Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 febrúar 2004

SjávarútvegurHeitast í umræðunni
Fram hefur komið að ekki sé sátt milli stjórnarflokkanna um frumvarp fjármálaráðherra um afnám sjómannaafsláttar, frumvarp ráðherra var tekið af dagskrá Alþingis síðastliðinn mánudag, að kröfu Kristins H. Gunnarssonar sem verið hefur starfandi formaður sjávarútvegsnefndar. Hann hefur nú loks misst þann sess sinn, en ljóst er að afleitt er hvernig Vestfjarðaþingmenn misnota stöðu sína og koma í veg fyrir framfaramál, samanber sjómannaafsláttinn. Sjálfstæðisflokkurinn á formennsku í nefndinni, samkvæmt samkomulagi um nefndaskipan frá því eftir seinustu þingkosningar. Vegna veikinda sinna hefur Árni Ragnar Árnason ekki getað tekið sæti sem formaður nefndarinnar. Nýr formaður var kjörinn í gær, Guðjón Hjörleifsson alþingismaður og fyrrum bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Nokkur umdeild mál bíða umfjöllunar í nefndinni, og er ekki full sátt um þau milli stjórnarflokkanna. Framundan er að ganga frá dagafjölda í handfærakerfi smábáta. Kjarasamningar sjómanna verða eflaust til umræðu, einkum í tengslum við frumvarp fjármálaráðherra um afnám sjómannaafsláttar. Mikilvægt er að það frumvarp verði að lögum á þessu þingi og er leitt að það hafi verið tekið af dagskrá og vonandi leysist úr þeim hnút bráðlega, fyrst kominn er nýr formaður í nefndina. Mikilvægt er að koma böndum á Vestfirðingana og tryggja að framfaramál eins og með afnám sjómannaafsláttar nái í gegn.

PrósenturSeinustu daga hafa birst niðurstöður tveggja skoðanakannana. Í könnun Gallups sem kynnt var um helgina bættu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin lítillega við sig fylgi, miðað við könnun frá desember 2003. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 38% fylgi og Samfylkingin 30%. Framsóknarflokkurinn fékk 14% fylgi. VG hlaut 13%. Frjálslyndir mældust með 6%. 58% karla styðja ríkisstjórnarflokkana en 55% kvenna styðja stjórnarandstöðu samkvæmt könnuninni. Meirihluti kvenna styður stjórnarandstöðuna en meirihluti karla stjórnarflokkana. Í öllum aldurshópum nema 45 til 54 ára hafa stjórnarflokkarnir meirihluta. Skv. könnun Fréttablaðsins í dag er VG orðinn stærri en Framsóknarflokkurinn. VG mælist með með tæplega 3% fylgi en Framsóknarflokkur hefur rúm 11%. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tæp 38%, Samfylking 31% og Frjálslyndir 7. Báðar þessar kannanir eru góð tíðindi fyrir okkur sjálfstæðismenn.

Gerhard SchröderGerhard Schröder kanslari Þýskalands, tilkynnti á föstudag að hann hefði sagt af sér sem leiðtogi þýska Jafnaðarmannaflokksins. Hann hefur verið leiðtogi flokksins frá 1999, í kjölfar þess að Oscar Lafontaine sagði af sér leiðtogasætinu, eftir að samstarf hans og Schröders hafði misheppnast. Var Schröder kanslaraefni SPD árið 1998 og náði kjöri, en Lafontaine var leiðtogi flokksins fram til vors 1999, er samstarf þeirra gekk ekki lengur upp. Sagði Lafontaine þá af sér sem fjármálaráðherra landsins. Schröder segir nú af sér sem leiðtogi flokksins, vegna mikillar gagnrýni sem komið hefur fram á umbótatilraunir þýsku ríkisstjórnarinnar. Líklegast er talið að Franz Müntefering þingflokksformaður jafnaðarmanna, taki við leiðtogasætinu. Schröder heldur áfram sem kanslari Þýskalands. Öllum má þó ljóst vera að staða kanslarans hefur veikst mjög pólitískt og framundan erfið barátta fyrir hann á þingi við sterka stjórnarandstöðu hægrimanna og andstæðinga í eigin flokki sem hafa hann í höndum sér vegna naums þingmeirihluta. Kosningar verða í Þýskalandi í seinasta lagi í september 2006.

