Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 júní 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Allt frá því að úrslit forsetakosninganna lágu fyrir hefur Ólafur Ragnar Grímsson reynt að snúa út úr þeim skilaboðum sem þjóðin var að senda honum, og kenna öllum öðrum en sjálfum sér um þá staðreynd að hann hlaut minnihluta atkvæða kjósenda í kosningunum. Staðreynd málsins blasir við, að þjóðin hefur klofnað í pólitískar fylkingar vegna ákvörðunar hans 2. júní sl. og eðli forsetaembættisins breyst og virðingin sem meirihluti landsmanna hefur borið fyrir því og þeim sem situr á forsetastóli er ekki lengur til staðar. Gjá hefur myndast milli forsetans og meirihluta landsmanna. Úrslit kosninganna endurspegluðu það. Ég hef ekki farið leynt með að ég skilaði auðu í þessum kosningum, var mjög óánægður með verk sitjandi forseta og gat ekki hugsað mér heldur að kjósa neinn mótframbjóðenda hans. Með atkvæði mínu tel ég mig hafa sent forsetanum afdráttarlaus skilaboð, og það sama gildir eflaust um þá 27.626 sem gerðu slíkt hið sama. Ef það er eitthvað við túlkun forsetans á úrslitunum sem mér hefur mislíkað meira en annað, eru það viðbrögð hans við atkvæði mínu og þeirra sem skiluðu einnig auðu. Hann lætur sem þau séu ekki til og í þeim hafi engin skilaboð falist til handa honum. Forsetinn getur ekki ætlast til þess að hann sé óumdeildur leiðtogi þjóðarinnar meðan hann hagar sér með þeim barnalega hætti að sniðganga þau skilaboð sem rúmur fimmtungur þjóðarinnar sendi honum með því að skila auðu. Túlkun forsetans á veruleika úrslitanna hefur sannað að hann veldur ekki því hlutverki að vera sameiningartákn þjóðarinnar.

StjórnarráðiðStarfshópur ríkisstjórnarinnar um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu, kynnti í gær niðurstöðu sína. Þar kemur fram að eðlilegt sé að setja einhver skilyrði um lágmarksþátttöku eða hvert hlutfall atkvæðisbærra manna þurfi til að fella lög frá Alþingi. Fram kemur í niðurstöðunni að rétt sé að ekki líði minna en mánuður frá því forseti synjar lögum staðfestingar þar til kosning fer fram og ekki meira en tveir mánuður. Ég tek undir með niðurstöðum skýrslunnar og fagna því að skýrslan liggi fyrir og hvet alla til að lesa hana. Persónulega finnst mér vel við hæfi að til þurfi að koma skilyrði um að 44% atkvæðisbærra manna verði að greiða atkvæði gegn fjölmiðlalögunum eigi þau að falla úr gildi, og setja eigi það sem viðmið um þjóðaratkvæðagreiðslu almennt, við þær aðstæður að kosið er um lagafrumvarp frá þinginu. Gallup könnun í gær um þetta mál staðfestir að þessi tala er langt í frá of stór eða gangi of langt, enda vilji fólk almennt kjósa um þetta mál, fyrst kosið er. Afstaða stjórnarandstöðunnar vekur hinsvegar verulega athygli og leiðir hugann að því hvort fólk þar telji sig vera með það vondan málstað í þessu máli að hún geti ekki samþykkt slík skilyrði, sem hljóta að teljast sjálfsögð mörk í stöðunni.

Plan of AttackBókalestur
Undanfarna daga hef ég verið að lesa athyglisverða bók, Plan of Attack eftir Bob Woodward. Bókin fjallar um aðdraganda innrásar Bandamanna í Írak og eftirmála falls stjórnar Saddams Husseins í apríl 2003. Bókin er virkulega vönduð og skemmtileg til lestrar og fræðandi. Fer Woodward yfir marga þætti tengda málinu og veltir upp atriðum og staðreyndum sem ekki lágu fyrir áður. Fjallar hann um málið frá hlið bæði þeirra sem voru hlynntir og andvígir innrásinni í Írak og kemur með athyglisverðan vinkil á málið. Woodward er einn þekktasti blaðamaður og fréttaskýrandi Bandaríkjanna. Woodward er kunnastur fyrir að hafa ásamt félaga sínum á The Washington Post, Carl Bernstein, náð að vekja athygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, í ágúst 1974. Sú saga var sögð í verðlaunamyndinni All the President's Men, árið 1976. Ég hvet alla til að kynna sér feril Woodwards með því að horfa á myndina og ekki síður lesa bókina, sem er mögnuð heimild um eitt mesta hitamál seinustu ára á vettvangi alheimsstjórnmála.

