Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 september 2004

George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, þáði útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans í forsetakosningunum 2. nóvember nk. í klukkustundarlangri ræðu á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Madison Square Garden í New York í gærkvöldi. Var forsetanum vel fagnað er hann birtist á sviðinu og þurfti oft að gera hlé á ræðu sinni vegna fögnuðar þingfulltrúa með efni hennar. Í ræðunni lagði Bush fram framtíðarsýn þá sem hann telur blasa við sér og stjórn sinni verði honum falin áframhaldandi stjórn landsins í forsetakosningunum eftir tvo mánuði. Bush varð tíðrætt í ræðunni um utanríkis- og varnarmál og rakti atburðarásina í umdeildum málum tengdum stjórn sinni allt frá hryðjuverkaárásunum í New York og Washington, 11. september 2001 til innrásar herja Bandamanna í Afganistan og Írak á kjörtímabilinu. Sagði hann það hafa verið erfiða ákvörðun að ráðast inn í löndin en það hafi verið nauðsynlegt og hann sagði að heimsbyggðin væri öruggari nú en þá. Ógnin sem til staðar hafi verið sé að baki. Honum varð tíðrætt um skattastefnu sína og framtíðarsýnina sem blasi við í skóla- og heilbrigðismálum. Sagði hann að ekkert myndi halda aftur af Bandaríkjamönnum á næstu árum við að móta líf sitt og framtíð með tilliti til þess að takast á við ógnir vegna hryðjuverka. Bandaríkjamenn væru hugsjónasamir og ákveðnir og fullir stolti vegna bakgrunns síns, bandaríski draumurinn og frelsi einstaklingsins væri nú sem fyrr grunnur að hamingjusömu lífi. Taldi forsetinn upp 15 lykilstefnumál sín sem grunn að stefnu sinni haldi hann völdum eftir kosningarnar. Áfram verði haldið á sömu braut og framtíðin mótuð með tilliti til þess sem áunnist hefði á undanförnum árum undir stjórn sinni. Sagði forsetinn að hann væri bjartsýnn með tilliti til framtíðar landsins og heimsbyggðarinnar. Hann hefði örugga stefnu og vissi hvar hann stæði, á hvað hann tryði á og hvernig hann vildi leiða þjóðina og heiminn á næsta kjörtímabili. Að ræðunni lokinni voru forseta- og varaforsetahjónin hyllt ásamt fjölskyldum sínum á sviðinu. Fjögurra daga flokksþingi repúblikana er nú lokið og kosningabaráttan hefst á ný.

George W. Bush og Laura Welch BushÍ dag eru nákvæmlega 60 dagar til forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Kosningabaráttan hefst nú af fullum krafti og lokaslagur baráttunnar er kominn af stað, nú þegar flokksþingin eru að baki. Demókratar hittust í Boston í Massachusetts fyrir rúmum mánuði og flokksþingi repúblikana í New York sem stóð í vikunni, lauk í gærkvöldi. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum vestanhafs hefur stuðningur við Kerry minnkað og Bush hefur marktækt forskot nú í fyrsta skipti í nokkurn tíma. Hafa Bush og Kerry ráðist mjög harkalega hvor að öðrum undanfarnar vikur og saka hvorn annan um að vera með glataða stefnu í öryggis- og varnarmálum. Stefnir nú flest í að kosningabaráttan nú muni snúast um varnarmálin og ríkisfjármálin. Umfram allt mun baráttan þó snúast um traust: hvorum kjósendur treysti betur fyrir forystuhlutverki þjóðarinnar. Hvorum þeirra sé betur treystandi til að vinna farsællega og með traustvekjandi hætti að heill þjóðarinnar. Liggur vel fyrir að trúverðugleiki Kerrys hefur vakið athygli, hann getur ekki staðið heill með skoðunum sínum gegnum tíðina, tekur u-beygju frá þeim. Þegar er ljóst að trúverðugleiki Kerrys á sínum ferli er að verða honum fjötur um fót. Bush er gagnrýndur fyrir að vera óstöðugur og allt að því vera leikbrúða óþekktra peningaafla og stjórnað af þeim. Ávirðingar milli framboðanna ganga á víxl og langt er síðan tekist var jafnharkalega á. Segja má með sanni að baráttan nú sé harðari og óvægnari en var árið 2000 þegar Bush mætti Gore. Sú barátta lauk með dramatískum hætti. Margir líkja slagnum nú við leðjuslag Kennedys og Nixons árið 1960. Að mínu mati er hann harðari og óvægnari sem leiðir hugann að því hvar mörkin séu þegar tekist er á í stjórnmálum. Barist er um persónur og málefni af slíkum krafti að leðjan flýgur á milli. Kannski er það eðlilegt í jafnmikilvægum kosningum og þessum þegar tekist er á um framtíð Bandaríkjanna á vissum krossgötum í sögu heimsins.