SjálfstæðisflokkurinnVinnuvika Varðar
Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, fagnar á morgun 75 ára afmæli sínu. Í tilefni afmælisins hefur stjórn Varðar ákveðið að hafa vinnuviku og minna með því á helstu málefni atvinnulífsins og efna til umræðu um þau á málþingi um næstu helgi í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri. Í vikunni munu birtast vegna afmælisins þrjár greinar í Morgunblaðinu og tvær aðrar að auki ennfremur á Íslendingi. Metnaðarfull stefna félagsins í atvinnumálum er kynnt ennfremur á vef okkar sjálfstæðismanna. Í grein sem birtist í dag í Morgunblaðinu fjalla Guðmundur Erlendsson og Víðir Guðmundsson um landbúnaðarmál. Í henni segir t.d. "Það er komin tími til að eyða ríkisframlögum, styrkjum og höftum úr landbúnaði, gera rekstur arðbæran, hagkvæman og frjálsan í krafti þess og opna dyrnar fyrir nútíð og framtíð í frumframleiðslugreinunum. Það þarf að skapa frelsi í vali fyrir neytendur án afskipta ríkisvaldsins. Það er með öllu ótækt að ríkið skuli meina aðgang annarra þjóða á íslenskan markað til þess eins að hlaupa undir bagga með einni stétt sem síkvartandi segist lepja dauðann úr skel en hleypur hlæjandi í bankann með ríkistékkann sinn á hverju ári." Ítarleg stefna félagsins í landbúnaðarmálum er birt á vefnum í dag.

Ólafur Hvanndal ÓlafssonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Óli um flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Orðrétt segir hann: "Flutningsjöfnun olíu hefur verið við lýði síðan um miðja síðustu öld og var henni komið á í skugga Marshall-aðstoðarinnar, þegar aðstæður voru með þeim hætti að nauðsynlegt þótti að niðurgreiða olíu til hinna dreifðu byggða og stuðla þannig að uppbyggingu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Í dag spyr maður sig þeirrar spurningar hvort sjóður þessi sé raunverulega nauðsynlegur og svarið er klárlega nei. Aðstæður í dag eru allt aðrar en þær voru árið 1950. Er það eðlilegt að bensínverð með niðurgreiðslu úr ríkissjóði sé það sama í Reykjavík og á Hveravöllum? Augljóslega ekki; þeir sem hafa einhverja þörf fyrir að ferðast um fjöll og firnindi geta greitt fyrir þá vöru sem þeir nota, það sem hún raunverulega kostar. Engum myndi til dæmis láta sér detta það í hug að krefja kaupmanninn í Hrauneyjum á Sprengisandi um að hann seldi sér mjólkurpottinn á sama verði og hann kostar í Bónus Holtagörðum." Ennfremur er fjallað um ráðstefnu SUS um menntamál sem var í Hafnarfirði á laugardag. Að auki er athyglisvert netviðtal við Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformann.

ÓskarinnÓskarsvefurinn
Óskarsverðlaunin, kvikmyndaverðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar, verða afhent í Los Angeles sunnudaginn 29. febrúar í 76. skipti. Tilnefningar til verðlaunanna voru kynntar 27. janúar af Frank Pierson forseta bandarísku kvikmyndaakademíunnar og leikkonunni Sigourney Weaver sem á sæti í akademíunni. Í tilefni af afhendingu verðlaunanna hefur kvikmyndir.com opnað hinn sívinsæla óskarsvef sinn. Mun ég sjá þar um að setja inn efni og skrifa um verðlaunin. Þegar hefur þar birst ítarlegur pistill um tilnefningar til verðlaunanna, og samantekt um fróðleiksmola tengda verðlaununum. Framundan er svo meira efni og brátt verður settur á vefinn ítarlegir listar yfir alla vinningshafa í helstu flokkum frá því verðlaunin voru fyrst afhent árið 1928.

Dagurinn í dag
* 1827 Kamsránið - peningum rænt á Kambi í Flóa, leiddi til umfangsmikilla réttarhalda
* 1833 Baldvin Einarsson lögfræðingur, lést 31 árs gamall - gaf út ársritið Ármann á Alþingi
* 1946 Togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst og með honum 30 manns
* 1982 Sjór flæddi um Pósthússtræti og Austurstræti snemma morguns
* 2003 Borgarnesræða ISG - upphaf persónuskítkasts Samfylkingarinnar í kosningabaráttu

Snjallyrði dagsins
What if this is as good as it gets?
Melvin Udall í As Good as it Gets