Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 júní 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Óhætt er að fullyrða að Ólafur Ragnar Grímsson hafi komið sér í sögubækurnar í gær, þegar hann varð fyrstur forseta til að synja lagafrumvarpi frá Alþingi um samþykki sitt. Í kostulegri yfirlýsingu sinni færði hann engin efnisleg rök fyrir afstöðu sinni og hann svaraði ekki spurningum fjölmiðlamanna eftir lestur hennar. Hefur hann með þessari ákvörðun sinni gjörbreytt eðli forsetaembættisins, sennilega til frambúðar, allavega í valdatíð sinni og kominn aftur í stjórnmálabaráttu og sett forsetaembættið í undarlega stöðu sem engin innistaða er fyrir í reynd. Sú fullyrðing hans að þessi ákvörðun sé ekki gagnrýni á þing og ríkisstjórn er náttúrulega eins og hvert annað rugl, enda gengur hann gegn þingræðinu og hlýtur ákvörðun forseta að túlkast sem algjört vantraust á þá sem lögðu fram fjölmiðlafrumvarpið og er án nokkurs vafa aðför að þingræðinu og þeirri hefð sem markast hefur hér. Ennfremur hefur Ólafur markað endalok þess að forsetaembættið sé sú táknræna tignarstaða sem markaðist í forsetatíð forvera hans og mun með þessu gersamlega opna alla beina pólitíska gagnrýni að sér persónulega og gera embættið með öllu berskjaldað fyrir árásum og gagnrýni sem ekki hefur tíðkast í sögu lýðveldisins. Óskandi er að sú gagnrýni verði beinskeytt og fjölmiðlar spyrji forsetann krefjandi spurninga um afhverju hann tók þessa ákvörðun og færi hana í samhengi við aðra þætti alls málsins, enda er það stórt í sniðum og umfangsmikið.

Ólafur Ragnar GrímssonÞarna vísa ég auðvitað til vanhæfis hans í þessu máli, það blasir við öllum að forsetinn er bæði tengdur fjárhagslegum böndum við stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins (er hefur blásið upp moldviðri að undanförnu) og í gegnum forsvarsmenn forsetaframboðs hans bæði nú og 1996 en þeir eru tengdir sama fyrirtæki órjúfanlegum böndum. Það blasir við öllum að forseti gengur erinda þessa fólks sem stutt hefur hann peningalega og með öðrum hætti í 8 ára forsetatíð sinni, er hann tekur þá ákvörðun sem við blasir og er eðlilegt að hann sé spurður af fréttamönnum beint um þau tengsl, þau séu rakin í fjölmiðlum og hann sé spurður að auki mjög gagnrýninna spurninga um ástæður afstöðu hans. Þetta mál er mjög lítið í sniðum miðað við önnur mál sem þjóðaratkvæðagreiðsla hefur verið haldin um í sögu þjóðarinnar og stórundarlegt, svo ekki sé nú meira sagt, að þetta mál brjóti hefðina sem markast hefur í sögu þessa embættis. Forseti er í kosningabaráttu og eðlilegt mjög að hann sé tekinn í ítarlega yfirheyrslu í fréttamiðlum og sé spurður allra þessara spurninga og fleiri, aðeins þessi tengsl vekja mjög athygli núna en margir aðrir þættir koma upp í hugann sem forseti bæði verður að svara fyrir og tjá sig almennt um opinberlega.

Dr. StrangeloveMeistaraverk - Dr. Strangelove
Horfði í gærkvöldi á Dr. Strangelove, meistaraverk leikstjórans Stanley Kubrick. Myndin var mikil áhætta fyrir Kubrick, enda tekið á mörgum hitamálum og það sett í gamanbúning. Mörgum þótti t.d. fjarstæða að hægt væri að gera gamanmynd um kjarnorku og stríðsógnir. Handritið var upphaflega skrifað sem dramatískt handrit, en Kubrick leit svo á að of margt í handritinu væri það fyndið í raun að ekki væri hægt að líta á það af alvöru. Ein magnaðasta satíra um bombuna sem gerð hefur verið. Bandarískur hershöfðingi sendir upp á sitt eigið fordæmi flugdeild búna kjarnorkuvopnum í árásarferð, Sovétríkin eru í sigtinu. Flugdeildin er sambandslaus og Sovét búið hinu eina, sanna varnarkerfi; ef landið verður fyrir kjarnorkuvopnaárás springur Móðir Jörð í loft upp. Gálgahúmorinn er allsráðandi, hvert atriðið öðru gráglettnara. Peter Sellers er hreint ógleymanlegur í þremur hlutverkum - sem breskur yfirmaður í NATO, forseti Bandaríkjanna og síðast en ekki síst gamli nasistinn, sprengjusmiðurinn. Slim Pickens fer einnig á kostum í hlutverki ævi sinnar sem Suðurríkjahermaðurinn sem fer gandreið á bombunni. Ekki má heldur gleyma stórleik þeirra George C. Scott, Sterling Hayden, Keenan Wynn og James Earl Jones. Hiklaust ein af þeim myndum sem mestan svip hafa sett á kvikmyndasögu seinni hluta 20. aldarinnar. Hvet alla til að sjá hana, eigi þeir kost á því.
stjörnugjöf

Áhugavert á netinu
Vanhugsaðar aðgerðir forseta - pistill Snorra Stefánssonar
Forsetaembættið ekki lengur til í sömu mynd - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Forseti Íslands staðfestir ekki lög þingsins um fjölmiðla
Synjun forsetans persónulega óheimil - Þór Vilhjálmsson
Ákvörðun forseta breytir eðli embættisins - Jón Steinar Gunnlaugsson
Tímamótaákvörðun hjá forseta Íslands - Björg Thorarensen
Ekki fullnægjandi rök hjá forseta fyrir synjun - Baldur Ágústsson
Íslenska friðargæslan stjórnar flugvellinum í Kabúl
Stríðið gegn hryðjuverkum jafnmikilvægt og seinna stríðið - Bush forseti
Ahmed Chalabi lak trúnaðarupplýsingum til óvina Bandaríkjanna
Hver verður varaforsetaefni John Kerry í forsetaframboði hans?
Fantasia og Diana halda tryggð við hvor aðra eftir lok keppninnar
Þriðja myndin um Harry Potter gríðarlega vinsæl
Skildi þrisvar við konuna vegna símnotkunar hennar
Styttist í EM í fótbolta í Portúgal - byrjar 12. júní

Dagurinn í dag
1844 Síðustu tveir geirfuglarnir drepnir á syllu við Eldey, suðvestur af Reykjanesi
1932 Ríkisstjórn Ásgeirs Ásgeirssonar tekur við - sat í rúm tvö ár. Ásgeir varð forseti 1952
1989 Jóhannes Páll páfi II kemur í opinbera heimsókn til Íslands, fyrstur allra páfa
1989 Ayatollah Khomeini erkiklerkur og trúarleiðtogi Írans deyr, 89 ára að aldri
2001 Óskarsverðlaunaleikarinn Anthony Quinn deyr í Boston, 86 ára að aldri

Snjallyrði dagsins
Without discipline, there's no life at all.
Katharine Hepburn leikkona (1907-2003)