Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 febrúar 2004

Ástþór Magnússon og Natalía WiumHeitast í umræðunni
Ástþór Magnússon kynnti í dag formlega framboð sitt til embættis forseta Íslands og opnaði nýjan vef tengdan framboðinu. Á vefsíðunni kynnir Ástþór forsetasamning sem hann vill gera milli sín sem forseta og kjósenda sinna. Í forsetasamningnum eru meðal annars ákvæði um að ný lög skuli lögð fyrir forsetann á fundum ríkisráðs. Sé forsetinn staddur erlendis þegar halda þarf ríkisráðsfundi, muni hann leitast við að nota nútíma fjarfundartækni til þátttöku í viðkomandi fundi. Þá segir þar að forsetinn skuli stuðla að virku lýðræði á Íslandi og þjóðinni verði gefinn kostur á aukinni þátttöku með þróun á beinu lýðræði með nútíma tækni. Forsetinn skuli nota neitunarvaldið til að leggja umdeild mál fyrir þjóðina til úrskurðar telji hann að viðkomandi lagasetning sé á skjön við meirihlutavilja þjóðarinnar. Að mati Ástþórs snúast kosningarnar nú um hlutverk forseta Íslands sem boðbera friðar. Þetta er í þriðja sinn sem Ástþór býður sig fram til embættis forseta Íslands. Árið 1996 var hann í framboði ásamt núverandi forseta og þrem öðrum frambjóðendum í kosningum um eftirmann Vigdísar Finnbogadóttur. Árið 2000 bauð hann sig fram en náði ekki að safna tilskyldum fjölda meðmælenda. Ólafur Ragnar Grímsson hefur ekki enn tilkynnt hvort hann bjóði sig fram í þriðja skipti til forsetaembættis. Forsetakosningar eiga að fara fram 26. júní, ef fleiri en einn gefur kost á sér til embættisins.

Forseti ÍslandsForseti Íslands kom fyrir tæpri viku, heim til Íslands, úr skíðafríi sínu til Aspen í Bandaríkjunum. Eins og frægt varð ákvað forsetinn frekar að dvelja í Aspen en hérlendis þann 1. febrúar sl. er 100 ár voru liðin frá stofnun heimastjórnar á Íslandi. Birtist forseti glaðhlakkalegur í afmælisveislu Alfreðs Þorsteinssonar stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, um seinustu helgi og virtist una sér vel. Vill forseti nú ekkert segja um samskipti sín við handhafa forsetavaldsins. Samkvæmt fréttum RÚV vill forseti ekki tjá sig "að svo stöddu" um samskipti við handhafa forsetavalds og hefur ekki rætt þau við þá. Forseti sagði við fréttamann RÚV í dag að ekki væri tímabært að tjá sig um þessi mál og vildi heldur ekkert um það segja með hvaða hætti hann mundi gera það. Ennfremur vildi hann ekki tjá sig um hvort hann gæfi kost á sér til forsetaembættis á ný. Þrír mánuðir eru nú þar til framboðsfrestur til forsetakjörs rennur út.

Red DragonSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Venju samkvæmt var litið á sjónvarpið í gærkvöldi. Horft á Idol og Af fingrum fram. Eftir það var horft á spennumyndina Red Dragon. Gerð eftir fyrstu bók rithöfundarins Thomas Harris um geðsjúklinginn og mannætuna dr. Hannibal Lecter. Hér er því um að ræða fyrsta kafla sögunnar um Lecter og atburðir hennar undanfari óskarsverðlaunamyndarinnar The Silence of the Lambs og Hannibal. Hér segir frá FBI-manninum Will Graham sem er sestur í helgan stein eftir að hafa eytt þrem árum í að fanga dr. Hannibal Lecter og koma honum á bak við lás og slá. Friðurinn er hinsvegar snarlega úti þegar hann er beðinn um aðstoða félaga sína hjá lögreglunni við að finna óhugnanlegan morðingja, Tannálfinn. Morðin eiga það öll sameiginlegt að hafa öll verið framin þegar tungl er fullt og því hafa þeir einungis þrjár vikur til að finna morðingjann áður en hann lætur til skarar skríða á ný. Will ákveður að leita til Hannibals í þeirri von að fá hjá honum aðstoð við að hafa upp á morðingjanum. Framundan er spennandi og athyglisverð leit lögreglumannsins að fjöldamorðingjanum. Þar getur allt gerst. Stórfengleg spennumynd sem hittir beint í mark og fangar athygli allra sannkallaðra spennufíkla. Þrátt fyrir góða takta stenst Red Dragon meistarastykkinu TSOTL ekki snúninginn, er þó miklu betri en Hannibal. Aðall myndarinnar er magnað handrit Ted Tally og frábær leikur sannkallaðra leiksnillinga. Sir Anthony Hopkins fer enn og aftur á kostum í hlutverki mannætunnar og geðlæknisins sem þrátt fyrir sturlun sína er fágaður fagurkeri. Hopkins hlaut óskarinn fyrir leik sinn í TSOTL og hefur mótað á magnaðan hátt einhverja eftirminnilegustu persónu spennumyndanna. Edward Norton á einnig stórleik í hlutverki Will Graham. Ennfremur eru þau Emily Watson, Harvey Keitel og Philip Seymour Hoffman frábær í hlutverkum sínum. Ómótstæðilegur spennutryllir.

ÓskarinnÓskarsvefurinn
Óskarsverðlaunin, kvikmyndaverðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar, verða afhent í Los Angeles sunnudaginn 29. febrúar í 76. skipti. Eins og ég hef áður bent á hér, hefur kvikmyndir.com opnað í tilefni af afhendingu verðlaunanna, hinn sívinsæla óskarsvef sinn. Mun ég sjá þar um að setja inn efni og skrifa um verðlaunin, fyrir og eftir afhendingu þeirra. Þegar hefur þar birst ítarlegur pistill um tilnefningar til verðlaunanna, og samantekt um fróðleiksmola tengda verðlaununum. Ennfremur hafa verið settir þar inn listar yfir sigurvegara helstu flokka. Þar eru listar um sigurvegara í flokki bestu kvikmynda, leikstjóra, leikara, leikkonu, aukaleikara og aukaleikkonu. Á næstunni mun birtast meira efni á óskarsvefnum og t.d. bráðlega pistill þar sem ég spái í spilin fyrir hátíðina.

Dagurinn í dag
* 1599 Leikmannabiblía var gefin út á Hólum í Hjaltadal - aðeins tvö eintök til af henni
* 1895 Kvennablaðið kom út fyrsta sinni - ritstjóri var Bríet Bjarnhéðinsdóttir
* 1945 Dettifoss sökk norður af Íslandi - með því fórust alls 15 manns
* 1965 Blökkumannaleiðtoginn umdeildi, Malcolm X, myrtur í Harlem
* 1972 Söguleg heimsókn Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, til Kína, hófst

Snjallyrði dagsins
We've met before, but something tells me you're going to remember me this time.
Lester Burnham í American Beauty