Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 febrúar 2004

AkureyriHeitast í umræðunni
Reiknað er með að íbúum Akureyrar fjölgi um 200 á ári í forsendum þriggja ára áætlunar Akureyrarbæjar um rekstur, fjármál og framkvæmdir á árunum 2005-2007 sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar í gær. Íbúum fjölgaði um 1,32% á árunum 2002-2003. Þeir eru nú tæplega 16.000 alls. Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára eða 13.03% og hækkun fasteignamats er áætluð 5% og er þar tekið mið af þróun fasteignaverðs á Akureyri undanfarin misseri. Framkvæmdaáætlun áranna 2005-2007 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Einkum er þar um að ræða nýjan leikskóla ásamt hönnun Naustaskóla og endurbætur á Brekkuskóla. Gert er ennfremur ráð fyrir byggingu menningarhúss ásamt því að uppbygging íþróttasvæða mun halda áfram í tengslum við væntanlegt landsmót UMFÍ, sem verður í bænum árið 2009. Um áætlunina segir á vef bæjarins: "Framkvæmdaáætlun áranna 2005 - 2007 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Félagslegum íbúðum verðu fjölgað og má þar nefna 6 íbúðir fyrir fatlaða en heildar kostnaður vegna uppbyggingar á félagslegum leiguíbúðum er áætlaður um 150 millj. kr. Framkvæmdir Norðurorku munu halda áfram og miðast þær að því að tryggja bæjarfélaginu og nágrannasveitarfélögum nægjanlega orku til upphitunar húsnæðis."

John EdwardsJohn Kerry öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, vann nauman sigur á John Edwards, í forkosningum Demókrataflokksins í Wisconsin í gær. Þetta var fimmtándi sigur Kerrys í forkosningum innan flokksins en hann hefur aðeins beðið lægri hlut í tveim forkosningum hingað til. Hann hefur yfirburðarforystu í kapphlaupinu innan flokksins um hver verði frambjóðandi flokksins í komandi forsetakosningum. Þegar nær öll atkvæði höfðu verið talin hafði Kerry hlotið 40%, Edwards 34% og Dean 18%. Edwards hefur aðeins borið sigur úr býtum í einum forkosningum, í Suður-Karólínu en Dean hvergi. Dean lýsti yfir því fyrir kosningarnar í Wisconsin að hann myndi draga sig í hlé ynni hann ekki sigur þar. Ekki er ljóst hvað hann gerir nú eftir þetta afhroð, en flestir hallast að því að hann hætti sínu framboði. Fréttaskýrendur telja að margir tvístígandi demókratar í Wisconsin hafi á síðustu stundu ákveðið að kjósa Edwards. Þar hafi andstaða hans við Fríverslunarsáttmála Norður-Ameríku vegið nokkuð þungt en mikið atvinnuleysi er í Wisconsin og kenna margir þessum sáttmála um það, fyrirtæki hafi mörg hver fært starfsemi sína frá Bandaríkjunum til Mexíkó. 2. mars verða forkosningar í 10 ríkjum, þ.á.m. í tveimur af þremur fjölmennustu ríkjum Bandaríkjanna: Kalíforníu, og New York. Þá ættu úrslitin endanlega að liggja fyrir.

