Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 febrúar 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Forseti Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu síðdegis í gær um mál seinustu daga og umræðu um þau. Yfirlýsingin verður vart túlkuð þannig en að mat forseta sé að forsætisráðuneytið hafi markvisst sniðgengið embætti forseta Íslands vegna hátíðarhalda í tilefni af aldarmæli heimastjórnar. Hann segir þar að tekin hafi verið upp önnur vinnubrögð við skipulagningu við þessa hátíð en aðrar fyrri. Er mat forseta skv. þessu að forsætisráðuneytið hafi ákveðið að undirbúa dagskrána án nokkurs samráðs við forsetaembættið. Segir orðrétt reyndar að undir lok seinasta árs hafi undirbúningur vegna hátíðahalda við aldarafmælið staðið mánuðum saman án þess að forsætisráðherra né starfsmenn afmælisins hafi rætt dagskrána beint við forseta. Forseti segir í yfirlýsingunni að hann hafi dregið þá ályktun að hvorki væri óskað eftir beinni framgöngu hans né sérstakri þátttöku í hátíðardagskrá á þessu ári vegna afmælisins. Ljóst er að samskipti forseta og forsætisráðherra eru ísköld eftir atburði seinustu daga. Það sem er athyglisverðast við yfirlýsingu forseta er greinileg afbrýðisemi hans yfir því að afmæli heimastjórnar og Stjórnarráðs Íslands hafi verið skipulögð af forsætisráðuneytinu án samráðs. Flestir vita að embætti forseta Íslands kemur ekki beint nálægt afmælinu, vegna þess að lýðveldi var stofnað 40 árum á eftir heimastjórn. Undarlegt er að forseti hafi ekki leitað með gremju sína fyrr á réttar slóðir, en frekar yfirgefið landið í fússi og haldið í frí. Þetta mál er allt hið einkennilegasta og sýnir reyndar vel persónu þess sem gegnir nú forsetaembættinu.

HeimdallurStjórn Heimdallar, sendi í dag frá sér ályktun í ljósi umræðu seinustu daga um forsetaembættið. Orðrétt segir: "Í ljósi umræðna síðustu daga telur Heimdallur f.u.s. í Reykjavík ástæðu til að ítreka þá skoðun sína að embætti forseta Íslands beri að leggja niður. Embættinu var í upphafi ætlað að koma í stað embætti konungs. Við stofnun lýðveldis 1944 tók forseti yfir þær embættisskyldur sem konungur Danmerkur bar og voru þær ekki margar. Forsetaembættið er engu veigameiri hluti íslenskrar stjórnskipunar heldur en konungsembættið var áður. Hlutverk þess er nær einvörðungu táknræns eðlis. Íslensk stjórnsýsla hefur jafnan verið einföld og laus við allt prjál. Stingur því hið þarflausa forsetaembætti nokkuð í stúf. Þá er embætti forseta Íslands afar kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur landsins. Enn fremur þykir það furðu sæta að embættismaður sem hefur færri skyldur en tali tekur, skuli ekki sjá sér fært að vera viðstaddur merkisatburði á borð við 100 ára afmæli heimastjórnar. Sé þeim embættismanni sem embættinu gegnir raunverulega ætlað að vera sameiningartákn þjóðarinnar er það lágmarkskrafa að hann fagni með þjóðinni á þeim dögum sem hafa sérstakan sess í sögu hennar." Tek ég undir hvert orð í þessari ályktun, enda tjáir hún algjörlega mínar skoðanir á þessu embætti og nauðsyn þess að leggja það niður.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, tjáði sig á þingfundi í dag um málefni Háskóla Íslands. Hún sagði að hún væri reiðubúin til að láta fara fram stjórnsýslu- og fjárhagslega úttekt á málefnum Háskólans, með það í huga að styrkja og efla skólann enn frekar. Menntamálaráðherra sagði að framlög til Háskóla Íslands hefðu verið aukin til muna á undanförnum árum, eins og reyndar til annarra skóla á háskólastigi. Kom fram í máli hennar að ef miðað væri við árið 2000 hefðu framlög til kennslu og rannsókna á háskólastigi aukist um tæp 50% á meðan nemendum hefði fjölgað um 42%. Auk þess benti hún á að framlög til kennslu og rannsókna í Háskólanum einum hefðu aukist um 34% á nákvæmlega sama tímabili og nemendum í skólanum hefði fjölgað um 35%. Á þessu ári nema framlög til skólans rúmum fjórum milljörðum króna, ennfremur er varið um hálfum milljarði til ýmissa undirstofnana skólans. Fram kom í ræðu ráðherra að skólagjöld væru einn þeirra valkosta sem stjórnmálamenn hlytu að velta fyrir sér til að styrkja starf skólanna. Mér leist mjög vel á þennan boðskap ráðherra og ennfremur það að hún taki svo sterkt til orða með skólagjöldin.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjalla ég um forsetaembættið og tjái mínar skoðanir á ríkisráðsfundamálinu og um embættið almennt. Í lok þessa pistils míns segir svo: "Spyrja má sjálfan sig einnar spurningar eftir að hafa farið yfir þetta mál. Er forsetaembættið nauðsynlegt á okkar dögum? Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að tími sé kominn til breytinga. Raunverulegar embættisskyldur forsetans eru einkum formlegs eðlis og í raun gætu þau verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Embætti forseta Íslands er með öllu ónauðsynlegt í lýðræðisríki og ekki síður gríðarlega kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur. Á þingi SUS haustið 2003 var samþykkt ályktun þess efnis að leggja skuli niður embætti forseta Íslands. Embætti forseta Íslands er að mínu mati óþarft við núverandi aðstæður." Hef ég til fjölda ára verið þeirrar skoðunar að leggja skuli embættið niður. Þá skoðun tjáði ég fyrst að mig minnir í skólablaði árið 1993. Sú skoðun var tjáð löngu áður en nokkrum varð ljóst að núverandi forseti yrði kjörinn til þess embættis og því ekki tengt persónu hans. Ég þakka öllum þeim sem sendu mér tölvupóst í dag vegna pistilsins og gott spjall um þetta mál.

