Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 júní 2004

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Fundur forystumanna stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkanna í Stjórnarráðshúsinu í gær stóð einungis í rúmar 15 mínútur. Davíð Oddsson forsætisráðherra, sleit fundi í kjölfar þess að þingflokksformaður vinstri grænna fór að setja skilyrði til að vinna eftir við lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þessi lok fundarins komu fáum á óvart, vandséð var fyrir fundinn hvernig ólík sjónarmið flokkanna gætu farið saman og hægt væri að vinna útfrá því. Það er vonlaust að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna, það vissu menn fyrir fundinn og fengu það staðfest með þessu. Það er með öllu óeðlilegt að stjórnarandstaðan komi á þessu stigi málsins fram með kröfur um lagasetninguna, enda hefur forsætisráðherra nú skipað starfshóp til að vinna að ítarlegum tillögum að lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Í þessum starfshópi eiga sæti hæstaréttarlögmennirnir Karl Axelsson (sem verður formaður), Andri Árnason, Jón Sveinsson og Kristinn Hallgrímsson. Það verður þeirra að koma með tillögur að lögunum, en ekki stjórnmálamanna og því undarlegt af stjórnarandstöðunni að koma með kröfur vegna lagasetningarinnar og að auki tala um hvernig kosningunni verði háttað. Það verður hægt að ræða þessar tillögur vel þegar þær liggja fyrir. Upphlaup stjórnarandstöðunnar vekur því ekki athygli, með hliðsjón af fyrri yfirlýsingum úr þeirri áttinni. Sást reyndar vel að formaður Samfylkingarinnar á erfitt með að hemja skap sitt, enda svaraði hann fyrst ekki spurningum eftir útgöngu af fundinum en tók svo athyglina af hinum fulltrúum andstöðunnar þegar fjölmiðlamenn spurðu þá um stöðuna, er hann hafði náð tökum á sjálfum sér.

Davíð Oddsson forsætisráðherraEftir lok fundarins tilkynnti forsætisráðherra að ríkisstjórnin hefði ákveðið á fundi sínum fyrr um morguninn að Alþingi myndi koma saman mánudaginn 5. júlí til að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um lögin og setja lög um framkvæmd þeirra. Gert er ráð fyrir að þingið muni starfa í rúma viku. Kjördagur hefur ekki verið ákveðinn en dagsetning mun liggja fyrir áður en þing kemur saman. Er líklegast að kosið verði 7. eða 14. ágúst nk. Kostnaður við kosninguna mun nema á bilinu 100-200 milljónir króna. Verk starfshópsins sem fyrr er nefndur mun vera að taka afstöðu til þess við hvaða tímamark sé eðlilegt að miða að kosning fari fram, hverjir séu kosningabærir og hvaða skilyrði sé rétt að miða við þegar kemur að afli atkvæða í henni. Hóf nefndin þegar störf í gærkvöldi. Mikið hefur að undanförnu verið rætt um hvort setja eigi sömu viðmið og R-listinn gerði í flugvallarkosningunni árið 2001, 75% lágmarkskosningaþátttöku til að niðurstaða kosningarinnar verði gild. Hefur fyrrum borgarstjóri reyndar flúið frá afstöðu sinni í því máli og reynir með allörvæntingarfullum hætti að færa rök fyrir að annað eigi t.d. að gilda um kosningu um fjölmiðalög en flugvallarmálið. Er ansi hlægilegt að fylgjast með töktum hennar í þessu máli.

Og eitt að auki. Forsetinn er enn þögull sem gröfin, viku eftir að hann tilkynnti að hann myndi synja fjölmiðlalögunum um staðfestingu, án þess að tilgreina efnislega ástæður ákvörðunar sinnar. Margir vilja að hann rökstyðji ástæður þess að hann beitti þessu geðþóttavaldi sínu með jafnpólitískum hætti og raunin er. Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi, gengur mjög eftir því að forseti mæti sér í Kastljósi og þeir taki málið fyrir í debat þar. Svo virðist vera sem hann ætli ekki að gefa sig í þeirri viðleitni að draga forseta fram í dagsljósið á ný. Til marks um það eru eftirfarandi ummæli hans í dagblaði í dag: "Ég er akandi á eftir honum á 150 kílómetra hraða á Keflavíkurveginum til að reyna að fá svar við þeirri spurningu hvort hann muni taka áskorun minni um að mæta mér í sjónvarpssal.“