ÍslandÍslendingar eru nú orðnir fleiri en 290.000 og fjölgaði um rúmlega 2.000 á árinu 2003. Dregið hefur nokkuð úr fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu og fólksfækkun utan þess, skv. tölum Hagstofu Íslands. Landsmönnum fjölgaði að meðaltali um tæpt prósent í fyrra. Það er svipað og á árinu 2002 en þeim fjölgar hinsvegar hægar en á árunum á undan því. Ástæðan telst skv. úttektinni lægri fæðingartíðni og það að mun færri flytjast til landsins en áður hefur verið. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 1,1% og á landsbyggð um 0,2%. Landsbyggðin hefur bætt sig nokkuð en fólki fækkaði þar talsvert á árunum 1994-1999. Í Reykjavík hefur dregið úr fólksfjölgun og er hún lítillega undir landsmeðalatali. Akureyringar eru nú 200 fleiri en fyrir ári og þar búa nú yfir 16.000 manns.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í pistli mínum á frelsinu í dag fjalla ég um menntamál og bendi fólki á að menntasóknin er löngu hafin. Fjalla ennfremur um ráðstefnu SUS um menntamál í Hafnarfirði 7. febrúar sl. Frjálsræði það sem Sjálfstæðisflokkurinn kom á í menntamálum með því að ýta undir starfsgrundvöll einkareknu háskólanna er síður en svo sjálfgefið. Það er síður en svo á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka að auka svigrúm einstaklinga á þessu mikilvæga sviði. Það hefur sést vel í Reykjavík hvernig R-listinn hefur þrengt að einkareknum skólum, t.d. Ísaksskóla og Landakotsskóla. Fyrr hefur verið fjallað um hvernig Samfylkingin fór með einkarekna skólann í Hafnarfirði. Það starfsemi og þróunarstarf var barið niður með markvissum hætti. Hið sama yrði uppi á teningnum á öðrum skólastigum, ef vinstri flokkarnir fengju forystu í menntamálum. Þá yrði leitast við að hneppa allt og alla í fjötra ríkisafskipta og færa þessi mál til fortíðar. Það er því engin furða að flestir líti með undrunaraugum til brelluyfirlýsinga Samfylkingarinnar og hókus pókus fyrirheita þeirra, enda hefur sést vel “framsýni” þeirra í þessum málaflokki með verkum þeirra í borgarstjórn Reykjavíkur undir flaggi hins sundurslitna R-lista og meirihluta í Hafnarfirði. Það sem þar hefur gerst í menntamálum gefur ekki góð fyrirheit um þeirra framsýni í menntamálum. Framkvæmdir, þróun og nýjar og ferskar hugmyndir hafa verið mottó Sjálfstæðisflokksins í menntamálum og svo mun alltaf vera. Menntasóknin er löngu hafin og allt gengur vel á þeirri vegferð. Ráðstefna okkar SUS-ara í Hafnarfirði sannar það vel. Ennfremur eru á frelsinu, pistill eftir nýjan penna á vefnum, Pawel Bartoszek, og umfjöllun um frelsisdeildina.

Something´s Gotta GiveKvikmyndir - sjónvarp
Eftir að hafa horft á fréttir skelltum við okkur í bíó. Horfðum á gamanmyndina Something's Gotta Give með Diane Keaton og Jack Nicholson í aðalhlutverki. Fjallar um Harry Sanborn, 63 ára gamlan piparsvein. Áratugum saman hefur hann haldið sig við konur í yngri kantinum, en aldrei viljað festa ráð sitt. Hann er nýbúinn að kynnast hinni ungu Marin Barry, þegar þau ákveða að eyða helginni í villu móður Marin. Hlutirnir fara þó öðruvísi en þau ætluðu, þegar Erica Barry, móðir Marin, kemur óvænt heim, ásamt systur sinni Zoe, þegar Harry og Marin eru rétt búin að koma sér fyrir. Harry lendir svo í þeirri ógæfu að fá vægt hjartaáfall, og neyðist til að dvelja áfram í húsi Ericu á meðan hann er að jafna sig. Málin taka fljótlega að flækjast, og ekki bætir úr skák að læknir Harry, Julian, verður yfir sig hrifinn af Ericu. Frábær samleikur Nicholson og Keaton er aðall myndarinnar og er Diane tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sannkölluð eðalskemmtun í bíó, ættu allir að hafa gaman af þessari. Eftir myndina fór ég heim og horfði á upptöku af bæjarstjórnarfundi þar sem mikið var rætt um þriggja ára áætlun, Melateigsmálið og skipulagsmál. Eftir fundinn horfði ég á endursýnt Kastljós og leit svo aðeins í tölvuna og átti símaspjall við nokkra aðila.

Dagurinn í dag
* 1875 Eldgos hófst í Sveinagjá á Mývatnsöræfum
* 1885 Snjóflóð féll á fjórtán íbúðarhús á Seyðisfirði - 24 létu lífið
* 1910 Tuttugu manns fórust í snjóflóði í Hnífsdal
* 1959 Vitaskipið Hermóður fórst undan Reykjanesi, með allri áhöfn, 12 manns
* 1979 Snjókoma í Sahara eyðimörkinni - í fyrsta sinn svo vitað sé á öldinni

Snjallyrði dagsins
I used to live like Robinson and Crusoe, shipwrecked among 8 million people but one day I saw a footprint in the sand and there you were.
C.C. Baxter í The Apartment