Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 júní 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, hefur boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum klukkan 16:15 í dag. Gera má ráð fyrir að fjölmiðlalögin séu tilefni fundarins og hann muni tilkynna um afstöðu sína til laganna á þeim fundi. Eins og ég hef áður sagt hér á þessum vettvangi er afdráttarlaust mín skoðun að forseti Íslands eigi að staðfesta þessi lög. Hefur alltaf verið mitt mat að forseti eigi ekki að ganga gegn þingmeirihluta hverju sinni. Engu skipti hver sé forseti og hvaða flokkar sitji í ríkisstjórn. Meðan embættið er til eigi það að vera óháð og algjörlega hafið yfir flokkapólitík og flokkadrætti. Einmitt á þeim forsendum hefur enginn forseti stigið það skref að ganga gegn samþykktum þingsins, þó nokkrum sinnum hafi forsetinn velt fyrir sér hvaða afstöðu eigi að taka. Nærtækasta dæmið er EES málið árið 1993. Gangi forseti gegn hefðinni yrði hann beinn þátttakandi í flokkspólitískum átökum og áferð embættisins yrði aldrei söm, hann yrði eins og hver annar aðili í deilu og allt tal um sameiningartákn á forsetastóli liði endanlega undir lok. Er reyndar kominn tími til að taka endanlega á öllum vafaatriðum tengdum forsetaembættinu í stjórnarskrá og eins og ég hef áður sagt hér, þarf að gera það skýrt að forseti eigi ekki að hafa málskotsrétt einn.

Ingibjörg Sólrún GísladóttirNý skoðanakönnun Gallups var kynnt í gærkvöldi sem sýnir að stjórnarandstaðan hefur bætt við sig fylgi vegna umræðunnar um fjölmiðlalögin og ríkisstjórnin tapað fylgi. Kemur það ekki á óvart í kjölfar þeirrar einhliða umræðu sem verið hefur í flestum fjölmiðlum landsins um það tiltekna mál. Reyndar mælist Sjálfstæðisflokkurinn þar með svipað fylgi og var í könnun Vef-Þjóðviljans í síðustu viku. Samfylkingin mælist með tæplega 10% minna fylgi en í nýlegri könnun Fréttablaðsins og virðist þannig að sjatna áhrif þessa máls og bendir flest til þess að rykið sé tekið að falla og fólk að hugsa málin betur. Allavega er ekki marktækur munur á stóru flokkunum í Gallup könnuninni og Samfylkingarfylgið byrjað að minnka ef marka má Fréttablaðið. Í fréttum í gær mætti varaþingmaður Samfylkingarinnar til að ræða könnunina og var merkilegt að hún sagði að landsmenn væru orðnir leiðir á landsstjórn sem setið hefði í 9 ár. Þessi skoðun er fróðleg, eflaust er hún sama sinnis um borgarstjórnarmeirihluta sem setið hefur í 10 ár, hlakka til að heyra hana tala um að koma verði R-listanum frá vegna valdasetutíma og hið snarasta.

Jón Baldvin og BryndísSkemmtilegt viðtal
Árið 2002 er ég varð 25 ára, fékk ég athyglisverða afmælisgjöf frá einum vina minna. Hann vissi auðvitað hvar ég var staddur í pólitík og ákvað að eigin sögn að gera mér þann óleik að gefa mér í gjöf viðtalsþáttinn Prívat þar sem Hans Kristján Árnason fjölmiðlamaður, ræddi við Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra og fyrrum ráðherra og formann Alþýðuflokksins. Viðtalið sem gefið var út á myndbandsspólu árið 2001 og var á dagskrá Stöðvar 2 fyrr sama ár er mjög fróðlegt og gagnlegt og áhugavert á að horfa. Hrekkurinn hjá þessum mæta vini mínum sem er vinstrimaður og krati frá æskuárum gekk ekki upp, enda tilkynnti ég honum er ég opnaði gjöfina og ræddi við hann um hana að ég hefði lengi borið mikla virðingu fyrir Jóni Baldvini og hefði haft álit á honum sem stjórnmálamanni, þrátt fyrir að vera stundum mjög ósammála honum, en það er önnur saga. Ég hef nokkrum sinnum horft á þetta ítarlega viðtal og alltaf haft gaman af, seinast um hvítasunnuhelgina. Einn helsti kostur Jóns er frásagnarhæfileikinn og það er engu líkt að hlusta á hann fjalla um málefni Eystrasaltsríkjanna, EES málið og fleiri hitamál stjórnmálaferils hans. Hvet ég alla til að fá sér þessa spólu ef möguleiki er á og lesa ennfremur fyrra bindi góðrar ævisögu hans, en hún heitir Tilhugalíf og kom út árið 2002.

Áhugavert á netinu
Fastur í spennitreyju? - pistill Atla Rafns Björnssonar
Reykingabann og yfirlýsingar varaþingmanns - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Forseti Íslands boðar til blaðamannafundar á Bessastöðum
Hvalveiðar í sumar - stefnt að því að leyfa að veiða 25 hrefnur
Málfundur Sambands ungra sjálfstæðismanna um forsetaembættið
Bush forseti ánægður með nýja ríkisstjórn Íraks
Umfjöllun um hinn nýja forseta Íraks - Ghazi Yawer
Lítill áhugi á kosningum til Evrópuþingsins í aðildarríkjum ESB
Reykingar bannaðar á veitingastöðum í Noregi
Fréttastjóra sagt upp á DV - voru orðnir þrír nú undir lokin
Poppstjarnan Fantasia Barrino íhugar framtíðina
Michael Howard styður líklega bensínmótmæli
Vinsældir Elvis Presley enn miklar - 27 árum eftir lát hans
Heimildarmynd um Bubba Morthens væntanleg
Mourinho til Chelsea - Ranieri til Valencia

Dagurinn í dag
1897 Rithöfundurinn Mark Twain segir að allt tal um dauða sinn sé stórlega ýkt
1934 Dalvíkurskjálftinn, einn stærsti jarðskjálfti við þéttbýli - mældist 6,2 á Richter
1941 Hafnaboltaleikmaðurinn Lou Gehrig deyr úr hrörnunarsjúkdómi, 38 ára að aldri. Einn þekktasti hafnaboltamaður sögunnar - saga hans birtist í myndinni The Pride of the Yankees
1953 Elísabet II Englandsdrottning krýnd við hátíðlega athöfn í Westminster Abbey
1997 Timothy McVeigh dæmdur til dauða fyrir sprengjutilræðið við stjórnsýslubygginguna í Oklahoma í apríl 1995 - hann var tekinn af lífi 11. júní 2001

Snjallyrði dagsins
Raunar eru æsingafull stóryrði mannsins slík í ræðustól á þingi, að þau falla jafnan dauð.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra (um þingfl.form. Frjálsl. fl.)