Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 janúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um ótrúleg mistök í fréttamennsku hjá fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, en þau leiddu til þess að fréttamaður varð að segja af sér og trúverðugleiki stöðvarinnar laskaðist verulega. Róbert Marshall fór fram með ótrúlegum hætti í þessu máli sem mörgum öðrum áður. Hann gerði sér það sem grunn að forsætisráðherra hefði logið að þjóðinni, hafði ekki fyrir því að kynna sér almennan grunn málsins fyrirfram og sannreyna stöðu mála. Farið var fram með miklum þjósti og afleiðingarnar voru eftir því þegar kom í ljós að hann hafði algjörlega misst sig í málinu og farið fram með óverjandi rangfærslur og ómerkileg vinnubrögð í fréttamennsku. Róberti var því auðvitað ekki sætt lengur í fréttamannsstörfum og leikur reyndar mikill vafi á hvort hann sé trúverðugur sem formaður Blaðamannafélagsins eftir þessi mistök hans. Framganga Róberts hefur oft leitt til deilna, eftir að hann varð fréttamaður í kjölfar þess að vera í forystusveit ungliðahreyfingar jafnaðarmanna fyrir nokkrum árum. Ekki gleymist svo glatt hvernig hann kom fram í hita fjölmiðlamálsins í maí 2004. Í tölvupósti sem hann sendi út þá, við upphaf undirskriftasöfnunar gegn lögum um eignarhald fjölmiðla, hvatti hann alla til að reyna að fá sem flesta til að skrifa undir og jafnvel reyna að fá þá sem væru hlynntir lagasetningu um eignarhald fjölmiðla til að gera það líka, semsagt beita öllum brögðum í baráttunni.

Enginn vafi lék á að Róbert missti stóran hluta trúverðugleika síns við þessi vinnubrögð sín, einkum á grundvelli þess að hann var forystumaður. Ekki verður betur séð en að ferli Róberts í fréttaumfjöllun sé lokið, a.m.k. með trúverðugum hætti, hvað svo sem síðar verður, eftir að hann nær að standa í lappirnar eftir þetta klúður sitt. Eftir stendur hvort ekki sé rétt að yfirmaður Stöðvar 2 segi af sér einnig, eftir slík gríðarleg og ófyrirgefanleg mistök, svo Páll endi ekki með laskað bros í fréttaþularstól eins og Dan Rather, sem var neyddur til að víkja úr forystu fréttamála hjá CBS eftir villandi fréttamennsku í fyrra. Í vikunni fór ég á fundaferð flokksins um Austurland og ræddi við flokksfélaga og kjósendur þar. Var mjög ánægjulegt að kynna sér uppganginn í Fjarðabyggð t.d. Fjalla ég um ferðina í pistlinum. Harkaleg valdabarátta er innan Samfylkingarinnar samhliða formannskjöri, fjalla ég um lætin þar og stöðu mála samhliða þessu uppgjöri valdatvíeykisins margfræga þar. Í gær áttu Össur og Ingibjörg að mætast á flokksfundi á Akureyri. Össur komst fljúgandi til Sauðárkróks og tók bílaleigubíl þaðan en Ingibjörg komst ekki norður, enda flugi aflýst vegna veðurs. Ekki var því neitt af baráttu milli þeirra hér um helgina eins og stefndi allt í að yrði. Össuri var vel tekið á Akureyri, enda blasir við að staða hans sé sterk hér á meðal flokksmanna. Sést það vel á því að Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson eru dyggir stuðningsmenn hans. Að auki hefur Lára Stefánsdóttir varaþingmaður flokksins í kjördæminu, hannað vef fyrir Össur, þar sem eru bæði skrifaðar og talaðar bloggfærslur. Að lokum vík ég að þingkosningunum í Írak sem haldnar voru í dag.

Kári StefánssonGóð grein Kára Stefánssonar
Kári Stefánsson forstjóri, skrifaði merka grein í Fréttablaðið í gær. Þar svarar hann makalausri grein Hallgríms Helgasonar í blaðið á gamlársdag. Orðrétt segir þar: "Ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi frumvarp til laga sem fjallaði aðallega um það hversu mikið menn mættu eiga í fjölmiðlum. Málið var flutt af töluverðri hörku og það urðu miklar deilur um það í samfélaginu og DV og Fréttablaðið birtu margar greinar um það á degi hverjum, nær allar sneisafullar af hvassri gagnrýni á frumvarpið. Og ekki var sparað skítkastið í garð Davíðs og ríkisstjórnarinnar og má segja að í umfjöllun sinni um þetta mál hafi þessi tvö dagblöð brotið blað í sögu íslenskrar blaðamennsku með hlutdrægni og persónulegum árásum. Að vísu hefur mér fundist DV almennt vera sóðapappír upp á síðkastið og brjóta margt fleira en blöð í sögum. Frumvarpið var samþykkt og lögin voru send forsetanum til staðfestingar. Hann tók þá ákvörðun að staðfesta þau ekki þótt slík ákvörðun hefði aldrei áður verið tekin í sögu lýðveldisins.

