Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 september 2004

Jón Steinar Gunnlaugsson verðandi hæstaréttardómariJón Steinar Gunnlaugsson skipaður hæstaréttardómari
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, var í dag skipaður dómari við Hæstarétt Íslands frá og með 15. október. Það var Geir H. Haarde fjármálaráðherra, sem skipaði í embættið en Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, vék sæti vegna máls Hjördísar Hákonardóttur, sem sótti um stöðu hæstaréttardómara í fyrra og aftur nú. Jón Steinar mun taka við embætti af Pétri Kr. Hafstein sem setið hefur í réttinum frá 1991. Aðrir umsækjendur um starfið voru Allan Vagn Magnússon héraðsdómari, Eggert Óskarsson héraðsdómari, Eiríkur Tómasson prófessor, Hjördís Björk Hákonardóttir dómstjóri, Leó E. Löve hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson prófessor. Ég fagna skipan Jóns Steinars í réttinn. Með honum kemur þar inn ferskur vindur nýrra tíma, virkur lögmaður sem hefur víðtæka reynslu sem verður nauðsynleg fyrir réttinn í komandi framtíð. Greinilegt var að Jón Steinar naut ekki sannmælis í umsögn dómara vegna skipunar í réttinn nú. Með ólíkindum var að reynsla hans og störf á sviði lögfræði væru svo lítið metin sem raun ber vitni í mati réttarins. Það á að meta menn eftir réttum stöðlum, en ekki hentiástæðum þegar umsækjendur eru metnir í tengslum við svo virðulegt embætti. Minni ég við þetta tækifæri enn á að mikilvægt er að breyta vinnuferli við skipan dómara í réttinn. Sérstaklega er mikilvægt að binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum, það á að vera í verkahring annarra. Sitjandi dómarar eiga ekki að velja samstarfsmenn sína eða eftirmenn í réttinum. En það er gleðiefni að virkur lögmaður og farsæll á sínu sviði taki sæti í réttinum, enda langt um liðið síðan virkur lögmaður tók þar sæti. Það eina neikvæða við þessa niðurstöðu er að við sem styðjum frelsi einstaklingsins og sjálfstæðisstefnuna í stjórnmálum missum úr sviðsljósinu einn af okkar kraftmestu málsvörum. Það er hinsvegar enginn vafi á að Jón Steinar mun vinna af krafti í nýju starfi. Ég sendi honum mínar innilegustu hamingjuóskir.

Kristinn H. GunnarssonHeitast í umræðunni
Þingflokkur Framsóknarflokksins kom saman í gærkvöldi til að ganga frá nefndaskipan flokksins á komandi þingvetri. Mesta athygli við niðurstöðu þingflokksins vekur óneitanlega að Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður flokksins í Norðvesturkjördæmi, mun ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins í vetur. Kristinn sat áður í fjórum nefndum fyrir flokkinn, var formaður í iðnaðarnefnd og varaformaður í þrem nefndum: efnahags- og viðskiptanefnd, sjávarútvegsnefnd og samgöngunefnd. Hjálmar Árnason þingflokksformaður, hefur sagt að þingmenn flokksins hafi ekki lengur treyst Kristni fyrir því að fara með trúnaðarstörf í þingnefndum. Upphaflega hafi verið um smávægilegan trúnaðarbrest að ræða en endað með algjörum slitum á trúnaði og miklum samstarfsörðugleikum við Kristinn. Kristinn hefur ákveðið að starfa áfram innan þingflokksins, að minnsta kosti fyrst í stað. Hann hyggst taka málið upp á næstu mánuðum á vettvangi miðstjórnar, kjördæmisþings og flokksþings. Segir hann að forysta flokksins sé að hefna sín á sér vegna afstöðu sinnar í tveim málum seinasta vetur, fjölmiðlamálinu og Íraksmálinu. Kristinn gekk í flokkinn fyrir sex árum, en hann hafði áður verið alþingismaður Alþýðubandalagsins. Hann var þingflokksformaður Framsóknarflokksins, kjörtímabilið 1999-2003. Ekki er hægt að segja að þessi ákvörðun þingflokksins komi á óvart. Kristinn hefur allt frá því hann missti þingflokksformennsku hjá Framsókn fyrir rúmu ári verið sólóleikari innan flokksins og þetta endar með þessum hætti. Hann hefur jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fer núna hjá Framsókn, hefur þetta blasað við mjög lengi að svona myndu lyktir mála verða. Á fundi þingflokksins var ákveðið að Siv Friðleifsdóttir fyrrum umhverfisráðherra, yrði formaður félagsmálanefndar og tæki við varaformennsku í utanríkismálanefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd. Eflaust má telja þetta vísbendingu í þá átt að Siv verði félagsmálaráðherra síðar á kjörtímabilinu og hrókeringar verði á stólum þegar líða tekur á tímabilið. Birkir Jón Jónsson tekur við formennsku í iðnaðarnefnd og varaformennsku í sjávarútvegsnefnd. Dagný Jónsdóttir tekur við varaformennsku í efnahags- og viðskiptanefnd og Hjálmar verður varaformaður samgöngunefndar.

