Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 janúar 2004

Saddam HusseinHeitast í umræðunni - pistill Björns
Bandaríska varnarmálaráðuneytið tilkynnti í gær að Saddam Hussein fyrrum forseti Íraks, skyldi verða skilgreindur sem stríðsfangi en ekki stríðsglæpamaður í varðhaldi. Alþjóðanefnd Rauða krossins segir að sú ákvörðun ráðuneytisins sé lagalega viðunandi þar sem hann hafi verið yfirmaður herja Íraks. Fram hefur komið í máli Nödu Dumani talsmanns Rauða krossins, að mikilvægt væri að bandaríska herstjórnin í Írak tryggði, að Saddam nyti þeirra réttinda sem Genfarsáttmálinn um meðferð stríðsfanga gerði almennt ráð fyrir. Hefur Dumani vísað sérstaklega til 18. greinar sáttmálans, þar sem segir að neiti stríðsfangi að svara spurningum sé ekki hægt að ógna honum, móðga hann eða beita hann líkamlegu eða andlegu harðræði til að reyna að fá hann til að svara. Nærri mánuður er liðinn frá því Saddam Hussein var handtekinn í Írak. Íraska framkvæmdaráðið tilkynnti á dögunum að hægt yrði að rétta yfir Saddam í júní í nýjum stríðsglæpadómstóli sem verið er að koma á fót. Hefur Bush Bandaríkjaforseti, sagt að rétt væri að hann hlyti hina endanlegu refsingu, semsagt dauðadóm. Er ekki ólíklegt að dómstóll í Írak myndi fella slíkan dóm, vissulega líklegra en ef réttað væri yfir honum annarsstaðar.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ pistli vikunnar á heimasíðu sinni fjallar Björn um þau læti sem verið hafa vegna fyrsta bindis ævisögu Halldórs Kiljans Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Bendir Björn á mörg ummæli málsins og fer yfir sögu þess. Orðrétt segir hann: Ég lýsti í síðasta pistli skoðun minni á bók Hannesar Hólmsteins og hef engu frekar við hana að bæta. Hitt hefur vakið vaxandi furðu mína í orrahríð vikunnar, hver margir telja sér fært að segja álit sitt á bókinni, án þess að hafa lesið hana. Í Íslandi í dag á Stöð 2 fimmtudaginn 8. janúar spurði Hannes Hólmsteinn meira að segja, hvort öruggt væri, að gagnrýnandi þess þáttar hefði lesið bókina!". Að lokum segir Björn: "Hvað gerist næst? Auðvitað má búast við því, að þeir, sem hafa tjáð sig um bók Hannesar Hólmsteins, án þess að hafa lesið hana, láti að nýju til sín heyra eftir lestur hennar. Víst er, að Hannes Hólmsteinn er sestur við að rita annað bindið af ævisögunni um Halldór." Góður pistill, og margt athyglisvert í honum sem kemur fram.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræðu seinustu vikna og ómálefnalega aðför vissra aðila að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni vegna útkomu fyrsta bindis hans um ævi nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness og fer yfir málið að nokkru leyti og bendi á athyglisverð ummæli vinstrisinnaðs háskólakennara. Fjalla ennfremur um spjallvefina á Netinu en nú blasir við að reyna muni verulega á raunverulega ábyrgð stjórnenda þeirra á skrifum ómálefnalegra nafnleysingja sem nota vefina til að níða nafngreinda einstaklinga og koma með neikvæð skrif um aðila í skjóli nafnleyndarinnar, aldrei hefur reynt á fyrr en sennilega nú hver ber ábyrgð á orðum nafnleysingjanna. Að lokum fjalla ég um framtíðarsýn Samfylkingarinnar þar sem gamlar og faldar áherslur þeirra fyrir seinustu kosningar eru dregin fram að nýju þegar vel þykir henta.

VertigoLaugardagskvöld - kvikmyndir
Eftir að hafa horft á Silfrið og fréttir leit ég á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þar var hann með brot af því besta frá liðnu ári og mikið af góðu efni sem þar var sýnt. Var gott ár í þættinum hjá Gísla og hann klárlega með einn vinsælasta sjónvarpsþáttinn nú um stundir. Horfði á Spaugstofuna að því loknu. Um níuleytið fór ég að horfa á meistaraverk Hitchcocks, Vertigo. Árið 1958 gerði Hitchcock þessa sína bæði flóknustu og margbrotnustu mynd. Vertigo er enn í dag umtöluð stórmynd. Fjallar um lögguna Scottie Ferguson sem vegna lofthræðslu gerist einkaspæjari eftir slys þar sem vinnufélagi hans lést. Skömmu síðar ræður gamall skólafélagi hans, Scottie, til að fylgjast með eiginkonu sinni Madeleine sem orðið hefur gagntekin af fortíð konu einnar í borginni fyrr á tímum. Scottie eltir hana um stræti San Francisco og flækist um leið í flókna en æsispennandi atburðarás. Einstök mynd þar sem James Stewart og Kim Novak fara á kostum. Magnþrungin tónlist Bernard Herrmann setur sterkan svip á svipmikla mynd. Mynd sem ávallt snertir innstu strengi manns. Þarf að horfa oft á hana til að komast endanlega til botns í margflókinni atburðarásinni. Þetta er skylduáhorf fyrir alla aðdáendur Hitchcocks.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á skemmtilegan bloggvef vinar míns, Gunnlaugs Jónssonar. Hann fer alltaf á kostum við að segja frá málefnum samtímans, og gerir það með sínum hætti. Skemmtilegt blogg.

Snjallyrði dagsins
Happdrætti eru skattur á þá sem kunna ekki að reikna.
Óþekktur höfundur