Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 september 2004

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, skipaði í gær Jón Sveinsson lögmann, sem formann einkavæðingarnefndar í stað Ólafs Davíðssonar fráfarandi ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, sem gegnt hefur formennsku í nefndinni frá árinu 2002. Er það í samræmi við það að Framsóknarflokkurinn tekur við forystu nefndarinnar af Sjálfstæðisflokknum samhliða forsætisráðherraskiptum í síðustu viku. Í kjölfar þess tilkynnti hinn nýi formaður að framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefði ákveðið að auglýsa eftir ráðgjafa vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutabréfum ríkisins í Símanum. Mun jafnt innlendum sem erlendum aðilum bjóðast að senda tilboð í ráðgjöfina. Samkvæmt verkefnislýsingu felst verkefni ráðgjafa m.a. í að greina og meta mögulega kosti sem til álita koma við söluna og gera tillögur um hvaða leiðir skuli valdar. Frestur til að skila tilboðum er til 28. október n.k. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem setið hefur frá maí 2003 kemur fram að fylgja skuli eftir heimild þingsins um sölu á hlut ríkisins í Símanum og þess jafnframt gætt að sala fyrirtækisins fari fram þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar og þannig tryggt að ríkissjóður fái sanngjarnt verð fyrir eign sína. Eins og fram kom þegar forsætisráðherra tók við embætti í síðustu viku er stefnt að sölu Símans í vetur. Að mínu mati er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar í vetur að selja Símann og fagna ég því að þetta sé ferli sé komið af stað. Standa verður við það að selja Símann í vetur, eigi samstarf flokkanna að haldast jafntraust og verið hefur. Flest bendir til að ferlið verði klárað á næsta þingvetri, sem er ánægjulegt. Það er nauðsynlegt að binda enda á að ríkið sé í samkeppnisrekstri við einkaaðila.

Halldór Blöndal forseti AlþingisÁ næstu vikum verður formlega stofnað einkahlutafélag um gerð hálendisvegar um Stórasand. Kostnaður við framkvæmdina er áætlaður 4,5 til 5,5 milljarðar króna. Ef af vegagerðinni verður mun leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur styttast um rúmlega 80 kílómetra. Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, flutti á seinasta þingvetri tillögu til þingályktunar um að samgönguráðherra yrði falið að undirbúa og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum vegna vegagerðar frá Norðurárdal í Skagafirði um Stórasand til Borgarfjarðar. Hefur vegurinn jafnan gengið undir nafninu Norðurvegur og hefur Halldór talað af krafti fyrir framgangi hans seinustu ár, fyrst í ítarlegri ræðu í febrúar 2002 og fjallaði nánar um tillöguna í ítarlegum pistli á Íslendingi, 10. febrúar 2002. Gert er ráð fyrir vegagerð um Norðurárdal, síðan þvert yfir Skagafjörð sunnan við Mælifell að Kjalvegi sunnan Blönduóss. Á þessari leið fer vegurinn yfir 700 metra hæð á stuttum kafla. Frá Blöndulóni liggur vegurinn svo um Stórasand að Réttarvatni og síðan um Hallmundarhraun , Kaldadal norðan við Þingvallavatn og síðan um Mosfellsheiði. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að vegurinn liggi niður í Borgarfjörð. Kostnaðurinn við þessa vegagerð er um 5,5 milljarðar króna. Leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur er núna 389 kílómetrar en með tilkomu fullbúins Norðurvegar verður vegalengdin 307 kílómetrar; munurinn er 82 kílómetrar. Nú er í bígerð að stofna sérstakt félag um byggingu Norðurvegar og er verið að safna hlutafjárloforðum. Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi lagði mikla áherslu á þessa vegagerð í seinustu alþingiskosningum og hefur oft síðan ítrekað þessa tillögu sem nauðsynlega til að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur, sem er mikið þarfaverkefni. Nauðsynlegt er að tillagan um Norðurveg komi til framkvæmda á næstu árum og verði að veruleika.

