Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 september 2004

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hafði gegnt embætti utanríkisráðherra í rúm 9 ár, lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður, þegar hann lét af embætti í gær til að taka við forsæti í ríkisstjórninni. Í ítarlegum pistli mínum á frelsi.is á mánudag fór ég yfir utanríkisráðherratíð Halldórs og benti á að þá hefði utanríkisþjónustan bólgnað verulega út. Útgjaldaaukning ráðuneytisins á tæplega 10 ára ráðherratímabili Halldórs nam 170%, sé miðað við t.d. árið 1996, fyrsta heila starfsár Halldórs í ráðuneytinu. Hefur nokkuð verið fjallað um pistilinn í fjölmiðlum. Í DV í gær birtist umfjöllun um pistil minn á frelsinu og helstu tölur sem þar komu fram og farið ítarlega yfir það sem fram kom varðandi ráðherratímabil Halldórs og því sem ég vík að sem væntanleg verkefni Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, á næstunni í ráðuneytinu. Umfjöllunin um pistil minn vakti greinilega athygli Ingu Lindar Karlsdóttur og Heimis Karlssonar umsjónarmanna morgunþáttar Stöðvar 2 og Bylgjunnar, Íslands í bítið. Spurðu þau Halldór í þættinum í gærmorgun um þennan pistil minn og tölurnar sem fram komu. Eins og nærri má geta varð forsætisráðherrann frekar vandræðalegur við að útskýra tölurnar og einkum sem víkja að eyðslunni í sendiráðið í Japan, sem óneitanlega telst glapræði, sé miðað við hvernig til tókst með verkefnið. Reyndi Halldór að víkja að því að þróunaraðstoð hefði sífellt aukist og það væri ástæða eyðslunnar og hvernig tölurnar koma út, eftir ráðherraferil hans. Það er engu að síður staðreynd, hvort sem forsætisráðherra líkar að á það sé bent eður ei, að ljóst má vera að útgjaldaaukningin stafar að töluverðu leyti af því að sendiherrum og sendiráðum Íslands, hefur verið fjölgað umtalsvert. Enginn getur neitað því að mörg ný sendiráð, bæði umfangsmikil og dýr í rekstri, opnuðu á þessu tímabili, og sendiherrum fjölgar sífellt. Það er því engin furða að forsætisráðherrann hafi orðið vandræðalegur í morgunþættinum í gær, þegar talið barst að pistli mínum. Vona ég að pistillinn verði honum gagnlegur þegar hann fer yfir feril sinn í utanríkisráðuneytinu.

Össur SkarphéðinssonÞað hefur varla farið framhjá neinum að forsætisráðherraskipti urðu í gær, þegar Halldór Ásgrímsson tók við embætti forsætisráðherra og Davíð Oddsson varð utanríkisráðherra, eftir 13 ára forsætisráðherraferil. Athygli mína vakti í gær að sjá umfjöllun í Fréttablaðinu þar sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna voru spurðir álits á forsætisráðherraskiptunum og nýjum húsbónda í Stjórnarráðinu. Óneitanlega var fróðlegt að sjá þar viðbrögð Össurar Skarphéðinssonar formanns Samfylkingarinnar. Orðrétt sagði hann í blaðinu: "Þetta á eftir að veikja ríkisstjórnina. Það er lítil hrifning á því meðal almennings að flokkur sem mælist sem minnsti flokkur landsins annað veifið sé nú að taka við forystu í ríkisstjórn. Það er andstætt lýðræðislegri tilfinningu manna í landinu." Við þennan lestur vaknar ein spurning, nokkuð stór og mikil. Er þetta ekki sami formaður Samfylkingarinnar og bauð Halldóri Ásgrímssyni stól forsætisráðherra í vinstri stjórn, áður en kosningaúrslit lágu fyrir að morgni 11. maí 2003 og gekk með því algjörlega framhjá forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningabaráttu mánuðanna á undan, sjálfri Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarfulltrúa? Vildi Össur þá ganga mjög langt til að ná samningi við Halldór og leiða hann til öndvegis í ríkisstjórn. Ekki nóg með það, í viðtali á Bylgjunni að morgni 4. júlí sl. sagði sami Össur að hann væri til í að stefna að stjórn með Framsóknarflokki og undir forsæti sama Halldórs. Ef þetta sannar ekki í eitt skipti fyrir öll að Össur er hinn dæmigerði pólitíski vindhani í íslenskum stjórnmálum, þá veit ég ekki hvað þarf til þess að sanna það! Það er ekki laust við að fyrstu viðbrögð manns við ummælum Össurar nú miðað við ákafa hans í að vinna með Halldóri og gera hann að forsætisráðherra áður, sé fyrst undrun og svo vænt og langt hláturskast.