Áhugavert á Netinu
Merkilegar túlkanir á 26. greininni - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Aðeins 42% kosningabærra kusu Ólaf Ragnar Grímsson í forsetakjöri
Forseti með grátstafinn í kverkunum - pistill Benedikts Jóhannessonar
Af nýju forsetaembætti - pistill Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur
Um jafnréttishugtakið - pistill Helgu Baldvinsdóttur Bjargardóttur
Írösk stjórnvöld fá Saddam Hussein formlega í sína vörslu á morgun
Réttarhöld yfir Saddam hefjast á fimmtudag - búist við dauðarefsingu
Auðvelt að rökstyðja 44% skilyrðið - Björn Bjarnason dómsmálaráðherra
'Þjóðarhreyfingin' vill engar takmarkanir á kosningarétti í fjölmiðlakosningu
Súrsætur kosningasigur hjá Paul Martin í kanadísku kosningunum
Hákon krónprins og Mette Marit fara í heimsókn til Siglufjarðar
93% þjóðarinnar hefur áhuga á að kjósa um fjölmiðlalögin í ágúst
Sameining Akureyrarbæjar og Hríseyjarhrepps samþykkt á laugardag
KEA tilbúið að leggja allt að 100 milljónir króna í Vaðlaheiðargöng
Jose Durao Barroso forsætisráðherra Portúgals, tilnefndur forseti ESB
Vinkona Önnu Lindh segir mögulegt að morðinginn hafi elt hana
Gosbrunnur vígður í Hyde Park 6. júlí til minningar um Díönu prinsessu
Góðar fréttir - Óttar Felix Hauksson lækkar plötuverðið í sumar
Það vantar einn í hópinn! - átak gegn umferðarslysum hefst
Margrét Eir Hjartardóttir syngur lagið Í næturhúmi (Moonlight Shadow)
Æviminningar Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna, slá í gegn
Tilkynnt um titil sjöttu bókarinnar um Harry Potter eftir J.K. Rowling
Scarlett Johansson leikur í næstu kvikmynd leikstjórans Woody Allen

Dagurinn í dag
1952 Ásgeir Ásgeirsson bankastjóri og fyrrv. forsætisráðherra, kjörinn forseti Íslands. Ásgeir hlaut 48% greiddra atkvæða og sigraði naumlega sr. Bjarna Jónsson dómkirkjuprest
1974 Isabel Peron tekur við embætti forseta Argentínu, af eiginmanni sínum, Juan Peron, vegna veikinda hans. Hún tók formlega við embættinu við lát hans 1. júlí 1974. Henni var komið frá völdum í valdaráni árið 1976 og stjórn hennar sökuð um óstjórn og glundroða í landinu
1980 Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands, hún hlaut tæp 34% greiddra atkvæða og sigraði Guðlaug Þorvaldsson sáttasemjara, naumlega. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsta konan í heiminum sem kjörin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegum forsetakosningum, sögulegur áfangi
1996 Ólafur Ragnar Grímsson þingmaður, kjörinn forseti Íslands, með 41% greiddra atkvæða
2003 Óskarsverðlaunaleikkonan Katharine Hepburn deyr, í Old Saybrook í Connecticut, 96 ára að aldri. Á 60 ára leikferli sínum hlaut hún fjórum sinnum óskarsverðlaun og var tilnefnd til verðlaunanna 12 sinnum. Hefur enginn hlotið fleiri óskarsverðlaun fyrir leik. Árið 2001 var Katharine Hepburn kjörin leikkona 20. aldarinnar af bandaríska kvikmyndaritinu Empire

Snjallyrði dagsins
Ólafur Ragnar Grímsson hefur endurnýjað frasa sinn frá því fyrir átta árum og sagst taka úrslitum kosninganna „af auðmýkt". Í hverju felst sú auðmýkt hans? Með því að gera ekkert úr því hvernig tugþúsundir Íslendinga ráðstafa atkvæði sínu? Með því að gera ekkert úr því hversu fáir koma til þess að lýsa stuðningi við hann, og það þrátt fyrir að hann sjálfur telji mikla atlögu hafa verið að sér gerða? Með því að gera ekkert úr því að þrátt fyrir átta ára setu í virðulegasta embætti landsins, er hann fjarri því að fá stuðning meirihluta kjósenda?
Úr Helgarsproki Vef-Þjóðviljans, 27. júní 2004