Pressukvöld RÚVDægurmálaspjallið
Málefni Sparisjóðanna voru aðalumræðuefni dægurmálaspjallþáttanna í gærkvöldi eins og við mátti búast. Í Kastljósinu voru þau Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, og Lúðvík Bergvinsson alþingismaður, gestir Svansíar. Voru þau ekki algjörlega sammála um ágæti frumvarps ríkisstjórnarinnar um Sparisjóðina, en þó sammála um að vernda skuli þá með lagasetningu. Í Íslandi í dag ræddu Jóhanna og Þórhallur við alþingismennina Einar Odd Kristjánsson og Jóhönnu Sigurðardóttur. Tókust þau talsvert meira á um málið. Eftir stendur að málið verður keyrt í gegnum þingið og verður að lögum á næsta sólarhring sjálfsagt við litla hrifningu margra. Í Pressukvöldi ræddu þrír fréttamenn við Steingrím J. Sigfússon formann VG, og fóru t.d. yfir eftirlaunafrumvarpið og deilu forseta og forsætisráðherra, seinustu daga.

Almost FamousKvikmyndir
Kláraði frelsispistilinn í gærkvöldi og átti gott spjall við góða vini á MSN. Að því loknu horfði ég enn einu sinni á hina mögnuðu kvikmynd Almost Famous. Segir frá William Miller, 15 ára gömlum strák sem hreinlega dýrkar rokktónlist og allt í kringum hana. Árið 1973 fær William það hið gullna tækifæri til að koma sér á framfæri, verkefni hjá tónlistarblaðinu Rolling Stone að fylgja hljómsveitinni Stillwater á tónleikaferðalagi vítt og breitt yfir Bandaríkin. Um leið þarf hann að eiga við móður sína, Elaine sem hreinlega er að kæfa hann með ofverndun sinni. Hann heldur sínu striki og fer með bandinu en það sem fylgir á eftir á ferðalaginu og einkum tvær persónur, gítarleikari hljómsveitarinnar Russell Hammond og grúppían Penny Lane eiga eftir að hafa umtalsverð áhrif á líf hans. Það er ekki aftur snúið fyrir William, hann er kominn á kaf í miðpunkti hinnar alvöru hippasveitar og verður þar vitni að ýmsu sem mótar hann varanlega. Það er hreinlega allt sem gengur upp í þessari mögnuðu kvikmynd. Það sem uppúr stendur þó er handrit Cameron Crowe og magnaður leikur, einkum Kate Hudson og Frances McDormand. Ekta poppmynd.

Dagurinn í dag
* 1967 Bókmenntaverðlaun blaðamanna afhent í fyrsta sinn. Snorri Hjartarson hlaut verðlaunin
* 1988 Jóhann Hjartarson sigraði Viktor Kortsnoj í undankeppni að heimsmeistaraeinvígi í skák
* 1989 Vátryggingafélag Íslands (VÍS) formlega stofnað

Snjallyrði dagsins
I'm the king of the world!
Jack Dawson í Titanic