AkureyriNýr vefur Akureyrarbæjar
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, opnaði í dag nýja heimasíðu Akureyrarbæjar. Er ánægjulegt að líta á vefinn eftir breytingarnar og fara yfir efni hans og umfjöllun á honum. Er vefurinn mikilvægur fyrir okkur sem fylgjumst vel með bæjarmálunum, fréttum og umfjöllun sem þar er í boði. Ljóst er að vefur bæjarins hefur sífellt unnið á, á seinustu árum og nýtur mikillar hylli. Fáir þéttbýliskjarnar á landinu geta státað af jafn vinsælli heimasíðu og Akureyrarbær, samkvæmt mælingum á heimsóknir á vefsíður. Mikið er litið á hana og gagnleg umfjöllun um málefni bæjarins er mikilvægur hlekkur milli bæjarkerfisins og almennings í bænum, hins almenna kjósenda. Við vígslu hins nýja vefs í dag kynnti bæjarstjóri nýjung á vefnum, svokallaðan Akureyrarpúls. Um hann segir svo á vef bæjarins: "Þar er um að ræða undirvef sem er ætlaður til samanburðar á rekstrarumhverfi fyrirtækja á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu. Akureyrarpúlsinn er liður í markaðssetningu Akureyrarbæjar á fyrirtækjamarkaði og segir Kristján Þór að vefurinn sé til þess fallinn að sýna stjórnendum fyrirtækja fram á það, svart á hvítu, hverjir séu helstu kostirnir við að reka fyrirtæki í bænum og gæti þannig orðið til að styrkja atvinnulífið á Akureyri enn frekar en nú er." Ánægjulegt er að líta á vefinn og ástæða til að óska okkur öllum sem búum í bænum til hamingju með hann. Einn félagi minn sendi mér póst um daginn og fagnaði því að ég skrifaði meira um málefni bæjarins en oft áður. Þakka ég þá kveðju og að hann hafi tekið eftir því. Að mínu mati er sjálfsagt að við Akureyringar séum dugleg í að tjá okkur um málefni bæjarins og séum stolt af honum. Hér eru jú öll lífsins gæði!

Dagurinn í dag
1908 General Motors bílafyrirtækið formlega stofnað - er hið stærsta sinnar tegundar í heiminum
1936 Franska hafrannsóknaskipið Pourquoi paz? strandaði í fárviðri við Straumfjörð á Mýrum. Alls fórust í slysinu 38 manns, þ.á.m. vísindamaðurinn dr. Jean Charcot. Aðeins einn komst lífs af
1942 Kvikmyndin Citizen Kane var frumsýnd í Gamla bíói - almennt talin ein besta mynd aldarinnar
1963 Lyndon B. Johnson varaforseti Bandaríkjanna, kom í opinbera heimsókn til Íslands og var vel fagnað. Rúmum tveimur mánuðum eftir heimsókn sína til landsins, varð Johnson 36. forseti Bandaríkjanna. Tók við embætti í kjölfar morðsins á John F. Kennedy forseta, í Dallas í Texas
1977 Óperusöngkonan Maria Callas deyr í París, 53 ára að aldri - var ein besta söngkona aldarinnar

Snjallyrði dagsins
Be who you are and say what you feel, because those who mind don't matter and those who matter don't mind.
Dr. Seuss rithöfundur (1904-1991)