SUSRíkið og ég - málefnaþing SUS á Selfossi 2004
Málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna verður haldið á Selfossi um helgina. Þingið mun hefjast með setningu í Fjölbrautaskóla Suðurlands, seinnipartinn í dag. Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, setur þingið og mun Grétar Magnússon formaður Hersis, flytja stutt ávarp að því loknu. Í kjölfarið mun Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbanka Íslands hf. flytja framsögu um íslenskt atvinnulíf og svara að því loknu fyrirspurnum úr salnum. Hersir, félag ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu, býður til móttöku í félagsheimili sjálfstæðismanna á Selfossi síðar um kvöldið. Í fyrramálið hefst vinna í málefnanefndum í fjölbrautaskólanum og seinnipartinn mun Hægri sveiflan, golffélag ungra hægrimanna, standa fyrir golfmóti. Röraverksmiðjan Set verður sótt heim síðdegis og þar verður boðið upp á léttar veitingar. Um kvöldið verður glæsilegur hátíðarkvöldverður og dansleikur í kjölfarið. Heiðursgestur í kvöldverðinum verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra. Á sunnudeginum fara fram umræður og afgreiðsla á ályktunum þingsins. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg og efla samstöðuna og samheldnina okkar á milli. Ég hlakka til að hitta ungliða af öllu landinu um helgina, eiga við þá gott spjall og skemmtilega stund á Selfossi. Það jafnast ekkert á við að skemmta sér með góðum hópi ungs hægrifólks!

Dagurinn í dag
1939 Bretland og Frakkland lýsa yfir stríði á hendur Þjóðverjum - heimsstyrjöldin stóð í tæp 6 ár
1943 Herir Bandamanna ráðast inn í Ítalíu - veldi Mussolinis þar hafði hrunið nokkrum mánuðum áður
1988 Ölfusárbrúin tekin formlega í notkun - leiðin milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar styttist mjög
1991 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Frank Capra lést í La Quinta í Kaliforníu, 94 ára að aldri
2000 Li Peng forseti kínverska þingsins, kom í heimsókn til landsins. Nokkrar deilur urðu vegna hennar og mótmæli á Austurvelli urðu til þess að Peng ákvað að hætta við heimsókn í þinghúsið

Morgundagurinn
1969 Björgvin Halldórsson kjörinn poppstjarna Íslands - hann varð einn helsti söngvari landsins
1973 Bókstafurinn z var felldur úr opinberu máli, m.a. úr embættisgögnum og kennslubókum
1985 Flak skipsins Titanic sem fórst árið 1912, er kvikmyndað af dr. Robert Ballard, í fyrsta skipti
1997 Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom til landsins til viðræðna við íslenska ráðamenn - Annan hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir umfangsmikil störf sín að friðarmálum árið 2001
1998 Háskólinn í Reykjavík formlega stofnaður og settur í fyrsta skipti - hét áður Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Með nýjum háskólalögum Björns Bjarnasonar ári áður hafði tilvera skólans verið tryggð

Snjallyrði dagsins
I believe this nation wants steady, consistent, principled leadership. And that is why, with your help, we will win this election. The story of America is the story of expanding liberty, an ever-widening circle, constantly growing to reach further and include more. Our nation's founding commitment is still our deepest commitment: In our world, and here at home, we will extend the frontiers of freedom.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna (úr ræðu á flokksþingi repúblikana)