Tinna Gunnlaugsdóttir verðandi þjóðleikhússtjóriTinna Gunnlaugsdóttir skipuð þjóðleikhússtjóri
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur skipað Tinnu Gunnlaugsdóttur í embætti þjóðleikhússtjóra til fimm ára, frá 1. janúar 2005. Tekur hún við embætti af Stefáni Baldurssyni. Átján umsóknir bárust um embættið en þjóðleikhúsráð mælti með sex umsækjendum, þar á meðal Tinnu. Um Tinnu segir svo á vef menntamálaráðuneytisins: "Tinna starfaði hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1978-1979. Hún hóf störf hjá Þjóðleikhúsinu 1979 og var á verkefnasamningi til ársins 1982 er hún hlaut fastráðningu. Hún sat í Þjóðleikhúsráði frá 1988 til 1996 og í verkefnavalsnefnd Þjóðleikhússins frá 1988-2002. Samhliða störfum við Þjóðleikhúsið hefur hún unnið fyrir Alþýðuleikhúsið, Loftkastalann og Leikfélag Íslands. Tinna hefur unnið sem aðstoðarleikstjóri og leikstjóri á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Hún hefur setið í stjórn FÍL og var formaður Leikarafélags Íslands um tíma. Þá hefur hún verið forseti Bandalags íslenskra listamanna frá árinu 1998. Tinna hefur verið í forsvari fyrir norrænu listabandalögin frá árinu 2001 og varaforseti Evrópuráðs listamanna frá 2003. Hún situr í kvikmyndaráði og sem varamaður í barnamenningarsjóði og útflutningsráði. Tinna Gunnlaugsdóttir hlaut Fálkaorðuna fyrir störf að menningarmálum árið 2001." Ég vil óska Tinnu til hamingju með starfið og óska henni allra heilla á nýjum vettvangi.

AkureyriAkureyri í öndvegi
Niðurstöður frá íbúaþinginu Akureyri í öndvegi, sem haldið var í Íþróttahöllinni, sl. laugardag, voru kynntar í gær í Hólum, sal Menntaskólans á Akureyri. Ákveðið var fyrr í vikunni að flytja kynninguna frá Hótel KEA þar sem upphaflega átti að kynna tillögurnar, í stærra rými, þar sem mjög mikill áhugi var fyrir kynningunni, mun meiri en skipuleggjendum íbúaþingsins hafði órað fyrir að yrði raunin. Fundurinn á Hólum var velsetinn og salurinn sneisafullur þegar Sigurborg Kr. Hannesdóttir kynnti niðurstöður þingsins. Það var ráðgjafafyrirtækið Alta sem annaðist samráð við hagsmunaaðila og íbúa en fyrirtækið hefur mikla reynslu á þessu sviði. Sigurborg stjórnaði samráðsfundum og undirbúningi þeirra, Halldóra Hreggviðsdóttir annaðist verkstjórn í öðrum verkþáttum og Pétur H. Ármannsson arkitekt, veitti ráðgjöf um þá hlið sem sneri að arkitektúr, skipulagi og samkeppni. Áhugaverðar og skemmtilegar hugmyndir komu fram á íbúaþinginu og var fróðlegt að heyra helstu grunnniðurstöður þingsins. Á næstu dögum munu aðstandendur íbúaþingsins vinna betur úr þeim gögnum sem söfnuðust og er þeirra að vænta um miðjan október. Þá verður farið í að auglýsa alþjóðlega hugmyndasamkeppni um miðbæinn og verða upplýsingarnar sem fram komu á þinginu forsendur keppninnar. Niðurstöður keppninnar verða formlega kynntar á sumardaginn fyrsta 2005. Eftir fundinn í gærkvöldi var gott að ræða saman um tillögurnar yfir kaffibolla og meðlæti frá Kexsmiðjunni sem boðið var upp á. Er greinilegt að bæjarbúum er ekki sama um þetta mál og vilja allt gera til að taka þátt í að móta kraftmikið og öflugt mannlíf hér, okkur öllum til heilla.

Dagurinn í dag
1241 Snorri Sturluson var veginn í Reykholti í Borgarfirði, 63 ára gamall. Snorri var goðorðs- og lögsögumaður og var valdamikill á Sturlungaöld. Hann varð einn af virtustu rithöfundum þjóðarinnar
1943 Alþingi var afhent áskorun frá 270 kjósendum um að slíta ekki konungssambandi við Danmörku að óbreyttum aðstæðum (stríðinu). Ekki var orðið við áskorununum og lýðveldi var stofnað ári síðar
1952 Leikarinn Charles Chaplin snýr aftur til Bretlands, eftir tveggja áratuga dvöl í Bandaríkjunum
1973 Juan Peron snýr aftur til Argentínu eftir 20 ára útlegð, varð á ný forseti landsins. Peron lést tæpu ári síðar og tók ekkja hans, Isabel Perón, við embætti hans, henni var steypt af stóli 1976
1994 Minnismerki var afhjúpað á Öxnadalsheiði í tilefni þess að Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra, vígði síðasta malbikaða hluta leiðarinnar milli Akureyrar og Reykjavíkur

Snjallyrði dagsins
Horfið er nú sumarið og sólin
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku, léttu ís og myrkur jólin,
nú einn ég sit um vetrarkvöld.

Því eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
Vilhjálmur Vilhjálmsson (1945-1978) Söknuður