslu bókarinnar og m.a. stuðst við bækur Peter Hallberg, endurminningabækur skáldsins og ævisögur eiginkvenna hans t.d. Ljóst er að gagnrýni á Hannes einkennist af hroðvirkni og ónákvæmni. Gott dæmi er að þegar kemur að umræðu um ritstuld er auðvelt að vísa því á bug sem fráleitu í ljósi þess að tilvísanir í ritinu eru rúmlega 1600 talsins. Það þarf varla að efast um að Hannes hefur ekki talið að andstæðingar þess að hann ritaði bókina myndu ekki lesa hana í gegn með stækkunargleri, enda margt reynt til að ráðast að honum áður en hún kom út. Það er þó ljóst að þessi aðför að persónu Hannesar og fræðimannsheiðri hans mistekst. Er reyndar með ólíkindum hversu mikil heift sumra er í garð hans.

George W. Bush forseti BandaríkjannaGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, mun í næstu viku kynna formlega áform ríkisstjórnar sinnar, þess efnis að senda mannað geimfar til reikistjörnunnar Mars. Við sama tækifæri mun forsetinn skýra frá áformum um að reisa varanlega rannsóknarstöð á tunglinu. Að sögn embættismanna er ekki gert ráð fyrir að hin mannaða för til Mars eigi sér stað fyrr en eftir að minnsta kosti áratug. Um er að ræða verkefni sem sett er fram á kosningaári þar sem forsetinn vilji kynna næstu skref sín í geimferðaáætlun sinni, en forsetakosningar verða í Bandaríkjunum í nóvember. Geimferjar Columbia fórst fyrir tæpu ári er hún sprakk á leið inn í gufuhvolfið, og ferð geimfars til Mars talið næsta skref í þessum efnum. Líklegt er að forsetinn vilji með þessu minna á að geimferðaráætlunin er í fullu gildi og stefnt að því að þróa hana enn frekar.

Snorri StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu pistill Snorra um sjávarútvegsmál. Orðrétt segir hann: "Á haustþingi voru lagðar fram margar breytingar á skattalögum. Sumar af óbreyttum þingmönnum en aðrar af fjármálaráðherra. Þær síðarnefndur hljóta að teljast líklegri til að vera samþykktar af Alþingi. Með ánægjulegri breytingum sem voru lagðar fram var sú sem felur í sér afnám sjómannafsláttar. Frumvarpið felur í sér afnám sjómannaafsláttar í jöfnum áföngum frá 1. febrúar 2005 til 1. janúar 2008. Með þessari breytingu fellur út það ójafnræði sem í afslættinum felst. Félög sjómanna hafa, svo sem vonlegt er, mótmælt þessari breytingu. Fæstir vilja missa spón úr aski sínum. Skattkerfi sem hyglir einstökum hópum er hins vegar ekki aðeins ósanngjarnt heldur einnig óhagkvæmt. Hinn almenni skattgreiðandi er því miður ekki látinn njóta góðs af þessari breytingu en sjálfsagt væri að lækka hinn almenna tekjuskatt sem nemur þeim tekjum sem bætast í ríkiskassann. Þrátt fyrir að upphæðirnar séu ekki stórvægilegar, sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs, væru þær betur komnar í vasa fólksins en ríkishítinni." Góður pistill, ég hef margoft lýst yfir því að sjómannaafsláttinn verða að fella niður, enda tímaskekkja og því erum við Snorri sammála í þessu eins og flestu öðru.

Jóhanna og ÞórhallurDægurmálaspjallið
Í gærkvöldi var Hannes Hólmsteinn Gissurarson gestur í bæði Kastljósinu og Íslandi í dag. Í ítarlegum viðtölum svaraði Hannes lið fyrir lið þeim ásökunum sem bornar hafa verið á hann vegna útkomu fyrsta bindis ævisögu Halldórs Kiljans Laxness. Óhætt er að fullyrða að hann hafi átt auðvelt með það, enda hefur góðan málstað að verja. Sú aðför sem geisað hefur að honum hefur vakið athygli og ekki erfitt að verja góðan málstað. Einkum fór Hannes á kostum í Íslandi í dag þar sem hann hakkaði lið fyrir lið í sig óvægna gagnrýni Páls Baldvins Baldvinssonar á bókina fyrir jólin. Hlýtur sú spurning að vera ofarlega á baugi hvort gagnrýnandinn hafi einfaldlega lesið bókina, enda margar rangfærslur sem fram komu í gagnrýni hans. Í Kastljósinu fór Hannes ennfremur á kostum og tók gagnrýni á sig auðveldlega fyrir. Eftir þessi tvö ítarlegu viðtöl leikur enginn vafi lengur á að bók Hannesar var vel gerð og vönduð og að gagnrýni óvildarmanna hans missti algjörlega marks.

FrenzyKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi í enn eitt skiptið á magnaða spennumynd meistara Alfred Hitchcock, Frenzy. Næstsíðasta kvikmynd meistara spennunnar var gerð árið 1972 og var hún talsvert frábrugðin fyrri myndum hans og var að öllu leyti gerð í London. Segir frá sakleysingja sem er hundeltur af lögreglunni á meðan raunverulegi kvennamorðinginn, hrottalegur kyrkjari, heldur uppteknum hætti í London. Góður, svartur húmor, en heimilislíf aðal rannsóknarlögreglumannsins er t.a.m. hinn hreinasti unaður, í bland við öll illvirkin og einkar góða spennu. Myndataka og klippingar eru fyrsta flokks og leikurinn er ekki síðri, hér fara þau Jon Finch, Barry Foster, Barbara Leigh-Hunt, Anna Massey og Alec McCowen alveg hreint á kostum. Það sem eyðileggur eilítið fyrir því að myndin eldist ekki eins vel og ella hefur orðið er tíska tímabilsins. Að öllu öðru leyti er myndin stórfengleg. Mögnuð spennumynd.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á bloggvef Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur. Hressileg umfjöllun hjá henni á hverjum degi. Skemmtilegt blogg.

Snjallyrði dagsins
Stjórnmál eru list hins mögulega.
Otto van Bismarck