Ronald Reagan (1911-2004)Ronald Reagan
Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, lést um seinustu helgi. Mikið hefur verið fjallað um ævi hans og stjórnmálaferil undanfarna daga á ýmsum vefsíðum og í sjónvarpi. Margir þjóðarleiðtogar hafa tjáð sig um persónu Reagans og verk hans á valdastóli, og virðist samdóma álit flestra að Reagan hafi verið einn af merkustu forsetum Bandaríkjanna í 228 ára sögu landsins. Er enginn vafi í mínum huga að svo sé. Er reyndar staðfest með viðbrögðum Bandaríkjamanna við láti hans, hversu gríðarlega sterk staða hans er í raun og veru í sögu landsins. Hef ég seinustu daga verið að lesa aftur bók sem ég eignaðist fyrir nokkrum árum og heitir President Reagan: The Role of a Lifetime og er eftir Lou Cannon. Er það gríðarlega vönduð samantekt og sennilega ein sú besta í bókarformi um forsetaferil Reagans. Cannon fylgdist sem blaðamaður með ríkisstjórakosningunum 1966 þegar Reagan tók fyrst þátt í stjórnmálum og síðar í forsetakosningunum 1980, er Reagan náði kjöri til forsetaembættis, og hefur mikið skrifað um stjórnmálaferil hans. Segir Cannon á leiftrandi hátt frá persónu Reagans og stefnumálum hans á valdastóli. Í gærkvöldi horfði ég á upptöku á heimildarþætti Árna Snævarrs, Refskák í Reykjavík, sem gerður var árið 1996, í tilefni 10 ára afmælis leiðtogafundarins í Reykjavík í október 1986. Var langt um liðið frá því ég sá þáttinn síðast og var gaman að líta á hann, enda leiðtogafundurinn einn af helstu merkisatburðum hér á landi á 20. öld og er órjúfanlega tengdur við Reagan forseta. Í þættinum eru mörg góð viðtöl og yfirlit yfir hvernig fundurinn gekk fyrir sig, en hann er almennt talinn sögulegur hluti af endalokum kalda stríðsins.

Áhugavert á Netinu
Alþingi kallað saman 5. júlí - samráðsfundi slitið eftir 15 mínútna viðræður
Samráðsfundi slitið vegna ósættis forystumanna stjórnmálaflokkanna
Kristján Eldjárn sagði forseta stefna embættinu í háska með að fara gegn þinginu
Aukin þátttaka er nauðsynlegt skilyrði - pistill Friðjóns R. Friðjónssonar
Ályktun stjórnar Heimdallar um endurkomu Ólafs R. Grímssonar í stjórnmál
Ástþór Magnússon vill ræða fjölmiðlalögin við Ólaf Ragnar Grímsson
Rúmlega 100.000 manns hafa vottað Reagan forseta, virðingu sína í Kaliforníu
Mikhail Gorbachev vottar minningu Ronalds Reagans virðingu sína
SÞ samþykkir samhljóða ályktun um Írak - Bush og Putin fagna ályktun SÞ
Fundur leiðtoga 8 helstu iðnríkja heims hefst í dag - vefur G8 fundarins
Mörg umræðuefni á leiðtogafundinum í Sea Island í Georgíu-fylki í BNA
Ríkisráðsfundur ekki á dagskrá þrátt fyrir að ekki skorti umræðuefnin
Nefnd skipuð til að móta lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðslur
Evrópuþingkosningar á morgun - hart barist um atkvæðin í Bretlandi
Sjálfstæðisflokkur leggur fram spurningar í borgarráði um Stjörnubíósreit
Hringadróttinssaga og Kill Bill valdar bestu myndirnar á MTV hátíðinni
George Bush eldri ætlar í fallhlífarstökk í tilefni áttræðisafmælis síns
Umhverfisráðherra í þriggja daga leiðangri með Jöklarannsóknarfélaginu
Íslandsvinurinn Andrés önd sjötugur í dag - merkisafmæli fagnað

Dagurinn í dag
1880 Hornsteinn lagður að Alþingishúsinu við Austurvöll í Reykjavík
1957 Sir Anthony Eden segir af sér embætti sem forsætisráðherra Bretlands
1975 Sjónvarpað í fyrsta skipti beint frá breska þinginu - nú er almennt sýnt frá breska þinginu og BBC sýnir fyrirspurnartíma forsætisráðherra alla miðvikudaga á öllum stöðvum sínum
1983 Margaret Thatcher leiðir breska Íhaldsflokkinn til stærsta sigurs síns í þingkosningum í Bretlandi - Thatcher sat á valdastóli til nóvember 1990 og Íhaldsflokkurinn leiddi stjórn til 1997
2002 Hálfrar aldar valdaafmæli Elísabetar II Englandsdrottningar, fagnað í Bretlandi

Snjallyrði dagsins
How do you tell a communist? Well, it's someone who reads Marx and Lenin. And how do you tell an anti-communist? It's someone who understands Marx and Lenin.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)