Þótt ég hefði á sínum tíma lítt mótaða skoðun á þessari ákvörðun var mér strax ljóst að hún hlaut að vekja spurningar um túlkun hans á stjórnarskránni, ákvörðun hans að beita ákvæðinu eins og hann skilur það og síðast en ekki síst spurningar um það hvort stjórnarskráin í núverandi mynd þjóni landsmönnum vel. Það eru til dæmis þeir sem halda því fram að ákvæði stjórnarskrárinnar sem veitir forseta vald til þess að staðfesta ekki lög hafi að öllum líkindum verið sett til þess að hann gæti komið í veg fyrir stórslys einsog að gráðugir þingmenn seldu Vestmannaeyjar en varla til þess að koma í veg fyrir lög sem fjalla um málefni á borð við eignarhald fjölmiðla. Andstæðingar fjölmiðlafrumvarpsins héldu því margir fram að eignarhald á fjölmiðlum skipti ekki máli vegna þess að það hefði engin áhrif á ritstjórn þeirra. Samkvæmt skoðunum þeirra var forsetinn að kippa þingræðinu úr sambandi vegna heldur lítilvægs málefnis. Er nema vona að þessi ákvörðum vekti spurningar. Hér var forsetinn að grípa inn í starf Alþingis á pólitískan hátt og það ber að hafa í huga að hér var ekki um að ræða fyrsta skiptið sem Ólafur Ragnar Grímsson skipti sér af pólitík. Hann var atvinnupólitíkus um áratugaskeið og var meirihluta þess tíma ötull talsmaður stjórnmálaflokks sem var hatramur andstæðingur núverandi stjórnarflokka, stjórnmálaflokks sem var oftast lítll og óvinsæll. Sú staðreynd fór ekki framhjá mér vegna þess að faðir minn var þingmaður fyrir þennan smáa og óvinsæla stjórnmálaflokk."

Stjáni og Sigga í Krossanesborgum

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, undirritaði á fimmtudag auglýsingu um friðlýsingu Krossanesborga sem fólkvangs. Undirritunin fór fram á staðnum og fluttu þar stutt ávörp m.a. ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og forstöðumaður náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Markmiðið með friðlýsingu Krossanesborga er að vernda svæðið til útivistar fyrir almenning, náttúruskoðunar og fræðslu. Auk þess er verndaður mikilvægur varpstaður fjölda fuglategunda, búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og sérstæðar jarðmyndanir og þannig stuðlað að varðveislu líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni. Var leitt að geta ekki verið viðstaddur afhöfnina, en við Sigga náðum að ræða þessi mál um kvöldið í Mývatnssveit, þar sem hún var á fundi flokksmanna ásamt Halldóri Blöndal forseta Alþingis.

Saga dagsins
1948 Mahatma Gandhi myrtur í Nýju Delhi á Indlandi. Gandhi var 78 ára að aldri er hann lést. Gandhi var sjálfstæðishetja Indverja og leiddi baráttu þeirra til fulls sjálfstæðis í tæp 40 ár. Hugsjónabarátta hans efldi Indverja til dáða og hann var þjóðarhetja landsins en var umdeildur meðal trúarhreyfinga. Hann var myrtur af öfgafullum hindúa. Indland varð formlega sjálfstætt ríki síðar sama ár og hann lést
1965 Sir Winston Churchill fyrrum forsætisráðherra Bretlands, jarðsunginn. Hann var borinn til hinstu hvílu í Oxfordskíri, við Blenheim-kastala - þúsundir manna fylgdu Churchill seinasta spölinn
1988 Listasafn Íslands var vígt í nýjum húsakynnum við Fríkirkjuveg í Reykjavík - var stofnað 1884
2002 Bandaríski fréttamaðurinn Daniel Pearl myrtur í Pakistan - honum var rænt og var síðar myrtur
2005 Fyrstu fjölflokka þingkosningarnar í Írak, frá árinu 1954, haldnar í skugga hryðjuverka og átaka

Snjallyrðið
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!
Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Ég bið að heilsa)