AlþingiAlþingi Íslendinga verður sett með formlegum hætti, nk. föstudag, 1. október. Óhætt er að fullyrða að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, verði áberandi á þingi fyrstu starfsdaga nýs þingvetrar. Hann mun sem starfsaldursforseti stjórna fyrsta þingfundi þess, þangað til Halldór Blöndal hefur verið endurkjörinn til setu á forsetastóli þingsins, síðar á föstudeginum. Á þessum fyrsta fundi verða jafnframt kjörnir varaforsetar þingsins og kosið formlega í fastanefndir á vegum þess og ennfremur til Íslandsdeilda þeirra alþjóðasamtaka sem Alþingi er aðili að. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður svo formlega kynnt síðar um daginn og dreift til þingmanna. Halldór mun svo flytja stefnuræðu sína og ríkisstjórnarinnar að kvöldi mánudagsins 4. október. Er það í fyrsta skipti sem hann flytur ræðuna sem forsætisráðherra. Þar fjallar hann um þau verkefni sem framundan eru á vegum ríkisstjórnarinnar áhersluatriði hennar á þingvetrinum. Í framhaldinu fara fram umræður um ræðuna og stjórnmálaástandið almennt. Geir H. Haarde fjármálaráðherra, mun svo á þriðjudeginum 5. október, mæla formlega fyrir frumvarpi til fjárlaga. Flest bendir til að þingveturinn verði rólegur, engar kosningar eru framundan og kosningar ekki nýafstaðnar. Þetta er týpískt milliþing, reyndar má svosem færa að því rök að deilur sumarsins hafi verið svo miklar og harkalegar að menn séu rólegri en oft áður þegar kemur að þingsetningu. Annars fer þetta allt eftir þeim málum sem upp munu koma, hvert stefnan fer á mál og áherslur tengt þeim. Óhætt er að fullyrða að tekist verði á um málefnin og ólíkar skoðanir uppi. Stjórnarandstaðan virkar frekar veikluleg og því gæti orðið minna um raunveruleg átök en oft áður.

Eiffel-turninn í ParísÍslandskynning í París
Seinustu daga hefur staðið í París, íslensk menningarkynning. Hún var formlega sett í byrjun vikunnar og mun standa allt til 10. október. Munu á annað hundrað íslenskir listamenn taka þátt í henni. Kynningin er tvíþætt: annarsvegar er vísindasýning í vísindasafninu Palais de la Découverte í Grand-Palais höllinni, sem byggð var í tengslum við heimssýninguna 1896. Þar verður árangri Íslendinga á sviði eldfjallafræði, haffræði, orku og vetnis, jarðhitafræði og erfðafræði lýst með nýstárlegum hætti. Hinsvegar er efnt til viðburða á listasviðinu: í myndlist, tónlist, bókmenntum, leiklist og kvikmyndum. Það var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, sem opnaði formlega kynninguna. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, er jafnframt í París og hefur undanfarna daga átt þar viðræður við fjölda forystumanna í frönskum stjórnmálum, t.d. Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra Frakklands. Mikið hefur verið fjallað um Íslandskynninguna í frönskum fjölmiðlum. Margir voru viðstaddir tónleika Kristins Sigmundssonar og Jónasar Ingimundarsonar í gærkvöldi og framundan eru menningarviðburðir með Sigur Rós, Steindóri Andersen og Schola Cantorum, Apparat, Jóhanni Jóhannssyni, Mugison og mörgum fleirum. Íslensk menning blómstrar því svo um munar í París þessa dagana.

Dagurinn í dag
1906 Landssími Íslands tók formlega til starfa - sent var fyrsta símskeyti milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Símalínan frá Seyðisfirði norður um land og til Reykjavíkur var 614 km löng
1974 Auður Eir Vilhjálmsdóttir tók prestvígslu, fyrst íslenskra kvenna - hún vígðist fyrst til Staðarprestakalls á Súgandafirði. Auður Eir gaf kost á sér, fyrst kvenna, í biskupskjöri árið 1997
1978 Tilkynnt formlega um lát Jóhannesar Páls páfa I. Hann var 65 ára er hann lést og hafði aðeins setið á páfastóli í 33 daga, en hann var kjörinn til setu á páfastóli í ágúst 1978 - lengi hefur verið uppi sá orðrómur um að páfanum hafi verið byrlað eitur. Eftirmaður hans tók sér nafn hans til minningar um hinn látna páfa og var kallaður Jóhannes Páll páfi II. Hann hefur setið á páfastóli síðan, í 26 ár
1990 Nesjavallavirkjun í Grafningi var formlega gangsett af Davíð Oddssyni þáv. borgarstjóra
2000 Auðlindanefnd skilaði tillögum sínum. Hún lagði til í skýrslu sinni að sett yrðu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á náttúruauðlindum landsins og gjald skyldi tekið fyrir nýtingu þeirra

Snjallyrði dagsins
Laughter is the sun that drives winter from the human face.
Victor Hugo rithöfundur (1802-1885)